Frá ritara Samtaka

Opinn fundur foreldra um tölvunotkun barna og unglinga var haldinn í Brekkuskóla 24. mars síðast liðinn. Um 105 foreldrar sóttu fundinn og var það gleðiefni og mátti vel greina áhuga foreldra á að vita meira um þessi mál og vilja þeirra til að láta til sín taka. Markmið þessa fundar var að upplýsa um þróun mála hjá börnum í þeim tækniheimi sem við búum við í dag, heilbrigði þeirra og hvernig foreldrar geta spornað gegn óæskilegri notkun, stuðlað að bættu heilbrigði barna og aukið forvarnir.

Guðjón Hreinn Hauksson kynnti sig sem ráðvillt foreldri sem hann sagði sig vera þessa dagana og fór yfir nokkur atriði er varða tölvunotkunina og hvað verið er að bjóða börnunum upp á. Það er óhætt að segja að hann hafi snert við hjörtum fundargesta með sýnishornum úr netheimum.

Að því búnu ræddu Eygló Björnsdóttir og Anna Elísa Hreiðarsdóttir lektorar við HA um þróun og möguleika tækninnar og hvernig hún er að birtast í heimi barnanna og hvernig hún getur einnig nýst þeim á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Börn eru ótrúlega fljót að læra á það hvernig tæknin virkar og við fullorðna fólkið þurfum að hafa okkur öll við að fylgjast með.

Gunnar Svanbergsson, faðir og sjúkraþjálfari er mikill áhugamaður um hreyfingu barna og kom inn á það hversu mikil áhrif foreldrar geta haft á það. Hann vill að við endurskoðum í sameiningu tíma barnanna milli klukkan 14 og 16 og nýtum íþróttahús bæjarins til aukinnar hreyfingar barna. Fram koma að íþróttafélögin keppast um börnin okkar eftir skólatíma og foreldrar hlaupa til að keyra börnin í þá tíma.

Síðastur framsögumanna var Bergþóra Þórhallsdóttir, aðstoðarskólastjóri í Brekkuskóla sem fór nokkrum orðum um það hvernig þessi mál koma fram hjá börnunum í skólanum og getu skólans til að taka á þeim vandamálum sem koma upp.  Hún kom meðal annars inná aukna farsímanotkun barna og tilrauna skólans til að hafa stjórn á notkun þeirra tækja inní skólum.  Hún benti jafnframt á mikilvægi þess að starfsmenn og foreldrar séu vakandi og setji sameiginlegar reglur og mörk.

Auk framsögumanna tóku Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur, Áskell Örn Kárason forstöðumaður barnaverndar og Gréta Kristjánsdóttir forvarnarfulltrúi þátt í umræðum með foreldrum. Skipst var á ýmsum gagnlegum ábendingum varðandi málefnið.

Samtaka þakkar fyrir góða þátttöku á þessum opna fundi sem vonandi er byrjunin á aukinni vitundarvakningu foreldra og sameiginlegu átaki þeirra til að sporna gegn óæskilegri upplifun barna okkar, auka forvarnir og stuðla að bættu heilbrigði þeirra.

Að lokum vill Samtaka þakka foreldrafélagi Brekkuskóla og Bergþóru aðstoðarskólastjóra Brekkuskóla fyrir góðar móttökur.

Opinn foreldrafundur í Brekkuskóla

Opinn foreldrafundur í Brekkuskóla, 24. mars 2010

Framsögumenn:
Guðjón Hreinn Hauksson, foreldri.
Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir, lektorar við Háskólann á Akureyri.
Gunnar Svanbergsson, sjúkraþjálfari.
Bergþóra Þórhallsdóttir, aðstoðarskólastjóri við Brekkuskóla.

Eftir hlé munu framsögumenn ásamt Grétu Kristjánsdóttur forvarnarfulltrúa og Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur sálfræðingi taka þátt í umræðum með foreldrum.

Markmiðið er að fá fram sýn foreldra á þróun mála hjá börnum í þeim tækniheimi sem við búum við í dag, heilbrigði þeirra og hvernig foreldrar geta spornað gegn óæskilegri notkun, stuðlað að bættu heilbrigði barna og aukið forvarnir.

Kaffi og veitingar verða í boði foreldrafélaga grunnskólanna
Fjölmennum og sýnum styrk okkar í samstöðunni

Samtaka – svæðisráð foreldra grunnskólabarna á Akureyri

Fundur Samtaka 2. febrúar 2010

Mættir: Hafdís Dögg úr Oddeyrarskóla, Hildur Salína úr Glerárskóla, Sigr ún Jóhannsd. úr Síðuskóla, Eyrún B. úr Giljaskóla og Vilborg Þórarinsdóttir úr Lundarskóla Gestur: Gréta Kristjánsdóttir forvarnarfulltrúi.

Gréta tekur til máls fjallar um fyrirlestur Verndari barna og hvetur foreldrafélög skólanna að bjóða foreldrum uppá slíkan fyrirlestur til að sporna gegn kynferðislegri misnotkun gegn börnum. Gréta kynnir jafnframt brúðuleikhúsið, kostnað og tillögur . Þá ræðir hún um eineltismyndbandið sem foreldrafélög geta fengið endurgjaldslaust til að bjóða foreldrum uppá sem fræðsluerindi.  Ákv. Gréta mun senda fulltrúum í Samtaka frekari upplýsingar og í framhaldi munu fulltrúar bera fram tillögur á fundum foreldrafélaganna.

Að síðustu kynnir Gréta hugmyndir sínar um málþing á Akureyri er tengjast aukinni þátttöku foreldra, ábyrgð og forvarnir. Fulltrúar Samtaka eru jákvæðir fyrir slíku framtaki.

Bréf til skólanefndar er enn í vinnslu en verður sent fulltrúum Samtaka til yfirlestrar fljótlega .

Skólaráð a.m.k. tveggja skóla hafa skilað inn ályktun til skólanefndar varðandi framtíð Reykjaferða.

Umræða um helstu niðurstöður eineltis könnunar sem gerð var í samstarfi við Olweusarverkefni.

Önnur mál: Umræða um erindi frá Stoðkennaranum sem vill bjóða foreldrum barna í 8 til 10 bekk kynningu án endurgjalds dagana 8 til 12 mars nk. Ákveðið að fulltrúi mun áframsenda erindið á aðra fulltrúa úr Samtaka .

Fundi lokið 18.10

Fundur Samtaka 5. janúar 2010

Fundur Samtaka 5. Janúar 2010

Mættir: Vilborg Þórarinsdóttir  Lundarskóla, Sigrún Ingibj. Jóhannsdóttir Síðuskóla, Vaka Óttarsdóttir Naustaskóla, Magni R. Stefánsson  Brekkuskóla, Hildur Salína Glerárskóla, Íris H. Heiðarsdóttir Glerárskóla, Sara Stefánsdóttir Naustaskóla, Eyrún Þorfinnsdóttir Giljaskóla og Hafdís Dögg Sveinbjarnardóttir Oddeyrarskóla.

Síðasti fundur var 1. desember sl. en það láðist að rita fundargerð þar sem ritari var fjarverandi.

Sara og Vaka hafa gengið til liðs við Samtaka fyrir hönd Naustaskóla og eru þær boðnar velkomnar.

Umræðu haldið áfram um valgreinar grunnskólanna á unglingastigi.  Upplýsingar hafa borist frá fáum skólum en í þeim tilvikum virðast valgreinar ekki hafa verið skornar niður vegna sparnaðar heldur vegna ónógrar þátttöku.

Umræða um Reykjaferð og þátttöku foreldra.  Umræða um að gera könnun meðal foreldra en sú hugmynd sett á bið.  Samtaka mun fylgjast með gangi mála.

Einn fulltrúi Samtaka les upp drög að bréfi og snertir styrkveitingu Akureyrarbæjar til íþróttaiðkunar barna og unglinga.  Verður unnið áfram og klárað fyrir næsta fund.

Heimasíðan hefur legið niðri og mun ritari Samtaka vinna í því að koma þvi í lag.

Umræða um að koma á framfæri þakklæti til Samherja fyrir veglega styrkveitingu til barna og unglinga til íþróttaiðkunar. 

Borist hefur hvatning frá Heimili og skóla um ritun greinar til að minna á svæðisráð foreldra grunnskólabarna og mun ritari Samtaka sjá um það og koma um leið á framfæri þakklæti til Samherja.  Mikilvægt er heimasíðan komist í lag áður en grein verður send út.

Fundi lokið kl. 18.06