Ályktun frá Heimili og skóla

Ályktunin er svohljóðandi:

Í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um niðurskurð í skólum landsins sendir stjórn Heimilis og skóla frá sér eftirfarandi ályktun:

 

„Heimili og skóli, landssamtök foreldra, krefjast þess að ríkisstjórn og sveitarfélög landsins tryggi gæði skólastarfs á öllum skólastigum á landinu og gangi ekki á lögbundin réttindi skólabarna nú þegar skera á niður útgjöld hins opinbera. Enn fremur er kallað eftir raunverulegu samráði við foreldra áður en ákvarðanir um breytingar á skólastarfi verða teknar.” 

 Heimili og skóli – Saft

Stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.

Fundur Samtaka 5. október 2010

Mættir: Höskuldur V. Jóhannesson frá Naustaskóla, Hafdís Bjarnadóttir frá Brekkuskóla, Sigrún I. Jóhannsdóttir frá Síðuskóla, Marína Sigurgeirsdóttir frá Oddeyrarskóla, Magni R. Magnússon frá Brekkuskóla, Vilborg Þórarinsdóttir frá Lundarskóla og Ragnhildur A. Hjartardóttir frá Giljaskóla.

Breytingar hafa orðið á liðskipan Samtaka.  Vaka hefur sagt sig úr Samtaka vegna anna og í hennar stað er boðinn velkominn Höskuldur V. Jóhannesson sem fulltrúi foreldra í Naustaskóla.  Þá mun í stað Vöku, Sigrún I. Jóhannsdóttir taka sæti sem fulltrúi Samtaka í Heimili og skóla.  Þá bættist nýr fulltrúi við í Samtaka Hafdís Bjarnadóttir fulltrúi foreldra í Brekkuskóla og er hún boðin velkomin.

Minnt er á fulltrúaráðsfundinn þann 15. október n.k. hjá Heimili og skóla.  Fulltrúi frá okkur hefur ekki getað mætt á árlegan fund síðustu tvo vetur.  Sigrún I. Jóhannsdóttir mun mæta á fundinn í þetta sinn.  Vilborg mun senda henni nauðsynlegar upplýsingar.

Umræða um borgarafund um einelti sem haldinn verður hér á Akureyri á morgun 6. október í Brekkuskóla.  Fundurinn hefur verið vel auglýstur og vonast fulltrúar eftir góðri mætingu.

Rætt um umfjöllun í Vikudegi í tengslum við bréf sem Samtaka sendi íþróttaráði nú strax í haust þar sem hvatt var til þess að hækka tómstundaávísanir bæði í aurum og aldri.  Góð umfjöllun í Vikudegi þar sem ráðið lýsti vilja til þess að hækka aldursviðmið.

Í framhaldi kom upp umræða um íþróttaskóla í anda hugmynda ÍSÍ.  Viðar sambandsins hér á Akureyri hefur verið ötull talsmaður og kynnti m.a. hugmyndir þess á fundi Samtaka fyrir tveimur árum síðan.  Fulltrúar á fundinum vildu gjarnan fá slíka kynningu á næstunni.  Vilborg mun setja sig í samband við Viðar og bjóða honum á fund Samtaka með kynningu í huga.  Allir voru sammála því að halda á lofti hugmyndum um íþróttaskóla hér á Akureyri.

Umræða um mötuneyti í skóla en nokkrar áhyggjur eru af því að ekki sé nægilega hollur matur á boðstólum, heldur mikið unninn matur.  Umræða um mikilvægi þess að hafa faglærða í skólamötuneytum.

Fundir slitið kl. 18.00

Fundur Samtaka 31.ágúst 2010

Fundur Samtaka, 31. ágúst 2010.

Mættir: Ragnhildur Arna Hjartardóttir – Giljaskóla, Sigrún Ingibjörg Jóhannsdótir – Síðuskóla, Marína Sigurgeirsdóttir – Oddeyrarskóla, Magni R Magnússon – Brekkuskóla, Vaka Óttarsdóttir – Naustaskóla, Hildur Salína Ævarsdóttir – Glerárskóla, Vilborg Þórarinsdóttir – Lundarskóla.

1.      Skipað í stjórn Samtaka starfsárið 2010/2011. Magni verður áfram formaður en Hildur Salína er varaformaður og ber m.a. ábyrgð á fundarboðum. Vilborg mun áfram gegna starfi ritara og verður áheyrnarfulltrúi fyrir foreldra í skólanefnd.  Vaka mun sitja í fulltrúaráði Heimilis- og skóla og vera tengiliður okkar þar.

2.      Fundurinn verður eftir sem áður fyrsta þriðjudag í mánuði frá 17.00 til 18.00.  Mikilvægt er að á hverjum tíma mæti amk einn fulltrúi frá hverjum skóla – Gert er ráð fyrir að tveir fulltrúar foreldra séu í Samtaka frá hverjum skóla, einn úr foreldrafélagi og einn úr skólaráði.

3.      Vilborg upplýsir fulltrúa Samtaka um stóran fund sem áætlað er að halda á Akureyri þann 6. október um Einelti.  Vilborg var beðin um að vera fundarritari á þeim fundi og hefur þegar tekið það að sér. 

4.       Hreyfistrætó, umræða um hvaða skólar hafi tekið þá hugmynd upp og unnið áfram.  Einhver foreldrafélög náðiu að kynna hugmyndina á aðalfundi.  Foreldrafélagið úr Brekkuskóla hefur unnið hugmyndina áfram og mun í samstarfi við skólann og sjúkraþjálfara ýta verkefninu úr vör fyrir yngstu krakkana.  Allir fulltrúar eru spenntir að fylgjast með því verkefni og gæti orðið leiðarljós og hvatning fyrir aðra skóla.

5.      Rætt um foreldraeftirlit á unglingaböllum sem haldin eru í Sjallanum eða annars staðar af öðrum aðilum en skólum eða félagsmiðstöð.  Í vor fór fram mikil umræða um eftirlit með slíkum böllum og setti sýslumaður á endanum fram nokkur skilyrði fyrir því að leyfi væru veitt fyrir slíkum böllum.  S.s. að böll væru ekki fyrir eldri en 16 ára og að fulltrúar foreldra gætu farið á ballstaðina án endurgjalds.  Samtaka hefur fengið nokkur bréf frá sýslumanni um þessi böll í vor og í sumar þar sem óskað er eftir að fulltrúi foreldra verði sýnilegur á böllunum.  Samtaka fagnar þessum hertu skilyrðum og telur að eftirlit foreldra eigi best heima í höndum þeirra sem sjá um foreldraröltið.  Fulltrúar úr Samtaka munu því kynna þessi skilyrði sýslumanns fyrir foreldrafélögum í skólunum.  

Fundi lokið kl. 18.10

Stór fundur um einelti haldinn á Akureyri 6. október nk.

Fyrirlestrarherferð haustið 2010

EINELTI OG UNGT FÓLK OG NETIÐ

Nú í haust mun Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Liðsmenn Jerico, Olweusaráætlunin og Ungmennaráð SAFT ferðast í kringum landið og halda fyrirlestrakvöld og jafningjafræðslufundi á 11 stöðum á landinu um einelti, netið og nýmiðla.

Farið verður til Árborgar, Ísafjarðar, Reykjanesbæjar, Akureyri, Skagafjarðar, Grundafjarðar, Fljótsdalshéraðs, Borgarbyggðar, Vestmannaeyja, Hafnar í Hornafirði og til Reykjavíkur tímabilið 14. september til 2. nóvember 2010.

Umfjöllunarefni fyrirlestrarherferðarinnar er einelti og ungt fólk og netið. Leikhópar á þessum 11 stöðum munu undir handleiðslu leiklistakennara eða leiðbeinanda setja upp leiksýninguna „Þú ert það sem þú gerir á netinu“ og sýna í skóla á hverjum stað á jafningjafræðslufundi.

Um kvöldið verður málþing þar sem leikritið verður endurflutt og fyrirlesarar frá Heimili og skóla, liðsmönnum Jerico og frá Olweusaráætluninni munu flytja erindi um einelti út frá sjónarhóli foreldra og þolenda auk þess sem rætt verður um þau úrræði sem í boði eru.  Fundarstjórar verða bæjarstjórar eða fræðslustjórar í viðkomandi sveitarfélagi. Þeir munu fjalla um einelti og aðgerðir gegn einelti í viðkomandi sveitarfélagi. Málþingin verða haldin í samkomuhúsum á viðkomandi stöðum en leitast verður við að kynna dagskránna fyrir íbúum nágrannasveitarfélaga og verða allir velkomnir.  Að erindum loknum munu allir fyrirlesarar svara fyrirspurnum.

Fyrirlestraherferðin er hluti af áætlun þriggja ráðuneyta sem birtist í Greinargerð um aðgerðir gegn einelti í skólum og vinnustöðum:

http://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf/Einelti_-_Greinargerd_24_juni_2010_-_lokaskjal.pdf

Heimsóknin verður viðkomandi skóla og bæjarfélagi algerlega að kostnaðarlausu.

Aðsend grein um íþróttaskóla

Foreldrar eru hvattir til að kynna sér hugmyndir ÍSÍ um fjölþættan íþróttaskóla fyrir börn á aldrinum 6 til 10 ára þar sem gert er ráð fyrir samfellu í skóla- og íþróttastarfi um leið og börn á þessum aldri fá tækifæri til að kynnast og leggja stund á margvíslegar íþróttir.

Hér til vinstri á síðunni má nálgast góða grein frá Viðari Sigurjónssyni, sviðsstjóra fræðslusviðs Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Samfella í skóla- og íþróttastarfi barna

Þar segir hann m.a.:

“Til langs tíma hafa umræður um samfellu í skóla- og íþróttastarfi barna verið í gangi. Með samfellu er átt við að íþróttaiðkun barnanna taki við strax að loknum skóladegi sem oft er á milli kl. 13.00 og 15.00 hjá 6-10 ára börnum. Líklega hefur þó þrýstingur á þá breytingu aldrei verið meiri en nú, einfaldlega vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Rökin fyrir slíkri breytingu eru þó svo langtum meiri, ekki síst með hagsmuni barnanna sjálfra að leiðarljósi, möguleikann á því að skapa heilbrigðan einstakling og íþróttaiðkanda til frambúðar.”

Fundur Samtaka 12. apríl 2010

Mættir: Hildur Salína frá Glerárskóla, Vaka Óttarsdóttir frá Naustaskóla, Magni R. Magnússon frá Brekkuskóla, Sigrún Ingibjörg Jóhannsdóttir frá Síðuskóla, Eyrún B. Þorfinnsdóttir frá Giljaskóla og Vilborg Þórarinsdóttir frá Lundarskóla.

Gestur fundarins var Gunnar Gíslason, fræðslustjóri.

Gunnar Gíslason gerir grein fyrir afstöðu skólanefndar til skólaferða grunnskólabarna og um kostnaðarþátttöku skólanna. Skólaráð skólanna hafa skilað inn áliti til nefndarinnar varðandi Reykjaferð eða samskonar ferðir fyrir 7 bekkinga eins og hefð hefur verið fyrir. Eru skólaráðin á einu máli um mikilvægi þessara ferða fyrir börnin. Þessar ferðir verða því áfram viðhafðar að sögn Gunnars og er nauðsynlegt að samvinna verði á milli foreldra og hvers skóla um undirbúning og kostnað hverju sinni. Fyrirspurn til Gunnars um ferðir 4 bekkinga og kostnað við þær. Að mati Gunnars á úrskurður mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að ekki sé hægt að skylda foreldra til að greiða fyrir skólaferðir barna sinna við um allar ferðir skólabarna. Samráð og samvinna verður því að eiga sér stað á milli skóla og foreldra. Það hefur ávallt verið þannig að einhverjir foreldrar senda ekki börn sín í skólaferðir af einhverjum ástæðum. Þá bendir hann á mikilvægi þess að ef foreldrar af einhverjum ástæðum geta ekki greitt fyrir uppihald í slíkum ferðum þá verði séð til þess að börn þeirra eigi þrátt fyrir það kost á að fara með í ferðir.

Kallað er á aukið samráð foreldra og skóla og meiri þátttöku foreldra almennt í skólastarfi.

Gunnar afhendir fundarmönnum blað um viðurkenningu skólanefndar fyrir framúrskarandi skólastarf og kynnir þá stefnu Akureyrarbæjar að veita þeim einstaklingum eða stofnunum sem skarað hafa fram úr í skólastarfi viðurkenningar. Markmiðið er að vekja athygli á því sem vel er gert og hvetja til áframhaldandi jákvæðrar uppbyggingar í skólastarfi. Er þessi vinna hafin hjá skólanefnd og skulu tilnefningar berast fyrir 1. maí ár hvert. Fulltrúar í Samtaka þurfa að tilnefna eitt foreldri í valnefnd.

Fyrirspurn til Gunnars um afstöðu skólanefndar til forvarnarstarfs á Akureyri og viðbrögð við þeirri ákvörðun lögregluembættisins að ráða ekki áfram í starf forvarnarfulltrúa hjá lögreglunni nú þegar Steini P er að láta af störfum. Skólanefndin mun taka það mál upp að sögn Gunnars. Í framhaldinu er almenn umræða um forvarnarstarf á Akureyri, hugmyndir um að auka vitund foreldra og barna um aukið heilbrigði. Hugmyndir um íþróttaskóla yngri barna ræddar og þá stefnu ÍSÍ. Rætt er um aðkomu Samtaka í því að auka vitund foreldra um heilbrigði barna og forvarnir.

Ákvörðun er tekin um að hafa samband við sviðstjóra fræðslusviðs ÍSÍ, Viðar Sigurjónsson um að skrifa grein um íþróttaskóla á heimasíðu Samtaka sem liður í því að auka vitund foreldra um þá stefnu og sem liður í því að vinna að því að íþróttaskóli í anda stefnu ÍSÍ verði að veruleika á Akureyri.

Fundi lokið 18.07.

Frá ritara Samtaka

Opinn fundur foreldra um tölvunotkun barna og unglinga var haldinn í Brekkuskóla 24. mars síðast liðinn. Um 105 foreldrar sóttu fundinn og var það gleðiefni og mátti vel greina áhuga foreldra á að vita meira um þessi mál og vilja þeirra til að láta til sín taka. Markmið þessa fundar var að upplýsa um þróun mála hjá börnum í þeim tækniheimi sem við búum við í dag, heilbrigði þeirra og hvernig foreldrar geta spornað gegn óæskilegri notkun, stuðlað að bættu heilbrigði barna og aukið forvarnir.

Guðjón Hreinn Hauksson kynnti sig sem ráðvillt foreldri sem hann sagði sig vera þessa dagana og fór yfir nokkur atriði er varða tölvunotkunina og hvað verið er að bjóða börnunum upp á. Það er óhætt að segja að hann hafi snert við hjörtum fundargesta með sýnishornum úr netheimum.

Að því búnu ræddu Eygló Björnsdóttir og Anna Elísa Hreiðarsdóttir lektorar við HA um þróun og möguleika tækninnar og hvernig hún er að birtast í heimi barnanna og hvernig hún getur einnig nýst þeim á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Börn eru ótrúlega fljót að læra á það hvernig tæknin virkar og við fullorðna fólkið þurfum að hafa okkur öll við að fylgjast með.

Gunnar Svanbergsson, faðir og sjúkraþjálfari er mikill áhugamaður um hreyfingu barna og kom inn á það hversu mikil áhrif foreldrar geta haft á það. Hann vill að við endurskoðum í sameiningu tíma barnanna milli klukkan 14 og 16 og nýtum íþróttahús bæjarins til aukinnar hreyfingar barna. Fram koma að íþróttafélögin keppast um börnin okkar eftir skólatíma og foreldrar hlaupa til að keyra börnin í þá tíma.

Síðastur framsögumanna var Bergþóra Þórhallsdóttir, aðstoðarskólastjóri í Brekkuskóla sem fór nokkrum orðum um það hvernig þessi mál koma fram hjá börnunum í skólanum og getu skólans til að taka á þeim vandamálum sem koma upp.  Hún kom meðal annars inná aukna farsímanotkun barna og tilrauna skólans til að hafa stjórn á notkun þeirra tækja inní skólum.  Hún benti jafnframt á mikilvægi þess að starfsmenn og foreldrar séu vakandi og setji sameiginlegar reglur og mörk.

Auk framsögumanna tóku Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur, Áskell Örn Kárason forstöðumaður barnaverndar og Gréta Kristjánsdóttir forvarnarfulltrúi þátt í umræðum með foreldrum. Skipst var á ýmsum gagnlegum ábendingum varðandi málefnið.

Samtaka þakkar fyrir góða þátttöku á þessum opna fundi sem vonandi er byrjunin á aukinni vitundarvakningu foreldra og sameiginlegu átaki þeirra til að sporna gegn óæskilegri upplifun barna okkar, auka forvarnir og stuðla að bættu heilbrigði þeirra.

Að lokum vill Samtaka þakka foreldrafélagi Brekkuskóla og Bergþóru aðstoðarskólastjóra Brekkuskóla fyrir góðar móttökur.