Uppeldi í tölvuvæddum heimi – Kynningarvefur og skráning!

Smellið á myndina til að komast á kynningarvefinn
Smellið á myndina til að komast á kynningarvefinn

Samtaka vekur athygli á sérstökum kynningarvef um málþingið “Uppeldi í tölvuvæddum heimi” sem verður þann 14. mars nk. í sal Brekkuskóla á Akureyri. Á vefnum er skráningarform og eru væntanlegir gestir beðnir að nota formið til að boða komu sína. Það er að sjálfsögðu ókeypis inn en við viljum gjarnan hafa sem besta hugmynd um fjölda gesta til að geta undirbúið málþingið sem best.

Smellið ykkur inn á kynningarvefinn og mætið endilega á fimmtudaginn.

Málþing 14. mars: Uppeldi í tölvuvæddum heimi

Samtaka, svæðisráð foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrarbæjar, í samstarfi við Guðjón H. Hauksson, þjónustustjóra tölvudeildar MA og Gunnlaug Guðmundsson, forvarnarfulltrúa hjá Akureyrarbæ, stendur fyrir málþingi um heilbrigð tölvukerfi heimilanna.

Málþingið sem ber heitið „Uppeldi í tölvuvæddum heimi – ábyrgð allra“ verður haldið í sal Brekkuskóla, 14. mars n.k. og hefst klukkan 18.00. (Sjá fyrirhugaða dagskrá neðst í þessari grein).

Malthing_14mars13
Málþing 14. mars: Uppeldi í tölvuvæddum heimi

Á heimilum og í skólum landsins er að finna ótrúlega flóru af allskyns tölvubúnaði. Þetta geta verið borðtölvur, far- og spjaldtölvur, mismunandi snjallir símar, beinar (router), myndlyklar og ýmislegt fleira. Nú eru sjónvörpin meira að segja orðin snjöll líka. Afleiðingin er töluvert breyttur heimur fyrir bæði fullorðna og börn og oft eru það börnin, sem eru alls ófeimin við að prófa allt, sem skilja tæknina betur en fullorðna fólkið. En öllu þessu fylgir ábyrgð og hún liggur auðvitað hjá þeim fullorðnu, helst hjá þeim sem kaupa inn tækin en einnig þeim sem selja þau. Ekki má heldur gleyma ábyrgðinni sem hvílir á kennurum og stjórnendum skólanna sem vilja eðlilega nýta sér kosti tækninnar við kennslu.

Samtaka, svæðisráð foreldra grunnskólabarna í Akureyrarbæ, hefur því ákveðið að standa að málþingi um þessi mál og býður til þess öllum þeim sem koma að þessu tækniuppeldi, foreldrum og forráðamönnum, kennurum, skólastjórnendum, bæjarstarfsmönnum, sálfræðingum, sölufólki, o.s.frv.

Markmið þessa málþings er að fólk komist aðeins betur inn í þennan heim tækninnar og geti áttað sig betur á því hvernig á helst að halda utan um þetta allt saman. Þess vegna vill Samtaka bjóða fyrirtækjum í bænum sem selja tæknivörur og -þjónustu að vera með á málþinginu og kynna fyrir gestum og gangandi hvernig best er fyrir viðskiptavinina að verða virkir kerfisstjórar á eigin heimilum. Þannig geta fyrirtækin sýnt samfélagslega ábyrgð sína í verki. Reiknað er með að fyrirtækin verði með bása eða borð þar sem þau verða með tæki og tól til sýnis og geta þar gefið gestum góð ráð milli þess sem þeir hlusta á fyrirlesara málþingsins.

Á málþinginu verður m.a. rætt um ástæður fyrir eftirliti og stjórnun á tækjanotkun barna en fyrirtækjum í þessum geira verður boðið að kynna hin ýmsu úrræði sem hægt er að grípa til. Fyrirkomulagið verður þannig að fyrirtæki sem vilja taka þátt pláss fyrir bás eða kynningarborð í eða við salinn þar sem fyrirlestrar verða.

Aðalfyrirlesari kvöldsins verður Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur sem ræðir um netfíkn,  (nánar hér). Böðvar Nielsen tvítugur drengur deilir reynslu sinni af netfíkn, Gunnlaugur Guðmundsson segir frá stofnun hóps til stuðnings drengjum í grunnskólum sem ná illa að fóta sig í heiminum utan tölvuleikjanna og við fáum einnig sjónarhorn skólanna og foreldranna.

Fyrirhuguð dagskrá:

 1. “Kerfisstjórar heimilanna” – Guðjón Hauksson, foreldri og þjónustustjóri tölvudeildar Menntaskólans á Akureyri opnar málþingið. Hann mun einnig stjórna dagskrá kvöldsins.
 2. “Einkalíf barna og skyldur foreldra” – Áskell Örn Kárason frá Fjölskyldudeild fjallar um rétt barna til að njóta einkalífs og rétt þeirra til að vera vernduð, skyldur foreldra og samfélagsins alls til að vernda.
 3. Böðvar Nielsen Sigurðarson segir frá reynslu sinni af netfíkn – 20 mín.
 4. *** Hressing og rúntur milli bása fyrirtækjanna sem ætla að ráðleggja “kerfisstjórum heimilanna” ***
 5. “Netfíkn: Andlitslaust samfélag” – Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur
 6. Gunnlaugur Guðmundsson segir frá stofnun hóps til stuðnings drengjum í grunnskólum sem ná illa að fóta sig í heiminum utan tölvuleikjanna
 7. “Rafrænir skólar” – Bergþóra Þórhallsdóttir aðstoðarskólastjóri Brekkuskóla
 8. Pallborð
  Í pallborði verða Eyjólfur, Pétur Maack sálfræðingur á Akureyri, Guðjón, Gunnlaugur, Böðvar, Hafþór Freyr Líndal (16 ára meðlimur í Ungmennaráði SAFT) og Áskell frá fjölskyldudeild auk þess sem fulltrúar fyrirtækjanna svara gjarnan fyrirspurnum úr sal.
 9. Að loknum umræðum býðst foreldrum að halda áfram í rólegheitum með sálfræðingum á bókasafninu eða kennarastofu Brekkuskóla á meðan gengið er frá salnum.

 

Fundur Samtaka 26. febrúar 2013

Aukafundur vegna fyrirhugaðs málþings um netnotkun barna og unglinga.

Mætt voru: Sigríður Ingólfsóttir og Áshildur Hlín Valtýsdóttir frá Naustaskóla, Vilborg Hreinsdóttir frá Glerárskóla, Sigmundur Magnússon og Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir frá Brekkuskóla, Heimir Eggerz frá Síðuskóla, Vilborg Þórarinsdóttir frá Lundarskóla og Ragnhildur Arna Hjartardóttir frá Giljaskóla sem jafnframt ritar fundargerð.

Einnig voru mættir Gunnlaugur V. Guðmundsson forvarnarfulltrúi og Guðjón H. Hauksson

 

1) Upp kom sú hugmynd að fá sýn foreldris eða konu á tölvu-og netheim barna og unglinga. Uppástunga um að Bergþóra Þórhallsdóttir aðstoðarskólastjóra í Brekkuskóla yrði fengin til þess var lögð fram

2) Ákveðið var að hefja málþing kl. 18 þann 14. mars. Eftir kl. 20.30 verða pallborðsumræður og jafnvel möguleiki á að hitta sálfræðing í rólegheitum og spjalla

3) Ákveðið var að setja upp vefsíðu fyrir málþingið með “link” á skráningarsíðu þar sem gestir eru vinsamlega beðnir um að skrá þáttöku sína svo hægt verði að sjá nokkurn veginn hvað má búast við mörgum

4) N4 ætlar að vera með umfjöllun um málþingið (viðtal) og var ákveðið að Gunnlaugur forvarnarfulltrúi tæki að sér að sjá um það

5) Ákveðið var að senda grein á Akureyri vikublað þar sem efni málþingsins verður kynnt. Vilborg Þórarinsd. og Guðjón Haukss. taka að sér að sjá um það

6) Sigríður Ingólfsd. ætlar að sjá um að redda veitingum fyrir málþingið og fá Unni Vébjörnsd. með sér í það

7) Heimir Eggerz sér um auglýsingar

8) Ýmsar umræður um nánari skipulagningu og dagskrá málþingsins

 

 

Fundi slitið kl. 18.05

 

Fundur Samtaka 12. febrúar 2013

Mætt eru: Vilborg Þórarinsd. frá Lundarskóla, Sigmundur Magnússon frá Brekkuskóla, Sigríður Ingólfsd. frá Naustaskóla, Unnur Vébjörnsd. frá Oddeyrarskóla, Vilborg Hreinsd. frá Glerárskóla,  og Ragnhildur Arna Hjartard. frá Giljaskóla sem jafnframt ritar fundargerð.

Þá voru einnig mættir Gunnlaugur V. Guðmundsson forvarnarfulltrúi og Guðjón H. Hauksson.

 

1) Rætt var um skipulag og dagskrá fyrirhugaðs málþings um netnotkun barna og unglinga.

– Ákveðið var að fá einhvern sem hefur glímt við net-/tölvufíkn til að koma og segja frá sinni reynslu, t.d. Böðvar Nielsen Sigurðarson

– Ákveðið var að ræða við Advania, Símann, Vodafone, Tölvutek, Eldhaf um að koma og vera með kynningarbása

– Rætt var um að fá Áskel Örn Kárason til að ræða um rétt barna og unglinga til einkalífs og skyldur foreldra og samfélags gagnvart þeim

– Samþykkt var að Guðjón H. Hauksson tæki að sér að opna málþingið ásamt því að vera fundarstjóri

– Ákveðið var að hafa málþingið 14. mars – veltur þó svolítið á því hvort Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur kemst þann dag

– Í grunninn er dagskrá málþingsins; erindi flutt – veitingar – pallborðsumræður

Fundi slitið kl. 18.05

Fundur Samtaka 15. janúar 2013

Mætt eru: Heimir Eggerz frá Síðuskóla, Vilborg Þórarinsd. frá Lundarskóla, Friðbjörg J. Sigurjónsd. og Sigmundur Magnússon frá Brekkuskóla, Sigríður Ingólfsd. og Áshildur Hlín Valtýsd. frá Naustaskóla, Unnur Elva Vébjörnsd. frá Oddeyrarskóla og Ragnhildur Arna Hjartard. frá Giljaskóla sem jafnframt ritar fundargerð.

Gestir fundarins eru Guðjón Hreinn Hauksson og Gunnlaugur V. Guðmundsson forvarnarfulltrúi

 

1) Rætt var um netfíkn barna og unglinga og vill Guðjón gjarnan að Samtaka beiti sér fyrir því að bæjaryfirvöld standi fyrir stofnun stuðningshóps fyrir foreldra netfíkla þar sem vilji og þörf eru fyrir hendi. Í kjölfarið sköpuðust umræður um hvernig standa mætti að slíkum hópi sem og meðferðarúrræði fyrir þá sem eiga við netfíkn að stríða. T.d. vill forvarnarfulltrúi að hluti af starfinu fari fram í félagsmiðstöðvunum en lítil sem engin úrræði eru til í dag, hvorki fyrir foreldra né börn og unglinga  með netfíkn.

2) Rætt var um að koma Samtaka á facebook til að reyna að ná til sem flestra foreldra. Margir vita ekki einu sinni af svæðisráðinu. Samþykkt var að stofna facebook-síðu og ætlar Guðjón að sjá um það.

3) Þá var rætt um komandi málþing um netnotkun barna, en ákveðið var að það yrði haldið um miðjan mars ef salur Brekkuskóla er laus þá. Mikill áhugi er að fá Eyjólf Örn Jónsson sálfræðing til að koma og vera með erindi um netfíkn en hann er eini sálfræðingurinn á landinu sem hefur tekið slík mál að sér. Fram komu hugmyndir um að fá einhvern sem hefur tekist á við netfíkn til að koma og ræða sína reynslu sem og að fá tölvu- og fjarskiptafyrirtækin til vera með bása þar sem þau geta kynnt og kennt á sínar netvarnir fyrir gestum málþingsins.

Ákveðið var að prófa að nota tilvonandi facebook-síðu sem umræðuvettvang fyrir málþingið.

 

Fundi slitið kl. 18.25

Fundur Samtaka 4. desember 2012

Mætt eru: Sigrún Ingibjörg Jóhannsdóttir og Heimir Eggerz frá Síðuskóla, Sigmundur Magnússon og Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir frá Brekkuskóla, Vilborg Þórarinsdóttir frá Lundarskóla, Höskuldur Jóhannesson frá Naustaskóla, Páll Guðmundsson frá Glerárskóla og Guðbjörg A. Björnsdóttir og Ragnhildur A. Hjartardóttir frá Giljaskóla en síðastnefnda ritar jafnframt fundargerð.

Gestur fundarins er Karl Frímannsson starfandi fræðslustjóri Akureyrar, sem ætlar að svara fyrirspurnum fundargesta og taka þátt í umræðum

Búið er að opna á nettengingu fyrir tölvur, síma o.fl. slík tæki, nemenda í 10. bekk Brekkuskóla og skólinn þar með orðinn brautryðjandi í slíkri þróun. Fram kom fyrirspurn um þessa þróun og hvort skólinn væri nógu vel búinn undir aukna tölvunotkun nemenda, hvaða áhrif þetta hefði á aðra skóla, pressu á fjölskyldur um tölvueign (spjaldtölvur?) og hættu á mismunun nemenda vegna þessa.

Karl svaraði því á þá leið að ákveðið hefði verið að prófa þetta þar sem 90% barna eiga einhvers konar tæki sem tengjast internetinu og að krökkum væri ekki mismunað vegna þessa þar sem skólinn ætti þó nokkrar tölvur sem nemendur hafa aðgang að. Einnig talaði hann um að netaðgangur krakkanna takmarkaðist við upplýsingaöflun, aðgangur þeirra væri skráður og gagnamagn mælt til að koma í veg fyrir misnotkun á aðgengi. Karl vildi einnig að það kæmi fram að hann væri ekki sérlega hlynntur þessari þróun. Ekki hefur verið gerð nein stefnumótun vegna tölvumála í grunnskólum en hugsun og stefna um hvernig þetta eigi að vera er til staðar.
Vilborg Þórarinsd. vildi vita hvort til stæði að koma þessari tölvuvæðingu af stað í öðrum skólum bæjarins en Karl telur það ekki endilega þurfa að gerast en þó væri ekki ástæða til að stöðva þróunina heldur bara nýta hana til verkefnavinnu.
Upp kom spurningin um hve langt skólar eigi að ganga í sambandi við eineltismál á netinu. – Karl telur að eingöngu það sem trufli skóladaginn á beinan hátt sé á ábyrgð skólanna. – En hver á þá að taka á þessum málum? Foreldrar eru oft ekki í stakk búnir til að takast á við slík mál en geta þó alltaf leitað til skóla og fengið aðstoð og leiðbeiningar um hvert beri að leita.
Umræður um varnir gegn óæskilegu efni, gæði og kostnað við tölvur (búnað, forrit o.fl.), sköpuðust í kjölfarið ásamt umræðum um tölvufíkn og þau fáu úrræði sem í boði eru en einungis einn sálfræðingur á landinu sérhæfir sig í að takast á við tölvufíkn. Upp kom sú vangavelta hvort Samtaka þyrfti að fara að beita sér eitthvað á þessum vettvangi.

Samtaka hélt málþing um íþróttaskóla barna og samfellu í tómstunda- og skólastarfi barna og unglinga í mars 2011 og vildu fundargestir fá að vita um stöðu þessara mála þar sem vitað var að bæjaryfirvöld voru farin að vinna í þeim.

Búið er að vinna skýrslu um samfellu í tómstunda- og skólastarfi barna og unglinga og er hún komin í nefnd. Þá er einnig búið að útbúa fjárhagsáætlun um slíka samfellu sem gildir frá og með hausti 2013. – Karl benti á að sér findist þó vera of mikil áhersla á íþróttir en ekki á tómstundastarf almennt þó hugmyndin hafi verið sú að allir hefðu jafnan aðgang að öllum tómstundum en ekki bara íþróttum sem foreldrarnir velja. Í kjölfarið sköpuðust umræður um þetta.

Fundi slitið kl. 18.10

Fundur Samtaka 6. nóvember 2012

Mætt eru: Vilborg Hreinsdóttir og Páll Guðmundsson frá Glerárskóla, Vilborg Þórarinsdóttir frá Lundarskóla, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir frá Brekkuskóla, Sigríður Ingólfsdóttir og Áshildur Hlín Valtýsdóttir frá Naustaskóla og Ragnhildur A. Hjartardóttir frá Giljaskóla sem jafnframt ritaði fundargerð.

Nýir meðlimir Samtaka, Páll B. Guðmundsson frá Glerárskóla og Áshildur Hlín Valtýsdóttir frá Naustaskóla, eru boðnir velkomnir.
1) Í framhaldi af því var farið yfir starfsreglur Samtaka en ábending barst frá Guðjóni Haukssyni um að það þyrfti að yfirfara þær og jafnvel breyta þeim að einhverju leyti. Í ljós kom að hluta af starfsreglum þarf að umorða og laga aðeins til en einnig kom í ljós að það vantaði varaformann í Samtaka. Í kjölfarið var Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir kjörin til þess verks. Að öðru leyti hefur Samtaka unnið í samræmi við reglurnar.
2) Áhugi er fyrir því að fá Karl Frímannsson fræðslustjóra og Grétu Kristjánsdóttur forvarnarfulltrúa á fund meðal annars til að ræða stöðu vímuefnamála hjá börnum og unglingum. Vilborg Þórarinsdóttir ætlar að hafa samband við þau og bjóða þeim að koma á næsta fund Samtaka.
3) Í framhaldi af umræðu síðasta fundar ræddu Sigríður og Áshildur um Baujuna, sjálfstyrkingarnámskeið, en foreldrafélag Naustaskóla fékk Guðbjörgu Thoroddsen, höfund Baujunnar, til að vera með kynningu á námskeiðinu á aðalfundi félagsins. Upp kom sú hugmynd að Samtaka greiddi niður námskeið fyrir námsráðgjafa skólanna en hún fékk ekki hljómgrunn.
4) Rætt var um að halda málþing eftir áramót. Upp komu hugmyndir um að halda nokkurs konar framhaldsmálþing um íþróttaskóla, hver staðan í þeim málum er, og fá fræðslustjóra til að vera með erindi.

Fundi slitið kl. 18