Tölvuleikir og börn

Höfundur: Guðjón H. Hauksson

(Athugið: Nokkrir punktar úr umræðunni hafa verið teknir saman í lok greinar á síðu fjögur).

Hér fyrir neðan er myndband sem greinarhöfundur setti saman úr ýmsu efni sem liggur fyrir á Youtube og einnig á kynningarsíðum tölvuleikja. Myndbandið hefur það að markmiði að sýna foreldrum fram á nauðsyn þess að þeir kynni sér efni þeirra tölvuleikja sem börnin okkar hafa mjög auðveldlega aðgang að. Þetta myndband er dálítið stórt, tæp 60MB og því upplagt að smella á “Play” en síðan strax á pásu aftur til þess að leyfa því að hlaðast inn í rólegheitum á meðan textinn þar fyrir neðan er lesinn. Athugið einnig að greinin er nokkrar síður og því nauðsynlegt að fletta.

[zdvideo]http://samtaka.net/wp-content/uploads/2010/BeinistTilForeldra2.mp4[/zdvideo]

Syni okkar hjónanna finnst gaman að spila tölvuleiki, eins og öðrum drengjum á hans aldri. Hann er nú 11 ára og hefur átt Playstation2 leikjatölvu í nokkur ár núna. Hann fær að sjálfsögðu stundum að leika sér í henni en við höfum haft þá reglu að hann verður alltaf að spyrja okkur leyfis hvort sem við erum heima eða ekki. Þetta fyrirkomulag hefur gengið mjög vel hingað til fyrir utan það að stundum verður mjög erfitt að hætta. Þegar lætin hafa keyrt úr hófi fram höfum við nokkrum sinnum gripið til þess að láta tölvuna hverfa í einhvern tíma, og þá a.m.k. í einhverjar vikur.

Sonur okkar æfði sund lengi vel og var farinn að æfa það stíft að hann hafði ekki sérlega mikinn frítíma fyrir utan sundið og skólann. Hann kvartaði yfir þessu með reglulegu millibili og á endanum gáfum við okkur og leyfðum honum að prófa aðrar íþróttir. Nú er hins vegar svo komið að hann hefur að okkar mati heldur mikinn frítíma. Frítími í dag er nefnilega ekki það sama og frítími var fyrir 20 árum eða meira. Nú leika krakkar sér mun minna en áður en sækja þeim mun meira í einhvers konar afþreyingu og sú afþreying er að langmestu leyti fólgin í því að horfa á vídeó eða spila tölvuleiki. Nú er það sem sagt orðið svo að seinni partinn, þegar við hittum drenginn, er hann kannski búinn að horfa á heila kvikmynd hjá einhverjum félaga sínum eða spila tölvuleiki tímunum saman.

Okkur þykir þetta verulega illa farið með tímann. En verra þykir okkur að heyra frá honum hvaða myndir og hvaða leiki hann hefur verið að horfa á og spila. Það kemur nefnilega í ljós að ýmsir vinir hans og félagar hafa aðgang að efni sem ekki einu sinni harðfullorðið fólk ætti að horfa á. Hér á næstu síðum er hægt að horfa á nokkur myndbrot úr leikjum sem við vitum að sonur okkar hefur spilað eða séð spilaða hjá félögum sínum (það skal tekið fram að hér erum við alls ekki bara að tala um vini hans í bekknum, heldur í öðrum bekkjum líka, frændur hans og kunningja). En fyrst er um að gera að horfa á þetta myndband hérna fyrir ofan og halda síðan áfram á næstu síður.

60 thoughts on “Tölvuleikir og börn”

 1. Gott framtak hjá þér, Guðjón. Vona að sem flestir lesi þetta og fólk verði samtaka í því að verja börnin, losa þau undan því að lenda í þessum skelfingum. Töluverðar líkur eru á því að viðkvæmar sálir geti skaddast af því að horfa upp á hrottaskap af einhverju tagi og það eru líka talsverðar líkur á því að ofbeldi í leikjum og kvikmyndum auki líkur á ofbeldi og siðblindu barna. Það er ekkert gamanmál.

 2. Takk fyrir framtakið.
  Það sem er erfiðast í þessu er þegar krakkarnir fara inn á heimili þar sem “allt” er leyfilegt, eins og þú nefnir.
  Þegar við bjuggum í útlöndum, þá var mikil umræða meðal foreldra um það hvað foreldrar gerðu þegar börnin fengu að gista á heimilum sem við þekktum ekki nógu vel. Margir foreldrar höfðu þann háttinn á að fara heim til gistivinanna, tala við foreldrana og “reyna” að kynnast foreldrunum og heimilinu. Á sama hátt finnst mér sjálfsagt að við spyrjum hreinlega foreldra vina barna okkar út í tölvunotkun; hvað sé leyfilegt á þeirra heimili og hvað við kærum okkur ekki um. Þessi umræða verður að vera opin annars miðar okkur ekkert áfram 🙂

 3. Takk fyrir þarfa ábendingu. Tölvuleikir og tæknin almennt eru ríkir þættir í menningu barna og mig grunar að stundum kunni krakkarnir mun meira en sá fullorðni sem á að vernda þá og leiðbeina. Kannski er það hluti af vandanum. Það virðist vera tilhneyging til að leyfa börnum mun meira en þeim er hollt og sem leikskólakennari hefur mér oft brugðið við að sjá og vita hvað foreldrar leyfa. Bannað efni er bannað af ríkri ástæðu, hvort sem um er að ræða tölvuleik eða kvikmynd. Stundum finnst mér þó að foreldrum sé vorkunn, markaðurinn er fullur af leikföngum og búningum fyrir börn sem sótt er í bannað efniKarabísku sjóræningjarnir, ofurhetjumyndir ofl.)
  Ábyrgðin liggur víða en umræðuna þarf að opna, takk aftur

 4. Kærar þakkir fyrir þarfa ábendingu.
  Svona verkefni þarf að taka á líkt og tekið var á útivistartíma barna og unglinga á sínum tíma. Þetta er að vísu öllu snúnara verkefni, en betur má ef duga skal. Margir foreldrar segjast fegnir að barnið/unglingurinn þeirra sé heima í tölvunni í stað þess að vera úti. En ég segi, þegar barnið er á netinu þá er það úti og ekki bara á Akureyri, heldur um allan heim! Tökum höndum saman og verjum börnin/unglingana okkar með því að fara eftir leiðbeinandi reglum um tölvuleiki og takmarka aðgang á netinu. Hittumst og ræðum saman. Kennum hvert öðru og miðlum reynslu. Samtaka nú!
  Bergþóra Þórhallsdóttir móðir og aðstoðarskólastjóri Brekkuskóla

 5. Ég stóðst ekki mátið að svara einhverju við þessu… Ég kláraði ekki að horfa á myndefnið því þetta er viðbjóður… Talandi um hrakandi kurteysi hjá börnum þau kunna orðið ekki að vera heima hjá fólki eða bara heima hjá sér..Engin börn úti að leika sér. Þau koma og spyrja eftir öðrum til að fara í tölvu,þegar þau koma að þá veit maður ekkert hvað þau eru að tala um því líf þeirra er í tölvunni..Ég banna mínum að fara með öðrum til að leika í tölvu.. Þessi elsku börn eru augljóslea upprafmögnuð af mötuðu efni..Þar er einnig komið upp þessi þörf hjá öllum að tölva sé nauðsynleg…Ég átti eitt sinn samræður við Yfirmann skóladeildar í öðru bæjarfélagi að vísu..Umræðan var -Af hverju í ósköpunum er verið að troða tölvum í leikskóla.. Svarið var-Þetta er framtíðin og er mjög nauðsynlegt hvað varðar þroska hjá börnum…Þú verður að eiga þroskaleiki.. Þroskaleikir t.d. eru nauðsynlegir.. Mitt svar var og er-Þetta er vitleysa..Ekki var til tölva á mínu heimili fyrr en eftir árið 1990 og hafði það strax slæm áhrif,ekki tel ég mig á einhverju sviði þroskahefta..Og þú fröken eigi vil ég vera mjög dónaleg en þú ert eflaust eldri en ég…
  Ég tek það fram að ekki hefur verið til leikjatölva á mínu heimili í nokkur ár..Eina tölvan sem til er er sú sem ég skrifa á og það fá börnin mín ekki að snerta fyrr en þau skrifa ritgerðir í skólanum.. Frekar vil ég sjá börnin mín að leik í mömmó eða bíló..Og hvað það er yndislegt að hlusta á þau og þeirra uppátæki…Og þau sem betur fer fara út að leika… ég gorta smá.. En ég er stollt af þessu fyrirkomulagi..Ég er á móti þessu tölvu fyrirkomulagi í þjóðfélaginu í dag…
  Takk fyrir að taka á móti minni útrás…

 6. Þörf og góð ábending.
  Rétt sem Bergþóra segir, þegar barnið er eitt “heima” í tölvunni er það úti um allan heim. Skoðum vel hvað krakkarnir okkar eru að horfa á, hvetjum þau til hollrar og góðrar hreyfingar. Hér á Akureyri er hægt að stunda fullt af skemmtilegum íþróttum.

 7. Sæll Guðjón og takk fyrir að vekja máls á þessu. Það er alltaf flókið þegar reglur sem eru viðhafðar á heimili manns eru aðrar á öðrum heimilum. Vissulega þyrfti að samræma grundvallarreglur og ein er að virða aldurstakmörk tölvuleikja, frekar einfalt og ekki farið fram á mikið. Reglur eru hinsvegar alltaf brotnar og því mikilvægt að velta fyrir sér hvað hver og einn getur gert. Að setja skýrar reglur með tölvunotkun og fylgja þeim eftir, mér finnst flott hvernig þið takið leikjatölvuna hreinlega úr umferð þegar reglur hafa verið brotnar. Það þarf að temja börnunum að viðhafa þær reglur sem settar eru innan sem utan heimilis. Timamörk, aldurstakmörk, hvenær dags má spila í tölvunni eru atriði sem þarf að hafa í huga og einnig hvernig börnum áskotnast bannaðir tölvuleikir. Heimili mitt er tölvuvætt, börnin mín spila tölvuleiki og tölvunotkun getur verið skemmtileg þegar umgengisreglurnar eru skýrar. Það er gott að hvetja barnið að nota tölvuna til að skrifa sögur, sendibréf eða leika sér í teikniforritum og með ljósmyndir og skipta út fyrir tölvuleiki. Uppalendur þurfa að gefa sér tíma til að leiðbeina börnum sínum í þessum efnum og taka þátt í tölvunotkun barnanna sinna. Það getur verið afskaplega skemmtileg samverustund að fikta saman með ljósmyndir eða spila tölvukeilu. Temjum okkur skynsemi í þessum efnum, tökum þátt í tölvunotkun barnanna okkar og rýnum vel í það efni sem þeim áskotnast.

 8. Leikirnir sjálfir eru ekki raunverulega vandamálið, heldur það að foreldrar víðsvegar um heiminn virðast halda að ef að það heitir “tölfuleikur” þá sé það handa börnum.
  Þetta er bara ekki satt. Tölfuleikir í dag eru framleiddir fyrir alla aldurshópa á sama máta og kvikmyndir.
  Dóttir mín fær engann aðgang að minni tölfu þó að þar séu engir af grófustu leikjunum. Ég bara vill ekki að átta ára telpan fái að hlaupa inn í brenglaða hugarheima uppfulla af skrímslum og þvíumlíku, þó sá leikur sé frekar mildur. Hún er bara ekki orðin nægilega þroskuð til að skilja að hverju hún er að leika sér.

  Það þyrfti næstum að setja upp námskeið, eða einhverskonar hitting, þar sem við foreldrar myndum, í smærri hópum, prófa að spila þessa leiki sem börnin okkar eiga, og mynda okkur sjálfstæða skoðun á þeim og/eða ræða leikina almennt, bera þá saman, og svo framvegis. Svolítið eins og “bókaklúbbur” nema með tölfuleiki. Svo að við getum ráðlaggt hvert öðru og upplýst hvort annað frekar up tölfuleiki dagsins.

  Svolítil ráð til að koma í veg fyrir að barnið geti leikið sér að þessu án leyfis:
  Setjið aðgangsorð að PC tölfunni sem barnið fær ekki að vita, þannig að það þurfi að byðja um leyfi til að komast í tölfuna.
  Ekki geyma stjórntækin að PlayStation, og þess háttar tölfum, í sambandi við sjálfa leikjatölfuna. Setjið þau upp í hillu eða inn í skáp þar sem barnið veit ekki af þeim. Þá þarf að byðja um leifi til að komast í tölfuna.

  Og áður en þið kaupið leik, rennið nafninu á leiknum í gegnum youtube og horfið á auglýsinguna, cut-scenes, og spilun.

  Og ef að krakkar koma heim eftir að leika sér að einhverju óeðlilegu/gröfu hjá vinum, hringið og spjallið við það foreldri.
  Það getur verið að foreldrarnir viti ekki hvað gerist í þessum leikjum, en ef að þau vita þá er hægt að byðja þau vinsamlegast um að passa uppá að leikurinn sé ekki í spilun þegar þitt barn sé í heimsókn. Ef þau eru ekki tilbúin til að passa uppá þetta, þá er það bara rétt að setja þá reglu að þitt barn fari ekki til þessa vinar.
  Þau meiga alveg leika sér, bara ekki þar sem þessi leikur stendur til boða.

  Það er allavega þannig sem ég sé málið.

 9. Já, og meðan ég man. Þetta síðasta í myndbandinu hjá þér, er feikað.
  Strákurinn er að leika. Hvers vegna annars vværi upptakan sett svona hentuglega upp til að ná frekjukastinu?
  Annars finnst mér frekjuköst af þessu tagi vera frekar til merkis um að foreldrar hafi ekki kennt barninu að taka orðinu “nei” en að það sem þeim sé neitað um sé “hættulegt”.

 10. Vissulega eru síðustu og verstu tímar núna og allt er það tölvunum að kenna en þó má ekki gleymast það sem sannaðist í hinni stórmerkilegu kvikmynd “Snakes on a plane” að tölvuleikir geta verið af hinu góða og geta hreinlega bjargað mannslífum.

 11. Til að átta sig á hvort leikir séu hæfir börnum þá eru hér nokkrar síður sem fjalla um þessi málefni og meta fyrir hvaða aldur leikurinn sé hæfur:

  http://www.gamingwithchildren.com/
  http://www.whattheyplay.com/
  http://www.commonsensemedia.org/

  Sjálfur spila ég tölvuleiki og hef nokkra á PC vél heimilisins sem ég spila með 9 ára syni mínum, get ég vel mælt með td. Trackmania (kappakstur), Spore, PES 2010 (fótbolti), Lego Star Wars og Indiana Jones.
  Ég spyr son minn út í hvaða leiki hann hefur fengið að prófa annarsstaðar og leifi honum ekki að horfa á mig spila það sem ég hef fyrir mig sjálfan.

 12. Reyndar Hans, er þetta atriði með drengnum þarna síðast ekki sett upp, heldur er það bróðir hans sem setur upp myndavélina, hlæjandi af því að hann veit að mamman er að fara að segja stráknum að hún sé búin að loka fyrir aðganginn að “World of Warcraft”.. Þetta er einn af þeim allra mest ávanabindandi leikjum á netinu í dag.. og mörg börn sem hafa farið illa af því að leika hann.
  Ég er einmitt í vandræðum með leikjanet.is, þar eru margir skemmtilegir leikir fyrir börn, en líka leikir sem snúast um að drepa fólk á sem hugvitsamlegastan máta… og einhvern veginn eru það þeir leikir sem hafa mesta aðdráttaraflið.. fékk reyndar ýmsar hugmyndir hérna fyrir ofan, mun örugglega nýta mér þær. Ég vil ekki hafa mitt heimili, heimilið þar sem ‘allt’ er leyfilegt.

 13. Já þetta er alveg hræðilegt. Það er skelfilegt til þess að hugsa að börn og óharðnaðir unglingar spili svona leiki og/eða horfi á eitthvað þessu líkt.Reyndar finnst mér líka hræðilegt að fullorðnir skuli hafa þörf fyrir að horfa eða taka þátt í slíku. Það er auðvitað vatn á myllu allra vopnaframleiðenda í heiminum og allra herskárra manna að gera venjulegt fólk háð ofbeldi. Hver er tilgangurinn með því að horfa á (eða spila) slíkt efni? Hverju höfum við gleymt? Hvernig fullnægjum við spennuþörf okkar og þeirri frumþörf fyrir að fá útrás fyrir þá orku sem við þurfum að losa?
  Við foreldrar og venjulegt fólk í heiminum sem valið hefur að fæða afkvæmi í þennan heim okkar megum aldrei sætta okkur við yfirgangssemi framleiðenda slíks efnis. Við þurfum að segja nei takk, við þessum viðbjóði til að hann seljist ekki. Við megum aldrei sofna á verðinum gagnvart börnunum okkar og velferð þeirra. Að þeim er vegið úr mörgum áttum, það er okkar að stoppa við og segja nei þetta látum við ekki yfir okkur ganga! Við höfum greinilega sofið á verðinum en það er aldrei of seint að grípa til aðgerða. Við þurfum ennfremur hvert og eitt að skyggnast í hug okkar og spyrja okkur sjálf hvað við viljum innprenta börnunum okkar, hvernig fyrirmyndir erum við sjálf?
  Börn þurfa aga, þau þurfa að láta að stjórn foreldra sinna sem bera á þeim ábyrgð til 18 ára aldurs. Þau þurfa að vita hvar við setjum mörkin og þau þurfa mörk til að geta þroskast og orðið góðir og dugandi þjóðfélagsþegnar.
  Er ekki komið að því að halda um þetta alsherjar málþing eða ráðstefnu þar sem boðaðir væru; umboðsmaður barna, dómsmálaráðherra, forsætisráðherra, menntamálaráðherra, félagsmálaráðherra, fulltrúar; sálfræðinga, félagsráðfjafa, kennara, leikskólakennara o.s.frv.; valið fólk sem vinnur að málefnum barna á breiðum grunni. Niðurstaða samkomunnar yrði dregin saman í allsherjar ályktun sem komið væri áleiðis til framkvæmda.
  Það er greinilega þörf á aðgerðum til úrbóta. Við höfum ekki efni á því að börnin okkar og unglingarnir eyðileggi sig á þessari tómstundaiðju sem virðist orðin svo útbreidd. Við fullorðna fólkið verðum að gera eitthvað til úrbóta!

 14. Mikið rosalega er ég ánægð með þessa umræðu. Ég hef oft upplifað mig mjög svo eina í heiminum með þessar skoðanir. Ég prófaði einu sinni að leita ráða hjá starfsmanni bæjarins því ég vil hafa eitthvað um það að segja hvort sonur minn spili bannaða leiki. Ég fékk enga hjálp þar og meira að segja fékka að heyra að þetta væri bara eðlilegt og ekkert við að gera. Mikil vonbrygði. Of mikil tölvunotkun er líka eitthvað sem ég velti of fyrir mér. Þegar börnin kunna ekki lengur að leika sér og eru óróleg heima ef ekki er talvan til afþreygingar finnst mér þau vera orðin ansi langt leidd. Ég myndi mjög gjarnan vilja ræða þetta í hóp á uppbyggilegan hátt svo börnin fái að þroskast eðlilega.

 15. Kærar þakkir fyri þetta fróðlega framlag Guðjón.

 16. Sæll
  Vildi bara þakka fyrir góða og þarfa grein. Við settum upp netvara frá símanum heima hjá okkur sem virkar vel, en hinsvegar erum við oft skömmuð af 10 ára dóttur okkar yfir því að hún komist bara ekki í NEINA leiki því netvarinn loki á allt. Við hvetjum hana hinsvegar til að nota tölvuna til að teikna í, skrifa sögur og nálgast annað efni, þannig að hjá okkur er alls ekkert tölvubann.
  Bestu kveðjur

 17. Flott Guðjón. Það er nefnilega líka það að mér finnst fólk leggja mikla áherslu á það hve góða netvara það er með, gott og blessað. Þessa leiki er nefnilega líka hægt að spila í tölvunni sjálfri án þess að hún þurfi endilega að fara á netið. Hins vegar ef hún er sett á netið þá er hægt að spila þetta við nokkrar milljónir annarra notenda. En þó þetta horn; ég lék mér að platskammbyssum í gamla daga en fann aldrei þörfina fyrir að verða byssumaður þegar ég varð eldri. Fólk hefur auðvitað misjafnar þarfir en það sem mér finnst vera aðalatriðið hér er að þessi aldurstakmörk séu virt. Þarna er verið að tala um þroskann til að höndla efni. Ég til dæmis hef engann áhuga á hrollvekjum en aðrir horfa á það eins og að drekka vatn og nenna ekki að horfa á gamanmyndirnar mínar. Ég dæmi ekki fólk út frá því. En gott að fá þetta myndband og þessar hugleiðingar upp á borðið til að fólk sjái hvað getur verið að gerast á bakvið luktar dyr. Bestu kveðjur, Jói.

 18. Þetta er fróðleg umræða og góð, svolítið einsleit að vísu. Ég setti inn mín 10 sent ásamt upplýsingum fyrir foreldra á mánudaginn en það svar er ekki birt ‘avaiting moderation’ eru skilaboðin. Ætli séu fleiri skilaboð sem fá ekki að birtast og hví ?

 19. Það er leitt að þessi góða athugasemd fékk ekki að koma strax inn. Ástæðan er sú að innbyggðar ruslvarnir þessa vefjar halda öllum athugasemdum sem innihalda fleiri en tvo tengla til frekari skoðunar umsjónarmanns. Þessu hefur nú verið breytt og nú mega athugasemdir innihalda fjóra tengla án þess að fett sé fingri út í það.

 20. Sæll Sigtryggur, þín “10 sent” eru komin inn hér fyrir ofan. Ástæða þess að athugasemdin þín birtist ekki er tilgreind þar. Takk fyrir góða punkta!

 21. Þið ættuð nú að vita það að í dag er ekki eins og það var fyrir 20 árum. Tæki þróast og börnin með. Sumir leikir eru bannaðir innan við 16 ára og 18 ára, foreldrar eiga og ættu að passa betur uppá hvaða leiki börnin séu að kaupa sér og hvaða leiki foreldrar eru að kaupa handa börnunum sínum. Ég á bróður sem er 12 ára ( sjálfur er ég 31 ára ) og fyrir ári síðann þá fór hann í BT á Akureyri til að kaupa sér tölvuleik sem var og er bannaður innan við 16 ára, hann sótti leikinn og fór í afgreiðsluna rétti starfsmanni leikinn, borgaði og fór síðann út. Þegar hann sagði mér þetta þá tók ég mig til og fór í BT Akureyri og helti mér yfir starfsfólkið sem er að vinna þar. Mér mislikar svona vinnubrögð þegar starfsfólk getur ekki einusinni farið eftir lögum.

 22. Takk fyrir viðbrögðin!
  Ég hef haldið mér til hlés og fylgst glaður með því hvað þessi litla grein, sem átti að verða oggolítið bréf, hefur vakið fólk til umhugsunar og umræðna. En nú vil ég þakka frábær viðbrögð við þessari grein. Síðastliðna fjóra daga hefur þessi síða verið opnuð 1200 sinnum og nærri 200 manns hafa komið tvisvar eða oftar inn á síðuna. Enda eru komnar um 20 mjög fínar athugasemdir foreldra og greinilegt að stór og góður hópur fólks fylgist með og tekur þátt í umræðunni. Ég er hæstánægður. Ég veit líka að umræðan fer ekkert síður fram annarsstaðar, í eldhúsum, kaffistofum fyrirtækja og víðar (kannski er besti staðurinn uppi í rúmi á kvöldin þegar börnin eru sofnuð og næðið algert ;o).

  En þrátt fyrir að umræðan sé stórfín og kraftmikil núna hefur hún eins og aðrar svona skorpur tilhneigingu til þess að lognast út af án mikilla áhrifa. Ég ætla því að reyna að taka saman helstu punkta úr því sem hér hefur komið fram og setja þá upp á fjórðu síðu greinarinnar og áskil mér rétt til þess að breyta þeim og laga eftir því sem umræðunni vindur fram og fleira bætist við.

  Mér lýst mjög vel á lokaorð Önnu Jónu um það að úr þessari umræðu verði að verða eitthvað stórt og áhrifamikið. Tilgangur greinarinnar var auðvitað sá að reyna að kveikja í fólki og brýna það til verka. Hins vegar held ég að við megum ekki rjúka út í stórræðin, heldur horfa okkur nær, foreldrar á Akureyri og nærsveitum, og taka okkur saman um leiðir til þess að tryggja börnunum okkar heilbrigt líf.

  Ég myndi gjarnan vilja fá hugmyndir frá fólki um það hvernig einn stór og mikill fundur foreldra á Akureyri gæti farið fram og hvað ætti að vera til umræðu þar. Mér sjálfum þætti slíkur fundur geta borið yfirskriftina „Heilbrigt líf barna”, eða “Heilbrigð æska” og þar mætti auðvitað ræða um tölvuleikina, sem hér hafa verið ræddir. En mér finnst þeir samt bara vera hluti af mun stærra vandamáli. Menning barna í dag er að stórum hluta óheilbrigð, jafnt að innan sem utan, andlega sem líkamlega og þar er okkur foreldrunum sjálfum um að kenna! Þessi ómenning lýsir sér í mikilli inniveru, óhóflegri net- og símanotkun, ótrúlega bjagaðri sýn á veruleikann og þá sérstaklega hlutverk kynjanna, gríðarlegri sælgætis- og gosneyslu og þar fram eftir götunum. Hvað er til ráða?

  Það er ekki hægt að sitja bara og horfa á börnin okkar veslast upp á þennan hátt! Mottóið er ekki „það verður að gera eitthvað!“ heldur „VIÐ verðum að gera eitthvað!“

 23. Komið þið sæl..
  Ég hef lesið athugasemdir hér að ofan og minnir þetta mig einna helst á ofstækisfulla trúarsamkomu, þar sem fólk keppist við að toppa hvert annað í lýsingarorðum yfirfullt af heilagri vandlætingu. Hinn stóri Satan er fundinn TÖLVULEIKIR! Ég held að það sé kominn tími á að tóna þetta ofstæki aðeins niður og anda í gegnum nefið.. Sýnt hefur verið fram á að ofbeldisfullt sjónvarpsefni eða tölvuleikir hafa engin áhrif á heilbrigð börn.. Hins vegar hefur verið sýnt fram á viss tengsl gagnvart veikum einstaklingum.. Þess vegna eru sett aldurstakmörk á leiki og myndir. Förum varlega í alhæfingar Ef foreldrar ætla að fara fram með ostækisfullum hætti og banna og ritskoða allt þá munu krakkarnir sækjast frekar í þetta.. þið munið hvernig þetta var þegar þið voruð ung,var það ekki ?. Allt sem er bannað er meira spennandi..
  Nú er ég ekki að leggja til algert frelsi og alltaf verðum við að leiðbeina börnum okkar..

 24. Sæl aftur..

  Mundi skyndilega eftir einu sem ég vildi deila með ykkur, sem dæmi um hvað það getur verið erfitt að ritskoða efni handa börnum okkar.
  Allir þekkja ævintýri Múmínálfanna geri ég ráð fyrir.. þetta skemmtilega og meinlausa ævintýri.. En bíðum nú við.. Er það svo ?.. Fyrir mörgum árum, þegar elsti sonur minn var minni eða 5-6 ára (horfði oft á Terminator á þeim tíma) þá horfði hann á teiknimynd um Múmínálfanna og fjallaði hún um hvernig Ísdrottningin og Morrinn frystu og slöktu á lífi í blóma. Í þó nokkurn tíma, á eftir fékk hann af martraðir þar sem Morrinn og Ísdrottningin voru í aðalhlutverki, en Terminator kom þar hvergi nærri og hafði engin áhrif á hann, hvorki fyrr né síðar.

 25. Sæll,
  ég verð að bregðast aðeins við þessu. Það er hárrétt hjá þér að varlega skal farið í alhæfingar og ofstæki. Ég gæti að vísu nefnt nokkur dæmi um alhæfingar í athugasemdinni hér beint fyrir ofan en ætla að anda með nefinu í staðinn.
  Að mínu viti hafa þeir sem hafa tekið þátt í umræðunni hér að ofan verið fremur hófstilltir. Ég lái þeim hins vegar ekki sem blöskrar þegar þeir sjá hausinn skotinn af manneskju á ótrúlega raunverulegan hátt og hugsanlega er það jafnvel svo að fullorðnum bregður meira við þetta heldur en börnum. Hugsanleg skaðleg áhrif ofbeldisins sjálfs eru hins vegar ekki það sem angrar mig mest.
  Það sem ég hef verið að reyna að koma að hérna í þessari grein og í athugasemd minni hérna að ofan er sú veraldarsýn sem verður til hjá börnum og unglingum í gegnum tölvuleikina, fjölmiðlana, netið og markaðsöflin sé (ég anda með nefinu og nota viðtengingarhátt) ekki heilbrigð. Skreppið inn á YouTube og hlustið á textann í lagi Erps Eyvindarsonar „Viltu Dick?“, lesið líka textann við lag Júlí Heiðars „Blautt dansgólf“ og virðið síðan fyrir ykkur viðtökurnar sem drengurinn fékk á sal í Versló með sama lag. Jafnt strákar sem stúlkur öskra af hrifningu…
  Mér dettur í hug að spyrja: Er þetta heilbrigð menning? Eru þetta „heilbrigð börn“? Mér sýnist a.m.k. þetta vera börn sem hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá einhverju sem þarf að sporna gegn.
  Er ekki ástæða fyrir foreldra að ræða málin og ræða síðan við börnin sín á heilbrigðan hátt? Með nefinu.

 26. Sæll Guðjón..
  Ég skil áhyggjur þínar og ykkar hinna.. En það sem mig leikur forvitni á að vita og ætti að vera ykkar aðaláhyggjuefni.. Hversvegna vilja börnin ykkar horfa á og spila svo ógeðfellt efni? Heilbr. börn hafa í sér innbyggðan ritskoðara og þeim getur ofboðið.. þá hætta þau einfaldlega að horfa á eða spila, jafnvel þó vinirnir geri það.. Ef hins vegar ykkar börn sækjast í þetta ógeðfelda efni ættuð þið að spyrja ykkur hvers vegna.. Efnið verður til einhverstaðar og krakkarnir munu finna ráð til að komast í það.. sérstaklega ef það er bannað.. Komist að rót vandans… Þetta er hið raunverulega vandamál sem þið eigið við að etja ekki leikirnir sjálfir…

 27. Sæl, það er auðvitað á hreinu á fólk er misjafnlega viðkvæmt. Því er ekki hægt að segja að það sem henti einum henti öllum. Ég er viss um að það er hægt að finna 14 ára barn sem er ekki eins viðkvæmt og síðan einhver ákveðin fullorðinn einstaklingur. Ég hef sjálfur spilað sumra þessara skotleikja sem eru á netinu, svo stendur maður upp og dustar þetta leikjaryk af sér og fer að sinna öðru. Það sem upphaflega var lagt af stað með hérna á þessari síðu er að leyfa börnum ekki að prófa hvað sem er af þessu leikjaefni. Eitt foreldrið hér að ofan sagði að það vildi fyrst prófa leikinn og svo sjá til hvort það henti barninu. Mér finnst það vera rétt. Eins og ég impraði á þá eru börn misjafnlega viðkvæm. Þessi aldurmörk eru jafnaðarmörk sem leikjaframleiðandinn fer eftir, bara eins og bíómyndir. Ofbeldinu eru gefin stig. En allt sem er bannað er spennandi, það hafa flestir hér upplifað. Ef einhver ætlar sér að komast í þetta þá getur hann það. Því þurfum einfaldlega fylgjumst með börnum okkar og ræða þetta við þau. Ég get lofað ykkur því sem vinnandi sérfræðingur í tölvum að leikirnir vera bara raunverulegri með tímanum. Takk fyrir umræðuna.

 28. Takk fyrir að koma þessari umræðu af stað Guðjón.
  Mér finnst mikilvægt að reyna að viðhalda henni með það að markmiði að viðhorfsbreyting geti orðið í þá átt að það þyki sjálfsagðara og almennara að takmarka aðgang barna að tölvuleikjum af þessu tagi. Ég veit ekki í hvaða formi umræðan ætti að fara fram en líst vel á stóran fund eins og þú talar um en einnig væri gott að smærri hópar hittist eins og foreldrar bekkja í skóla.

 29. Sælt veri fólkið.
  Ég á nú ekki barn í Brekkuskóla en fékk þetta sent í gegn um skóla sonar míns og finnt það gott mál. Öll umræða um þessi mál getur gert gagn.
  Mig langar til að benda á nokkuð sem fólk gerir sér sjaldan grein fyrir að geti gerst en er að mínu mati í raun versta afleiðingin af of miklu áhorfi á ofbeldi. Það er nefnilega til nokkuð sem við getum kallað ónæmi(e.Desensitization.) það verður til þegar einstaklingur horfir mikið á ofbeldi og það sem hann sér hættir því með tímanum að hafa nokkur áhrif á hann. Þetta gerist vissulega ekki á einni nóttu heldur byggist upp hjá börnum og veldur því svo að barnið sækir í meira af sama efni því það lítur á það sem eðlilegann hlut.
  Börn sem orðin eru ónæm eru líklegri til að beita aðra ofbeldi og svo er afleiðingin líka sú að þegar þau verða vitni að ofbeldi eins og t.d. á skólalóðinni að þá fynnist þeim ekki mikil ástæða til að reyna að stoppa það sem þau sjá eða kalla eftir aðstoð starfsmanns.Það hefur engin sérstök áhrif á þau lengur að sjá slíkt því skilin milli þess sem er eðlileg eða óeðlileg hegðun hafa brenglast hjá þeim.
  Þetta hafa rannsóknir sannað bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum og er eitthvað sem við ættum að taka fullt mark á og þessvegna er einmitt mikilvægt að leikjum sem bannaðir eru vissum aldri sé haldið frá börnum undir þeim aldri. Því lengur sem við getum haldið þvi efni frá börnunum sem ekki er við þeirra hæfi, þeim mun minni líkur eru á að þau þrói með sér ónæmi fyrir því.

 30. Mig langar að svara pabbanum hérna. Í fyrsta lagi þætti mér fróðlegt að sjá þær rannsóknir sem sýna fram á að ofbeldisfullt sjónvarpsefni og tölvuleikir hafi engin áhrif á heilbrigð börn. Einnig hvernig heilbrigð börn eru skilgreind í þeim rannsóknum og á hvaða aldri þau eru. Svona efni hefur nefnilega ýmiss konar áhrif, þau verða ónæm fyrir ofbeldinu, mörkin um það hvað er eðlilegt og hvað ekki færast til. Þetta hefur einhver áhrif, eins og öll önnur félagsmótun, þó áhrifin séu ekki sýnileg. Mér finnst full ástæða til að virða þessi aldurstakmörk, meðan börnin hafa ekki nægilegan siðferðisþroska til að takast á við svona efni sjálf.

  þetta með innbyggða ritskoðarann get ég ekki skilið, þær rannsóknir sem ég þekki segja nefnilega hið andstæða. Börn hafa ekki þroskað tölvuleikja- og sjónvarpslæsi, þau greina ekki á milli raunveruleika og óraunveruleika í slíku efni og taka það því meira “inn á sig” en fullorðnir. Fyrir utan að það sem vinirir segja og gera skiptir oft meira máli en það sem mamma eða pabbi segja.

 31. Las þessa grein og er alveg sammála mörgu af því sem talað er um. Verð þó að benda á að umfjöllun um leikina er örlítið takmörkuð.

  Left 4 Dead er t.d. settur upp sem einhversskonar limlestingahermir þegar markmiðið með honum er í raun einungis að lifa af og komast í enda hvers borðs. Því verður ekki neitað að í honum er mikið af blóði og líkamspörtum en þeir hlutir eru þó einungis til staðar til þess að magna spennuna af yfirvofandi heimsendi. Í honum er spilarinn alltaf með þremur öðrum (þaðan kemur nafnið að hluta til) hvort sem þeir eru tölvustýrðir eða vinir og félagar og vinnst leikurinn ekki án þess að þeir vinni saman.

  Call of Duty: Modern Warfare 2 er af mörgum talinn einn besti stríðsleikur seinni ára ekki fyrir slettur og slor heldur fyrir þá undirstöðu sem hann býr til fyrir leikmenn að verða betri í honum. Gjarnan setja menn upp lið og keppast við að, í gegnum samvinnu, vinna andstæðingana.

  Grand Theft Auto IV. *andvarp*. Það er mjög erfitt að útskýra GTA eftir þetta myndband þarna uppi en látum það duga að segja að það sem sýnt var þarna uppi er dæmi um það allra versta sem hægt er að gera með því sem leikurinn fær þér í hendur, frelsi. Frelsi til þess að hlaupa um stærðarinnar borg og gera það sem þú vilt. Þetta frelsi er ekki fyrir alla, því er ég alveg sammála.

  Ekki halda að ég sé að segja að þetta séu ástæður fyrir því að hlaupa út í búð og kaupa eintak handa krökkunum. Þetta er einungis tilraun til þess að afdemónísera umræðuna örlítið. Já það er rétt að ung börn eiga ekkert í marga af þessum leikjum en fyrir mörg þeirra, eftir fáein ár, verða þeir einskonar platform til þess að eiga samskipti og upplifanir með vinum og kunningjum – sem dæmi má nefna að í Tækniskólanum eru haldin fleiri fjölspilunarmót í tölvuleikjum en böll.

  Ef þið sem foreldrar setjið þetta upp rangt munu börnin eitt af öðru bara fara á bakvið ykkur og spila það sem þau vilja.

 32. Mér finnst þetta mjög gott framtak, Guðjón, og er mikilvægt að foreldrar viti hvað börn þeirra eru að spila bæði heima hjá sér og hjá öðrum. Nú segi ég þetta sem mikill aðdáandi og talsmaður tölvuleikja sem skemmtun, en eins og þú segir er vitneskja um leikina sjálfa mikilvæg.

  Ég vil samt nefna að umræðan getur oft verið frekar einhæf, ekki endilega hér, en með tilliti til almenns viðhorfs til tölvuleikja. Þó það séu vissulega til leikir sem fjalla einungis um ofbeldi or ekkert annað, þá er það einfaldlega alls ekki heildarmyndin. Mér finnst flott að þú nefnir í lokin að mjög margir leikir eru góð skemmtun og heilbrigð þar að auki. Þegar ég var á yngri árum, þá var ég nógu heppinn að hafa foreldra sem kenndu mér hvað er háð aldri og hvað ekki. Ég vildi ekki kaupa eða spila GTA þegar ég var 12, og get stoltur sagt að ég hef ennþá ekki gert það. Mér finnst leikurinn viðbjóðslegur, og sé ekki tilganginn í honum.

  Það sem mér finnst að ætti að leggja mestu áherslu á er að banna sölu þeirra leikja sem eru bannaðir innan 18 ára til barna undir þennan aldur. Þetta var gert einu sinni en virðist algjörlega hafa horfið í nútíma samfélagi. Einnig á bara að vera almenn vitneskja um þá leiki sem eru alls ekki fyrir börn. Hins vegar þarf að passa sig þegar aðskilið er það efni sem leggur áherslu á óþarft ofbeldi og það efni sem býr yfir ofbeldisfullt efni en gerir það ekki að ástæðulausu. T.d. Left 4 Dead fjallar um að lifa af árás frá lifandi dauðum. Ég stórefa um að einhver fari að vilja meiða aðra einfaldlega við að skjóta óraunveruleg skrímsli. Hins vegar get ég skilið það betur í tengslum við GTA og hina ógeðslegu Manhunt leiki.

  Einnig eru mikil skil milli leikja sem eru stöðugt á netinu (kallast öðru nafni MMO leikir) og annarra leikja. Ég hef oft gagnrýnt MMO leiki, og geri það núna líka. Þessir leikir, ólíkt mörgum öðrum, festa leikendur inn í einhverskonar sýndarveruleika sem erfitt er að komast út úr. Það eru þessir leikir sem eru ávanabindandi, aðrir leikir eru eins ávanabindandi og allt annað skemmtunarefni. Þess vegna er ég líka alfarið á móti þeim.

  Það sem líka hjálpar við skilninginn á hvort efni sé fyrir ákveðinn aldur er að skilja að tölvuleikir eru ekki bara fyrir börn. Alls ekki, ég þekki alveg venjulegt fólk á þrítugs-, fertugs- og meira að segja sextugsaldri sem spila tölvuleiki í frístundum sínum. Það er ekkert að því, þetta er bara skemmtun. Ef fleira fólk fer að sjá leikina sem efni fyrir alla, þá verður líka talsvert auðveldara að aldursgreina efnið sjálft.

  En aðalmálið er, eins og þú segir, að einfaldlega hafa hemil á efnið sem börn manns komast að. Ég hef verið duglegur í gegnum árin að fylgja aldurstakmörkunum og ég sé ekkert eftir því. Aðrir ættu svo sannarlega að gera það. Framlag Sigtryggs hérna að ofan var frábært, þessar síður eru frábær tæki til að grennslast meira fyrir um það efni sem börnin eru að spila. Ég get líka komið með nokkrar uppástungur hér: Þegar kemur að fjölskylduvænni skemmtun, þá er auðveldast að mæla með Nintendo Wii leikjatölvunni og Nintendo DS leikjatölvunni. Á þessum tveim tölvum eru talsvert færri ógeðslegir leikir en á Playstation 3, Playstation 2 og Xbox 360. Allt sem er með Mario í er úrvalsskemmtun, ásamt Kirby, Pokemon og urmull púsluleikja sem fæst á báðum tölvum.

  Ég get öruggur sagt að ég sé líklega sá yngsti til að bregðast við grein þinni, en ég er bara 17 ára. En eins og í öllu öðru er alltaf gott að fá mismunandi sjónarhorn á tiltekið efni. Ég spila tölvuleiki í frítíma mínum ásamt því að gagnrýna og tala um þá á netinu. Það er fátt sem mér finnst skemmtilegra, en ég lít aldrei á það sem meira en áhugamál. Því finnst mér, eins og þér, mikilvægt að farið er rétt í þetta áhugamál. Ef ég eignast einhvern tíma börn mun ég setja mig algjörlega inn í hvað og hvernig efni þau komast í. Enda er það skylda hvers foreldris að vera skynsamur og varkár. Ég vil þakka þér fyrir þessa grein, og vona að hún stuðli að snjallri og skynsamlegri umræðu um hin ýmsu efni innan tölvuleikjageirans.
  Kveðja, Jón M.

 33. Skemmtileg umræða, ég vil samt benda þér á einn hlut varðandi síðasta hluta myndbandsins. Viðbrögð drengsins eru leikin það er til heill myndbandaflokkur með ofsafengnum viðbrögðum þessa stráks við hinar ýmsu aðstæður.

 34. Þetta vídeó er dálítið óraunhæft hjá þér. Það tekur fram það versta sem er í boði í leikjunum og klínir því fram í foreldra til þess að skapa sterk viðbrögð.
  Ég á tvo bræður og eru þeri 8 og 12 ára. Þeirra uppáhalds leikur er Grand theft auto. Þegar ég sé hvað þeir eru að gera í leiknum þá fynnst þeim skemmtilegast að keyra um borgina og láta lögguna elta sig og þeir hafa ekki þroska í að gera Mission í leiknum.
  Ég skil gremju ykkar vegna left4dead leiksins en eins og þú segir í greininni þá er þetta kynningareintak sem ætti ekki að taka meir en 10 mín í spilun og þá er þér sagt að kaupa leikinn. Ég er ekki að réttlæta ofbeldið í þessum leik með því að segja að þetta sé kynningareintak en ég vil líka benda á það að það er ekki auðvelt að ná í kynningareintak af leikjum ef þú ert 12 ára gamall. Til þess þarftu að stofna aðgang að netsíðu sem Ps3 tölvan þín tengist, þaðan þarftu að leita af leiknum og ýta á download.

  Það er vissulega slæmt að krakkar séu marga klukkutíma á dag fyrir framan skjáinn en hefur eitthvað slæmt gerst sem eru bein áhrif af tölvuleikjum eins og þessum?
  Þá er ég ekki að tala um frekjukast hjá krökkum eða afleiðingar þess að foreldrar hafi enga stjórn á börnum sínum.

 35. Komið þið sæl

  Takk fyrir að opna umræðuna, hún er þörf og mikilvæg. Fyrir mér er þetta ekkert rosalega flókið. Ef leikurinn eða kvikmyndin er bönnuð þá á barn sem er yngra en aldurstakmarkið segir til um ekki að spila leikinn eða horfa á myndina. Vandamálið er að það fara ekki allir foreldrar eftir þessu og börnin okkar eru að spila og horfa á bannaðar myndir hjá vinum og félögum. Ef foreldrar vinanna eða félaganna vilja ekki samræma aðgerðir þá getur verið erfitt að taka á því öðruvísi en að banna barninu að leika heima hjá viðkomandi vini. Það er ekkert sérstaklega góð lausn samt.

  Ein góð saga að lokum. Ég starfa sem leikskólakennari og til mín kom drengur efir helgarfrí sem sagðist hafa verið að horfa á “Pirates of the karibian” um helgina. Ég spurði “bíddu er hún ekki bönnuð fyrir börn”. Drengurinn var fljótur að svara “nei hún er bara bönnuð fyrir 12 ára, ég er bara 5 ára. Ekki hlakkar mig til að verða 12 ára þá er allt bannað”. 🙂

 36. Áhugaverðar umræður um tölvur og tölvumenningu 🙂

  Höfundur rammar umræðuna inn í lokin – Vona að hann fyrirgefi mér athugasemdirnar:

  * Foreldrar hafa miklar áhyggjur af ofbeldi í tölvuleikjum og kvikmyndum > Eitthvað nýtt? Þessi umræða er jafngömul tölvuleikjum.
  * Reglur um notkun tölva eru mjög mismunandi milli heimila. Allt frá því að vera engar til mjög skýrra reglna. > Heimili eru mismunandi … So?
  o Nauðsynlegt er að hafa samráð um einhverjar grunnreglur > Er það nú virkilega? Orwell (1984) mættur á svæðið?
  * Vankunnátta foreldra er kannski ein orsök fyrir vandræðum > Mikil er kunnátta höfundar/tölvukennarans. Er þetta ekki frekar spurning um áhuga en kunnáttu?
  o börnin kunna oft meira á tæknina en foreldrarnir og hafa þ.a.l. meiri „völd“ en þau kannski hafa þroska til > Enn ein alhæfing höfundar.
  * Markaðsöflin erfið. > Blame it on the Market! Það hefur alltaf virkað.
  o Miskunnarlaus ofbeldis- og karlrembuáróður dynur á strákunum og sömuleiðis útlitsdýrkunaráróður á stúlkunum í öllum fjölmiðlum (þ.m.t. netheimum). > Þessi hlægilega staðhæfing segir meira um rökfestu höfundar en Ísland í dag 🙂
  o Það má aldrei sofna á verðinum! > Útvörður siðferðis á heimilum tekur flikk-flakk heljarstökk!
  * Leiðir nefndar: > Halló Akureyri!
  o Förum eftir leiðbeinandi reglum um tölvuleiki áður en þeir eru keyptir > (!) Lesist: Seljendur tölvuleikja þurfa að fara eftir leiðbeindi reglum.
  o skoðum síður eins og þessar: > Loksins, loksins … góð ábending.
  + http://www.gamingwithchildren.com/
  + http://www.whattheyplay.com/
  + http://www.commonsensemedia.org/
  o Flettum leikjunum upp á Youtube til þess að skoða hvernig hann er spilaður > Duh! Unglingar eru ofurfljótir til að læra leikaðferðir.
  o takmörkum aðgang að óæskilegu efni og skömmtum hæfilegan tíma > Hafta- og skammtastefnan? Hvers vegna ekki banna aðgang að óæskilegu efni? Nei þýðir Nei!
  + notum sérstakan aðgang í tölvunum fyrir börnin með lykilorði (sem þau ekki vita?) > Kanntu annan?
  o tökum þátt í tölvunotkun barnanna, lærum af þeim og þau af okkur > Hvernig væri: Lærum að tölvuleikir eru fræðandi og skemmtilegt efni fyrir börn og unglinga?
  + Mjög margir tölvuleikir eru góð skemmtun og heilbrigð afþreying > Áhugaverð sýn “tölvukennara” á tölvuleiki: “Góð skemmtun og heilbrigð afþreying” Hvernig væri að leggja áherslu á fræðandi, gagnvirkt efni?
  o hittumst og ræðum saman, miðlum reynslu og þekkingu > Er ekki bara hægt að spara tíma og peninga og ræða þetta hérna á spjallinu? Þurfum við að beita gamaldags, hliðrænum aðferðum þegar við höfum stafræna tækni?

  Bestu kveðjur norður á Akureyri…

 37. Þetta er nokkuð góð grein hjá þér Guðjón en ekki get ég sagt að þetta sé nýtt efni. SAFT hefur í gegnum árin haldið uppi upplýsingum um þetta efni sem segir foreldrum hvað miðarnir tákna. Hins vegar þá er ekki hægt að benda á tölvuleiki og segja að þetta sé það slæmur kostur fyrir börnin. Það liggur á hlut foreldrana að setja mörkin við hvaða leikir eru spilaðir og hversu lengi. Ég á yngri bróður (16 ára) sem að spilar World of Warcraft. Foreldrar okkar hafa sett honum sömu reglur og voru settar mér en er það takmarkaður tími. Þegar sá tími er búin þá fer hann oftast út til vina sinna en halda sumir foreldrar upp svipuðu kerfi. Hins vegar er líka alltaf hægt að gera einn hlut. Þegar ég var yngri og mér var sagt að fara út að leika mér eftir mikla tölvunotkun þá fór ég oftast til vina minna. Mæðurnar í bænum þekktu svona lagað og sögðu vinum mínum að drepa á tölvunum þegar ég kom. Líkt var gert þegar að vinir mínir komu í heimsókn til mín og okkur var öllum sparkað út. Notkun tölvunnar er á ábyrgð foreldranna og er það mjög góð leið að setja lykilorð á tölvurnar líkt og einhver benti á hér að ofan.
  Hérna er líka fróðleiksmoli sem sárafáir vita af : Þið getið stillt tíman sem að börnin ykkar spila World of Warcraft. Fyrirtækið sem að gerði leikinn setti inn þetta kerfi en læsist reikningur spilandans eftir X mikla spilun á hverjum degi og opnast ekki aftur fyrr en á miðnætti.
  Ég er núna 20 ára gmall framhaldskólanemi sem að er ekki á sakaskrá. Hef ég aldrei komist í snertingu við lögin.
  Samt spilaði ég mikið af tölvuleikjum en fyrsti leikurinn sem að ég fékk var einmitt GTA Vice city. Annar leikurinn minn var The Getaway en fengu báðir leikirnir svarta stimpillin hérlendis. Fylgdust foreldrar mínir með því hversu miklum tíma ég eyddi í þetta og töluðu við mig um afleiðingar gjörða minna sem að fáir krakkar hugsa úti.

 38. Sæll,

  Las greinina hjá þér og svörin við henni. Ætlaði mér ekki að segja neitt en tel að ég verði að gera það þar sem ýmislegt af því sem þú segir er merkilegt. Einsog í fyrsta lagi talar þú um á þriðju síðunni eftirfarandi:

  “Sérfræðingar geta rifist endalaust um það hvort hægt sé að sanna það vísindalega hvort ofbeldi í tölvuleikjum og kvikmyndum hafi slæm áhrif á hegðun barna, en að mínu viti er það ekki það sem fólk þarf að ræða.

  Spurningin er einfaldlega: Viljum við að börnin okkar leiki sér að því að skjóta fólk í hrönnum, skera af því hausa eða útlimi og það allt í stórkostlegustu hljóm- og myndgæðum sem fyrirfinnast? Erum við tilbúin til þess að hleypa 11 ára börnum, eða jafnvel mun eldri, inn í hugmyndaheim stríðsátaka eða brjálaðra glæpamanna? Ég held að svarið verði alltaf nei.”

  Í fyrsta lagi þá neitaru að það eigi að reyna að sanna eða afsanna það sem þú síðan berð fram í spurningu og þ.a.l tekur afstöðu með fáfræðinni, einhvað sem enginn ætti að gera, og í öðru lagi berð fram spurningu sem allir myndu segja nei við. Og að sjálfsögðu ætti það að vera þannig. Hvaða heilbrigð manneskja myndi leyfa 11 ára dóttur sinni að spila svona ofbeldisfullan leik? Hann er nú bannaður fólki undir 18 ára aldri að ástæðu.

  Það sem kemur mér þó mest á óvart við þessari grein þinni og svörunum sem henni fylgja er hæfileiki fólks til að tengja tölvuleiki við raunveruleikann án neinnar umhugsunar. Þ.e.a.s að þeir sem spili tölvuleiki séu “tilkomandi ofbeldismenn og mögulega geðsjúklingar”. Besta dæmið um slíkt er í svari Önnu Jónu: “Það er auðvitað vatn á myllu allra vopnaframleiðenda í heiminum og allra herskárra manna að gera venjulegt fólk háð ofbeldi”.

  Hvernær hafa tölvuleikir gert venjulegt fólk háð ofbeldi? Og hvernær hefur það verið staðfest að þeir sem spili tölvuleiki fari beint og kaupi sér skotvopn?
  Og merkilegt fyrst að umræðan er um ofbeldi að enginn minnist á kvikmyndir þar sem “hetjurnar” drepa tugi eða hundruði manna til að bjarga fallegu konunni úr klóm hryðjuverkamanna/spillingarafla/óvini þeirra. Mig minnir nú að ein af þeim hetjum ræður nú yfir Kaliforníu-ríki.

  Ástæðan fyrir þessum ábendingum mínum er einföld. Ég hef mjög mikið á móti fáfræði einstaklinga, sérstaklega fáfræði foreldra þar sem þau eru nú jú að ala upp börnin sín og þ.a.l að hafa áhrif á hugsun og persónuleika þeirra einstaklinga til frambúðar. Og svo að sjá hér tugi manns tala um tölvuleiki og ofbeldi án neinnar þekkingar á umræðuefninu (efa stórkostlega að margir hér hafi á sínu lífsskeiði spilað tölvuleiki) og án neinnar sannana eða einskonar rök fyrir utan hræðsluáróður er sorglegt.
  Því að ef það sem fólk segir sé satt þá væru tilkomnar 2-3 kynslóðir af geðsjúkum morðingjum og nauðgurum þar sem tölvuleikir voru nú fyrst gefnir út fyrir um 30 árum síðan. En svo er ekki.

  Og er það af frekar einföldum ástæðum, mikill meirihluti einstaklinga sem hafa og/eða spila tölvuleiki sjá nefnilega muninn á raunveruleikanum og tölvuleikjum þó svo að foreldar þessa einstaklinga virðast ekki gera það. Og ég segi mikill meirihluti því þeir einstaklingar sem líta á tölvuleiki sem raunveruleikann eru augljóslega andlega óheilbrigð fyrir og ekki hægt að kenna einhverju einu fyrir um það.

  Og hvað varðar ónæmi (e.Desensitization) þá er það með öllu ósannað. Það eru einungis áhyggjur einstakra vísindamanna aðallega í Bandaríkjunum þar sem meirihluti þessara umræðu fer fram. Einnig þegar talað er um ónæmi þá er það mjög svo gölluð rök. Að halda því fram að tölvuleikir (og/eða hvaða afþreyingjarefni sem er) hafi áhrif á persónuleikann og vilja einstaklingsins án neinnar raunverulegrar reynslu er fáranlegt. Það er mjög mikill munur að keyra á í tölvuleik og svo lenda í alvöru bílslysi í raunveruleikanum. Enda tugir (ef ekki hundruðir) hluta sem aldrei er hægt að herma eftir í tölvuleikjum, einsog raunverulegri hættu, áfalli o.s.frv. Jafnframt er ekki hægt að endurskapa “reynslu” í formi tölvuleikja og getur hver og einn sem hugsar rökrétt sagt þér það.

  Hinsvegar það sem foreldrar ættu að leiða huga sinn að er tíminn sem börnin fá í tölvuna og því er ég sammála. Það vill enginn að börnin sín ánetjist tölvum né tölvuleikjum. Og að sjálfsögðu á að fylgjast með því sem börnin sín eru að gera í tölvunni bæði hvað varðar klám og ofbeldi. En að kenna einhverjum öðru um en sjálfum sér um sína eigin fáfræði (og hefur grein þín og viðbrögðin við henni einmitt sannað það að margir foreldrar eru stórkostlega fáfróðir um það sem börnin þeirra eru að gera í tölvum) er bæði kjánalegt og sorglegt.

  Samt sem áður er ég ánægður með þessa grein enda er öll umræðan góð. Og svona í lokin þá vill ég minna fólk á að tölvuleikir í sjálfu sér er ekkert nema venjuleg þróun á því að segja sögur. Sama ástæðan og þegar kvikmyndir urðu til. Sumar af bestu og skemmtilegustu sögum sem ég hef upplifað hafa verið í gegnum tölvuleiki og ekki er ég að myrða mann og annan.

  Bestu kveðjur,
  Jón Rafn

 39. Ég ætlaði að fara að rífa mig, en ég held þú hafir sagt allt sem þarf að segja.

  Ég persónulega hef spilað alla þessa leiki, og nýverið God of War 3, sem er einhver grófasti leikur sem ég hef spilað og ég hef ekki hugsað mér að fá mér lendarskýlu, taka mér sverð í hönd og fara að höggva mann og annan.

  Ekki þekki ég einn einasta mann sem hefur gert neitt líkt því, spilað svona leiki og viljað fara að slást eða eitthvað. Flestir vinir mínir spila tölvuleiki, líka þessum sem Guðjón ákvað að velja sér til að sýna foreldrunum, en enginn af þeim hefur verið kenndur við ofbeldi að einhverju leiti.

  Hins vegar þekki ég stráka sem spila t.d. World of warcraft, Eve, og svoleiðis leiki og þeir þurfa virkileg að fara að skoða sín mál því þeir eyða öllum sínum frítíma í þá og eru gjörsamlega háðir þeim. Leikirnir sjálfir eru ekki grófir eða ofbeldisfullir en ég vil meina að þeir séu skaðlegri en þessir í myndbandinu.

  Ég held að tölvuleikir séu ekki rót vandans og sé ekki ástæðu til að ráðast á þá, það bar hlýtur að vera eitthvað meira vera að ef krakkanum þínum finnst ekki tiltökumál að leysa vandann með ofbeldi, ekki tölvuleikir.

 40. Sæll Guðjón, og aðrir umræðuspekingar,
  Mér finnst helvíti hart að nota tölvuleiki til hræðslu og bíómyndir, ég hef spilað og horft á alla þá leiki og bíómyndir sem fara í 18+ PEGI og er eitthvað varið í, þar á meðal hef ég sé Cannibal Holocaust, bíómynd sem var bönnuð í flest öllum löndum um tíma,
  persónulega lýt ég á hlutina þannig að mér finnst betra að vita af börnunum heima í tölvunni en úti í bæ að gera einhvern fjandann af sér.
  Og svo er talað um raunvöruleikann, hversu allt sé orðið raunvörulegt, nei common hefuru séð uppvakning sem er til í alvöru ? þarf þá ekki að leggja þig inná hæli ?
  mér finnst ósanngjarnt að klína einhverjum hræðsluáróðri uppá tölvuleiki, það er fátt öruggara heldur en þeir, ekki er barnið að reykja á meðan, nota eiturlyf, eða að nota spjallsíður, það er að spila tölvuleiki sem auka hugsanlega hraða hugsunar og viðbragða og útsjónarsemi, tölvuleikir eru ekki bara blóð undir öllu því eru falin skilaboð, öllu heldur falin kennsla.

  Þetta er kannski svolítið út og suður hjá mér en svona eftir að hafa lesið commentin og greinina þá varð ég svolítið ruglaður í því hverju ég væri að svara
  Kv. Eggert

 41. Smá hugmynd. Segjum svo að ef 0.001% manna (1 af hverjum milljón) væru með geðveilu sem getur gert þá að fjöldamorðingja eða eitthvað þá veru. Þau myndi vera bara eins og venjulegt fólk, og myndu aldrei detta í hug að meiða nokkuð mann, allavegna þangað til þau kæmust ekki í tæru við eitthvað sem geta gefið þau hugmyndir sem yrðu að ranghugmyndir. Þá geta myndir eins og Natural Born Killers, Phsycho, Inglourious Basterds og aðrir drápsmyndir virkað sem kveikju. Bensín og önnur eldfim efni kveikja ekki í sjálfum sér, þau þurfa kveikju. Þannig með framleiðslu og framboð af drápsmyndum og drápsleikjum þá aukast líkurnar á að svona einstaklingar komast í tæri við efni sem koma þau afstað. Afhverju halda menn að gosframleiðendurnar Coca Cola og Pepsi séu að eyða miljarðar króna á hverju ári í auglýsingar sem vara kannski í 15 til 30 sekundur ef það hefur ekki áhríf. Svo geta svona leikir og myndir aukið á mannfyrirlitningu og minnkar samkennd meðal fólks.

  Við þurfum að passa upp á hvað við innbyrgðum, það er ekki bara að passa upp á mataræðið heldur sálarlífið. Afi minn vildi aldrei horfa á myndir þar sem fólk var skotið eða misþyrmt, hann sagði að þetta setti svarta bletti á sálini.

  Kveðja, Ragnar

 42. Góð grein. Sem betur fer eru ekki til mörg dæmi um að tölvuleikir skerði siðferðisvitund barna og fái þau til að gera eitthvað mjög rangt eða ofbeldisfullt en það sem mér finnst hættulegra í sambandi við tölvuleiki er sú staðreynd að þeir eru ávanabindandi. Í sumum tilfellum sjúklega ávanabindandi og þekkjast margfalt fleiri dæmi um slík tilvik þar sem einstaklingar einangrast frá samfélaginu, fjölskyldu, skóla og vinum útaf tölvuleikjafíkn. Finnst þessa umræðu aðeins vanta hér en tölvuleikjafíkn er mjög alvarlegt mál.

 43. Flott framtak, algerlega umræða sem þarf að opna, mjög góðir punktar í þessu og það sem allir eru að segja. Mig langar samt sem áður að fara yfir þetta aðeins og segja mína skoðun.

  Tölvuleikir eru jafn fjölbreyttir og bíómyndir, gerðir fyrir börn, unglinga og fullorðna. Það þarf bara að opna umræðuna meira og fara að brýna fyrir fólki, sérstaklega af eldri kynslóðum að tölvuleikur er ekki bara ‘tölvu-leikur’ af því að hann er fyrir börn og er ‘leikur’, meiri hluti tölvuleikja í dag eru hannaðir fyrir fólk 16 ára og eldri.
  Þetta er ósköp einfalt, fullorðið fólk á bara að hafa stjórn á því eftir bestu getu hvaða leiki börnin þeirra eru að spila og hvaða myndir þau eru að horfa á. Ég er samála því að dómgreind barna ber að vernda og ég held að flest allir foreldrar geri það og séu gott og ábyrgt fólk sem sinni því bara ágætlega, að minnsta kosti á Íslandi.

  Ég held líka að það séu bara einstök tilfelli þar sem eru heimili þar sem ‘allt má’ og það er bara sólarhringsspilun í gangi hjá krökkunum, þannig foreldri þarf klárlega bara að endurskoða sig sjálft. Svo eru líka skýrar reglur í verslunum sem selja tölvuleiki að fara eftir merkingunum á hulstrunum, alveg eins og á DVD diskum í myndbandaleigum, Það eru til lög um þetta til þess að vernda ákveðna aldurshópa og það er allstaðar tekið skýrt fram hvaða leikir eru bannaðir og hverjir ekki. Grand theft auto er til dæmis stranglega bannaður innan 18 ára og eiga krakkar ekkert erindi að vera að spila þann leik.

  Svo er þetta líka bara misjafnt eftir krökkum og hvernig foreldrar þekkja börnin sín og hvernig þau treysta dómgreind þeirra. Það er t.d. mjög erfitt að banna unglingum sem eru 14-15 ára að horfa á myndir bannaðar innan 16 ára eða spila leiki bannaða innan 16. Þau hlægja bara upp í opið geðið á þér, horfa á og spila þetta annaðstaðar og ef þú ætlar að beyta afli til þess að koma í veg fyrir það fara þau bara í uppreisn, vilja foreldrar það? Fólk verður líka bara að meta þetta sjálft eftir því hvað þau telja að sé gott fyrir barnið sitt og hvað ekki í staðinn fyrir að alhæfa einhverjar uppeldisaðferðir fyrir alla. Ég er til dæmis nokkuð viss um að 4-6 ára barn sé líklegra til þess að herma eftir “grant theft auto” heldur en 12-13 ára krakkar.

  Hef ekki mikla trú á því að 13 ára krakki reddi sér byssu og fara að skjóta fólk úti á götu bara að því að hann sá það í tölvuleik eða eftir langvarandi spilun, ef sá myndi gera það væri hann bara virkilega truflaður fyrir og bara tímaspursmál hvað annað hefði triggerað slíka hegðun, ef það hefði ekki verið tölvuleikur hefði það bara verið eitthvað annað sem hefði ollið því, aðrir þættir eins og raunverulegt ofbeldi eða einelti kannski? Ég þekki heilan helling af eintaklingum sem hafa spilað ofbeldis og byssuleiki alla ævi, horft á grimmustu hrollvekjur osfrv. og margir af þeim eru elskulegustu einstaklingar sem ég hef þekkt og myndu ekki gera neinum flugumein, þetta er einfaldlega bara áhugamál, ákveðið kúltúr hjá ákveðnum tölvuleikjahópum sem aðrir hópar t.d. ekki skilja, rétt eins og þeir sem eru gagnkyneigðir eiga erfitt með að skilja kúltúr samkyneigðra stundum og einmitt…vilja banna alskonar atferli sem tengist því.

  Ég vona svo sannarlega að þessi umræða fari ekki út í svona foræðishyggju hugsjónir eins og að ‘banna bara alla tölvuleiki sem innihalda ofbeldi’ eins og fasistarnir í þýskalandi eru að reyna s.s. nútíma stjórnmálamennirnir. Það væri mjög erfitt þar sem ofbeldi er afstætt hugtak og þyrfti skilgreiningin á ofbeldi að vera mjög opin og flókin, t.d. í barnatölvuleiknum “Mario bros” þarftu að hoppa ofan á skjaldbökur til þess að verja þig…er það ekki ofbeldi? Auk þess myndi hellingur af listrænu og góðu fólki missa vinnuna og á endanum yrði svona bann endirinn á vísindaskáldskap eins og við þekkjum hann.

  Held líka að við þurfum að spyrja okkur dýpra spurninga um veröldina og hvað er í raun siðferðislegt og hvað ekki, t.d. er það meira siðferðislegra að svipta þúsundir húsdýra lífinu og borða þau í kvöldmat eða að hreyfa puttana aðeins og spila ofbeldisfullann tölvuleik, hvort af þessu eru raunverulegt ofbeldi?

  Verndum börnin okkar en verjum frelsi okkar á sama tíma!

  Kveðja og kærleikur á alla

 44. Takk fyrir að koma þessari umræðu í farveg Guðjón. Hún hefur eflaust verið til staðar í litlum hópum fram að þessu en ekki komist neitt lengra.
  Á mínu heimili voru alltaf skýrar reglur hvað varðar tölvunotkun og leiki og var þetta ekkert vandamál því börnin voru bara sinn tíma í tölvunni og ekkert meira en það. Svo urðu börnin að unglingum og þá breyttist allt. Ég hef ekki staðið mig hvað varðar aldurstakmörk eða að fylgjast með hvernig leiki börnin eru að spila. Varðandi tíma setti ég Parent Control á en er samt ekki alveg sátt við þetta fyrirkomulag.
  Ég hef haft áhyggjur af því að strákurinn minn standi ekki nægjanlega vel félagslega, hangir bara heima en er ekki að hitta aðra krakka. Mér hefur þó verið bent á það af kennara hans að það séu óþarfa áhyggjur. Eins hef ég rætt þetta við aðra foreldra sem hafa sömu sögu að segja, börnin hanga heima og virðast helst hafa samskipti við önnur börn gegnum tölvuna. Þar geta þau verið að tala við marga í einu á msn og verið í hópleikjum. Minn sonur hefur einmitt verið að spila við vini sína drápsleiki þar sem þeir tala saman meðan á leiknum stendur þannig að heilmikil samskipti og samhæfing er í gangi. Ég var með mínum vinum og vinkonum í leikjum þegar ég var krakki þar sem við drápum hvert annað hægri vinstri og fengum svo lifnipillur og gátum haldið áfram – hefur nú held ég ekkert brenglað hugmyndir mínar varðandi lífið og dauðann þó mér finnist drápsleikirnir í tölvunni ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það sem ég er að velta fyrir mér er að ef ég leyfi honum ekki að vera með í þessum tölvuhópleikjum er það þá svipað því að mamma hefði ekki leyft mér að fara út meðan krakkarnir voru í leikjum? En tímamörk eru vissulega nauðsynleg.
  Eitt sem hér áður var vandamál hjá foreldrum var útivistartími. Margir foreldrar leyfðu börnum sínum að vera úti fram eftir öllu því þeir vildu ekki vera að slíta börnin frá vinum sínum. Heyrði foreldra segja að það væri ómögulegt að láta barnið koma inn þegar allir hinir fengju að vera úti því barnið yrði bara útundan þegar frá liði. Síðan komu útivistarreglur og þar sem ég bjó fóru foreldrar eftir þessu og þetta var því einfalt. Það nennir hvort sem er enginn að hanga einn úti. Held að útivistartími sé lítið eða ekkert vandamál í dag þar sem börnin nenna hvort sem er ekkert að vera úti. Nú erum við búin að koma börnunum inn á skikkanlegum tíma og komið að því að koma þeim út.
  Hvernig væri að koma á svipuðu fyrirkomulagi og með útivistarreglurnar? Ég er þá að hugsa um viðmiðunarreglur fyrir foreldra en ekki landslög. TÖLVULAUSIR KLUKKUTÍMAR! Þá væri hægt að nota Parent Control sem lokar í þessa klukkutíma. Sjá hvort ekki færu með tímanum að sjást börn og unglingar utandyra – getum svo bara notað á þau útivstarreglurnar til að ná þeim inn ef þeim fer að finnast þetta gaman :o). Það er samt alveg ljóst að árangur með þess háttar næst ekki nema foreldrar standi saman og fari eftir þessu.

  Varðandi aldurstakmörk á leikjum þá fór ég í vetur með syni mínum í BT til að kaupa tölvuleik. Hann er 15 ára og flinkur í tölvum, snöggur og útsjónarsamur. Hann langaði í leik sem var merktur fyrir 18 ára og eldri. Ég var ekki alveg til en strákinn langaði verulega í leikinn og reyndi að telja mér trú um að hann væri ekkert ljótur. Starfsmaður BT kom honum til hjálpar og sagði að þetta væri bara merkt fyrir 18 ára út af erfiðleikastigi en ekki að hann væri ljótur. Mamman féll fyrir þessu þó að hún hafi fengið móral og var ekki ánægð með þetta og ALLS ekki ánægð með starfsmanninn. En auðvitað var það mitt að segja nei.

 45. Ég ólst upp við að spila Grand Theft Auto leikina og fleiri ofbeldis fulla leiki eins og Doom, Quake ofl. Spilaði þessa leiki nánast óstöðvandi frá 10 ára aldri. Núna held ég þessari spilun áfram og vissulega lýta leikir mun betur út nú en í gamla daga en tilgangurinn var sá sami, drepa. Ég persónulega finn ekki til neina löngun til að drepa eða stela bílum svo ég sé ekki vandan ? Foreldar eiga bara að ala krakkann sinn upp rétt og hætta þessu væli.

 46. Jesús, Fólk að drepast yfir því að börn séu að spila þessa tölvuleiki? ég meina það… Það er eitthvað að, Ég geri ekki ráð fyrir að börnin ykkar séu alveg krossþroskaheft til að gera sér grein fyrir því að þetta er leikur? Það gerist ekki nema svona 1 sinni á ári eða eitthvað sem að eitthver hálfviti fer út og vill herma eftir, og jú viti menn það gerist í ameríku, Íslendingar hafa aðeins meira vit, ég hef spilað svona leiki í 4 ár og ég held að þeir hafi ekki gert meira en hjálpað mér, Ég gæti ekki ýmindað mér að gera manni þetta sem hægt er í leikjum í alvörunni, og plús, ég kann ensku betur en hver annar sem spilar ekki online leiki.

 47. Ég er mikill áhugamaður um tölvuleiki og alla afþreyingu almennt. En þessi umræða er gömul og mér finnst ótrúlegt að siðferðislegur tölvukennari á Akureyri skuli endurvekja hana, hún náði t.d. hámarki fyrir nokkrum árum þegar GTA III hafði komið út og kvennréttindakonur þóttu erfitt að sjá uppá það að “spilarinn” gæti keypt sér vændiskonu og síðan drepið hana og tekið peninginn til baka. Þá voru sett ströng skilyrði á búðir að selja ekki þessa leiki og því fékk ég mér bara bróður minn til að kaupa næsta GTA (vice city) fyrir mig. Börn munu ávallt komast í ólöglegt efni, rétt eins og unglingar komast í bjór.
  Foreldrar munu ekki geta stöðvað það… sá sem neitar því er í afneitun.

  En ég sé ekki hvernig þið munið leysa einhvern vanda með því takmarka tíma í tölvu og fylgjast með börnunum ykkar eins og stóri bróðir þegar það reynir að nýta sér einkatíma sinn og einkalíf. Um leið og þið gerið það þá fáiði barnið á móti ykkur sérstaklega á þessum gelgjualdri sem þið flest eruð að tala um.
  Með því að sýna börnunum ykkar að þeim sé ekki treystandi og ef þau spila ofbeldistölvuleiki þá séu þau “slæm” þá eruði að búa til vandamál og hrinda börnunum ykkar frá ykkur. Einnig geriði tölvuleikinn að ákveðnum helgigrip sem meira spennandi verður að spila. Lausnin ætti að vera spjall við börnin þar sem þið ræðið við þau á jöfnun grundvelli án þess að foreldrarnir æsi sig og láti börnin halda að þau séu slæm.

  Þar kem ég að einu að í greininni er sagt frá barni greinarhöfundar og vini er það heimsótti (12 ára strákur). Bent er á í myndbandinu að sama barn, það er nafngreint sem 12 ára barnið sé að spila ofbeldisfulla tölvuleiki. Mig grunar að ef viðkomandi 12 ára barn kemst í þennan þráð (líklegt að það frétti af þessu þar sem Akureyri er lítill bær) og sjái að svo augljóstlega sé verið að fjalla um sig þá muni það fá brotna sjáfsmynd þar sem öll umræðan hér snýst um að það barni hafi gert eitthvað slæmt. Það að greinarhöfundur sem er kennari skuli nýta sér þetta barn í grein sinni finnst mér ógeðslegt! og jafnvel ógeðslegra er að foreldrar skuli ekki benda á þetta og gagnrýna á sama tíma og þið talið um andlega heilsu barnanna ykkar!

  Svo er öll umræðan um að tölvuleikir gefi af sér ofbeldismenn algjört rugl! Ofbeldismenn margir þá sérstaklega í BNA voru hvað verstir áður en tölvuleikir komu til sögunnar. Fjöldamorðingjar og aðrir slíkir hafa lítið spilað tölvuleiki enda eru slíkir glæpir oft kynferðislegs eðlis eins og mestir hrottaglæpir samtímans, þar nefni ég t.d. nauðganir. Morð eru oftast framin í heimi sem tengist ekki tölvuleikjum eða afþreyingu. Fátækt og eiturlyf spila þar frekar inní.

  Plató sagði einu sinni að unglingar nú til dags væru letihaugar sem aldrei gerðu neitt gagn og rifust við kennara og foreldri… slíkt hefur ekki breyst.
  Fullorðnir hafa klárlega gleymt því að á þeirra tímum var Tommi og Jenni vinsælir en það barnaefni er það allra ógeðslegasta og ofbeldisfullasta efni sem ég hef séð. Og það er spilað í sjónvörpum og er ekki bannað börnum og oft spilað um dagtímann.

  Þó tilgangurinn með greininni sé góður þá er hann alltof harðorður og einlýtur því hann snýr að miðli sem er bannaður innan barna, sem foreldrar geta betur stjórnað en mörgu öðru og mest undrandi er að umræðan snýst um að börnin og tölvuleikirnir eru vandamálið þegar augljóslega eru foreldrarnir vandamálið… börnin fara ekki út? Fariði þá út með þeim, íslendingar eru að verða feitasta þjóð í heimi sem þýðir að mörg ykkar foreldranna eru feit líka! Hreyfið ykkur þá með börnunum. Barnið lærir ekki? Kenniði þeim þá og hjálpiði til við vandamál barnanna ykkar. Barnið spilar ofbeldisfulla tölvuleiki? Það eru fullt af góðum fjölskylduleikjum á markaðnum, leikiði ykkur með börnunum eða sýnið þeim einhvern áhuga þegar barnið spilar góða leiki, eins og bílaleiki og íþróttaleiki sem dæmi. Þá hvetjiði þá hegðun að spila slíka leiki.

  Ef ykkur finnst þetta vera of mikið til að gera þá spyr ég hvað í fjandanum voruði þá að hugsa þegar þið eignuðust börn ef þið ætluðuð ekki að vera félagar þeirra í lífinu. “Stóri bróðir” er aldrei félagi barnsins.

  Hér tala ég af reynslu því ég lenti í “stóra bróður” uppbeldinu að einhverjum hluta (mjög litlum í samanburði við marga) og það var niðurlægjandi og sálarskemmandi reynsla fyrir mig sem ungling.

  Takk fyrir

 48. Myndbandið þarna í endan er bara leikið og það er staðreynd og vita flestir það sem horfa á þetta myndband vandlega. World of warcraft er jú ávanabindandi leikur eins og flestir aðrir net leikir og spila 14millionir. Með að sum börn hafa endað illa með að fara fram af byggingu eða eitthvað og halda að það gæti flogið bara utaf world of warcraft er bull, það er alltaf 1 skemmt epli af x fjolda og af þessum 14millionum sem spila bara þennan tölvu leik eru að sjálfsögu nokkrir sem eru ekki heilir að geði svo að kenna bara tölvuleiknum um þetta er ekkert annað en heimska.

 49. Þetta er nauðsynleg ábending hjá þér. Ég sjálfur vinn við forritun og rekst á ótrúlegustu hluti tengt mínu starfi. Að mínu að hefur gleymst að kenna foreldrum að fylgjast með Internetinu. Í sumum tilfellum eru það börnin á heimilinu sem eru að kenna foreldrum sínum á Internetið og þar hefur eftirlitshlutverkið snúist við. Barnið stjórnar ferðinni.

 50. Þetta er skemmtileg umræða. Ég vill samt sem áður endilega svara henni Valgerði Bjarnadóttur sem skrifaði hér fyrir ofan, og í raun flestum sem alhæfa það að börnin ykkar verði ónæm fyrir ofbeldi og almennu siðferði.

  Ég sjálfur er á sautjánda ári og er að klára mitt fyrsta ár í Menntaskólanum á Akureyri. Ég hef spilað tölvuleiki frá unga aldri, enda á ég bróður sem leyfði mér að spila hina ýmsu leiki. Leikurinn sem ég spilaði mest á mínum yngri árum(gefum okkur að það sé þriðji bekkur í grunnskóla) var ábyggilega Counter Strike 1.6. Þessi leikur er bannaður börnum yngri en sextán ára, en samt sem áður var ég að spila þennan leik ríflega 7 árum undir settum aldurstakmörkum. Svona leiki hef ég spilað öll þessi ár og nú síðast fangaði leikurinn Left 4 Dead huga minn. Þessi leikur er hrottalegur og viðbjóðslegur á allann hátt, enda er hann bannaður aðilum yngri átján ára.

  En nú spyr ég mig eftir öll þessi ár af leikjaspilun af þessu tagi. Hef ég orðið fyrir miklum skaða(s.s. orðið ónæmur fyrir ofbeldi og siðferði) af allri þessari leikjaspilun? Ég tel svarið vera án mikilla vangaveltna vera nei. Ég tel mig vera mjög kurteisa og umburðarlynda manneskju og ég hef aldrei á ævi minni lent í slagsmálum af neinu tagi(enda forðast ég þau af mikilli kappsemi).

  Nú er það komið svo fyrir að þið foreldrar sjáið ekkert nema það allra versta af því allra versta sem gengur og gerist. Í gegnum öll þessi ár sem ég hef spilað þessa hryllilegu leiki hef ég einnig spilað leiki með allt öðruvísi blæ. Sem dæmi má nefna tölvuleikinn Sims sem all flestir ættu að kannast við, og aðra leiki svo sem Spore, SimCity, bílaleikir af ýmsu tagi og fótboltaleiki svo eitthvað sé nefnt.

  Ég tel tölvuleikina ekki vera þessi hryllilegu tól sem hvetja til ofbeldis með einum eða öðrum hætti. Það hlýtur að vera önnur skýring á því að börn séu veruleikafirrt og annað. Uppeldi barnanna tel ég að skipti mestu máli í að halda þeim heilbrigðum.

  Sem dæmi um leiðinlega hegðun barna ætla ég að nefna það að í gærkvöldi ætluðum við félagarnir út í fótbola. Við keyrðum um allan bæinn í leit að litlum sparkvelli(fótboltavellir). Flestir voru í fullri notkun en þegar við komum að sparkvellinum í Naustahverfi sáum við krakka(10 ára krakkar) að leik í leiktækjunum hjá vellinum, en engin þeirra var á vellinum í fótbolta. Við fórum að vellinum og þá fauk í litlu krökkunum. Við sættum okkur þá við hálfann völlinn gegn hálfum velli vegna þess að reglur vallarins kváðu svo að völlurinn væri eign allra. Þessir krakkar byrjuðu síðan að reyna að sparka okkar bolta af vellinum og lemja í okkur. Við náttúrulega brugðumst við með orðum en gerðum ekki neitt við krakkana. En nú hugsa ég að ég hafi ekki verið svona þegar ég var ungur, þá lömdu unglingarnir okkur krakkana. Það er breytt. En nú spyr ég enn og aftur, haldiði virkilega að þetta sé tölvuleikjunum að kenna frekar en uppeldinu?

  Takk fyrir mig.

 51. Áhugaverð umræða hér í gangi. Guðjón er frábær maður og góður kennari, ég er þar til ný útskrifaður frá MA og ligg nú yfir háskólabókunum. Þetta er góð umræða, þörf jafnvel. Það er samt merkilegt hvað hér tala ólíkir pólar. Við sjáum annarsvegar einn hóp, sem virðist nokkuð sammála um það að þetta sé ekki allt svona slæmt, það verði einfaldlega að fara í þetta með skynsemi, eins og allt annað sem börnum er leift að fara í. Þessi hópur er hópur fullorðinna einstaklinga sem að raunverulega hefur eitthvað vit á þessu, þetta er fólk sem flest allt virðist hafa spilað leikina, átt vini sem spila þá og er núna orðið fullvaxta einstaklingar sem ekki hafa komist í kast við lögin og plumma sig fínt. Hinn hópurinn sem hér hoppar um hrópandi SAAAAAAATAN SAAAAAAAATAN, það virðist vera hópur sem ekki hefur spilað leikina, ekki hefur fengið eitthvað “þol” gegn þeim og sér svo einhverja klippu og eiga erfitt með að hemja móðureðlið, því í flestum tilvikum eru þetta konur, og því miður eru að tala um eitthvað sem þær þekkja ekki, þú getur lesið einhliða greinar en fyrr en þú prufar/sérð hlutinn sjálfur, þá veistu ekkert um hann. Flestir í þeim hópi sem vilja sýna skynsemi og takmarka aðgang barnanna að leikjum en þó ekki ganga alltof langt, það eru karlar sem eins og ég sagði áðan, hafa spilað leikina og eru nú orðnir fullþroska einstaklingar og plumma sig vel í samfélaginu

  Það er í móðureðlinu að hafa áhyggjur, þegar svona myndbrot úr leikjum sjást, þá er eðlilegt að hafa áhyggjur, báðir hópar (þrátt fyrir það sem ég sagði að ofan) hafa eitthvað til síns máls. En ég vil benda á, gegn þessum myndbrotum þá hafa leikirnir KENNSLU, ÞEKKINGAR og FÉLAGSLEGT gildi.

  Í dag tala ég reiprennandi ensku, ég labbaði í gegnum enskuáfanga í MA og náði þeim merka áfanga að ná 9.5 (hæsta einkunn í árgangnum þá) á munnlegu prófi í ensku í bókinni “Dust” en ég hafði ekki lesið bókina, ég vissi eitthvað hvað hún fjallaði um en það sem ég vissi gat ég komið útúr mér á fullkominni ensku, líkt og ég væri sjálfur breskur. Ég skrifa enskan texta jafn vel (eiginlega betur) en íslenskan því eins og flestir geta séð, það er hellingur af villum í textanum mínum hér. En eins og ég var að segja þá flaug ég í gegnum enskuáfanga í þeim skóla sem Guðjón kennir í og það með stúdentseinkunina 7. 7 er mjög lágt hugsa margir, en það er það ekki þegar þú sleppir 10-15% verkefnabók, gerir ekkert yfir árið (nema það allra nauðsinlegasta) mætir svo í prófið og færð gríðar háa einkun þar. Á sama tíma sátu sum bekkjarsystkin mín og höfðu áhyggjur af enskuáföngum, þeim þótti þetta erfitt, þau þurftu að hafa fyrir þessu. Hver var ástæðan fyrir því að mér vegnaði svona vel? Jú, ég talaði við breta á hverjum einasta degi í gegnum tölvuleiki, var kominn með “flawless” breskan hreim og þeir bretar sem vissu ekki hvaðan ég var héldu allir að ég væri frá bretlandi. Þannig bara sú staðreynd að ég talaði og notaði ensku í gegnum tölvuleiki varð þess valdandi að ég var langt á undan þeim samnemendum mínum sem ekki höfðu sama bakgrunn og ég.

  Síðan er það hitt, ég sagði ekki bara kennslu, heldur ÞEKKING og FÉLAGSLEGT gildi líka. Tölvuleikirnir, sérstaklega þessir tölvuleikir þar sem þú spilar með öðrum krökkum, oftast einhverjum sem þú ert með í skóla eða annað, þeir hafa þau áhrif að þú ert einn af hópnum. Krakkarnir standa oft vel félagslega, eiga alltaf vini og tölvuleikir geta þannig hjálpað krökkum sem annars hefðu kanski orðið útundan mikið að ná félagslegum tengslum. Því í tölvuleiknum eru allir jafnir, þú ert ekki dæmdur á því hvort þú átt nýjustu gallabuxurnar, heldur því hvort þú getur eitthvað í leiknum og hvort það er skemmtilegt að spila hann með þér.

  Tökum nú dæmi um hvaða áhrif það gæti haft að alltíeinu taki einhverjir foreldrar mjög harða og stranga ákvörðun um barn sem var ekkert sérstaklega félagslega sterkt en eignaðist vini í gegnum tölvuleiki. Segjum að þetta barn sé núna að spila 4 tíma að meðaltali á dag með vinum sínum. Nú taka þessir foreldrar þá ákvörðun að leifa einungis 1 klukkutíma á dag. Hverjar eru afleiðingarnar? Barnið hættir að geta spilað með sínum vinum, því t.d Call of duty: Modern warfare byggist á því að það eru 5 saman í liði, berjast fyrir hvorn annan og standa alltaf með hvor öðrum, ef 1 af þessum 5 getur bara spilað 1/4 af tímanum sem hinir spila, þá verður að fylla uppí skarðið, það er gert með því að fá nýjan spilara í liðið og fyrr en varir er barnið í þessu dæmi ekki lengur í liðinu, getur ekki farið út að leika með þeim því það þarf að bíða eftir að þeir séu búnir og lendir í félagslegri einangrun.

  Þetta er spurningin um skynsemi gott fólk, eftir 12 ára aldurinn ætti að leifa börnum að spila það sem vinirnir eru að spila, HALLÓ þetta er árið 2010, þetta eru nýjir tímar og hlutirnir hafa breyst, þetta er framtíðin. Framtíðin er í dag, hún er komin og þið verðið einfaldlega að venja ykkur við það. Í staðin fyrir að takmarka aðgang að tölvuleikjum þá mun ég frekar gera annað og miklu sniðugra. Ég mun einfaldlega vilja fá að vita hverjum er verið að spila með, hvernig barnið mitt þekkir þá sem það spilar með og hafa samband við foreldra þeirra barna. Vita hvað þau spila mikið og svo framvegis. Því málið er, ég spilaði og spila enn svona leiki (bara á allt öðrum basis en ég gerði, hef farið til útlanda á svokölluð lan mót, með flugfar og fleira borgað fyrir mig) og málið er bara að þetta er þroskandi, þú heldur sambandi við vini þína og fyrst og fremst ert ekki með einhverjum gangsters reykjandi, drekkandi eða dópandi niðrí bæ. Ég vil frekar að barnið mitt sé heima heldur en úti í rugli.

  Síðan er hitt, þegar það er að spila svona leiki eins og Counter Strike – Call of Duty: Modern warfare eða aðra slíka leiki. Ef barnið þitt er í liði með vinum sínum og skólafélögum, þá spilar það meðan að vinirnir/skólafélagarnir spila og svo fara allir út í bolta eða eitthvað. Sérstaklega á sumrin. Þetta er nauðsynlegt félagstól og mjög svo þroskandi og fræðandi. Tökum ekki á umræðunni með vanþekkingu, tökum á henni með opnum hug og vilja til þess að læra. Þetta er framtíðin og þið verðið bara að lifa við þetta, boð og bönn hafa aldrei virkað, þekking og að koma til móts er mun líklegra til árangurs.

 52. Og svona smá innskot því mér þótti mastersritgerðin mín hér að ofan ekki nægja. Önnur umræða sem ég sem karlmaður hef álíka mikið vit á eins og þeir sem tala hér gegn tölvuleikjum af miklum móð en vita ekkert um þá hafa. Mér finnst mun alvarlegra að stelpur séu að mála sig og þetta fegurðarkapphlaup. Það hefur muuuuuun meiri áhrif á stelpur en tölvuleikir hafa á stráka. Stelpur byrja að mála sig, kaupa dræsuleg föt og allt í þeim pakkanum mjög snemma. Afhverju er það? Ég sem hef aldrei málað mig, reyni að vera snyrtilega klæddur og snyrtilegur til fara en þó ekkert eitthvað “extreme” skil þetta ekki. Afhverju leifa mæður dætrum sínum að taka þátt í þessu en ekki strákunum sínum að spila tölvuleiki? Því kanski hafa þær bara meira vit á því fyrrnefnda, átta sig á því að þetta hjálpa “social” stöðu þeirra innan stelpnahópsins því GOD knows að þetta er ekki gert fyrir strákana nema að mjög litlum hluta. Ef foreldrar tækju sig saman í umræðuhóp eins og þið viljið gera um tölvuleikina, ákvæðuð að nú yrði þetta stoppað, ekki málað sig fyrr en eftir 8 bekk, sleppa því að versla í ákveðnum verslunum sem selja dræsuleg föt, myndi það ganga? Nei, því miður, held ekki :/ Ekki frekar en þessi áróður ykkar gegn tölvuleikjum.

  Samt sem áður, þið talið alltaf um “áhrif tölvuleikja” og svo framvegis, mér sýnist stelpur vera scared for life varðandi þetta útlitskapphlaup sem er strax sett á þær, sumar lagðar í hart einelti útaf því, það er eitthvað sem ég tel að ætti frekar að berjast gegn heldur en þessum tölvuleikjum. En það er vegna þess að ég veit ekkert um þetta, er bara einfaldur karlmaður sem átta mig á vanþekkingu minni. Kanski, bara kanski…er hægt að taka á báðu með smá skynsemi. Kynna sér málið áður en maður tjáir sig um það og reyna að átta sig á því hvað er verið að fást við. Þurfum við að sætta okkur við að dóttir mans líti út eins og einhver ódýr porthúsgella í rauðahverfinu í Amsterdam? Þarf ég að sætta mig við að sonur minn sé endalaust í tölvunni og vegna þess að þetta var ekki svona þegar ég var lítill þá sé ég að skíta á mig, hann sé ekki að hitta vini sína og tali endalaust inní tölvuna (við þá þessa sömu vini)…Sem minnir á…hvernig í andsk eiga þeir að hætta í tölvunni og hitta vini sína þegar vinir þeirra eru í tölvunni? Það er heldur ekki hægt að setja á fastan tíma á dag því stundum gera þeir eitthvað saman í tölvunni sem tekur meiri tíma.

  Æihh…þetta er bara vonlaust case, það verða alltaf over protective foreldrar sem berjast gegn hlut sem þau þekkja ekki og skilja ekki ávinninginn af. Síðan verða alltaf þeir sem tala gegn þeim en eru of “involved” í efnið sem er verið að rífast um til þess að þeir geti haft hlutlausa skoðun, svona er þetta bara og svona verður þetta alltaf :/

 53. Þetta er mikil umræða. Það er líka merkilegt að sjá hvernig margir þeirra sem ánetjast hafa tölvuleikjafíkninni reyna að benda á sér til málsbóta að þeir hafi ekki enn drepið mann, eins og það sé takmark í sjálfu sér. Þeir virðast ekki sjá vaxandi siðblindu, vaxandi virðingarleysi fyrir öllu því sem fellur undir aga, hlýðni, sjálfsagða kurteisi. Hér stendur allt á þeim merg að allt sem einhvern langar til að gera sé sjálfsagt og enginn megi hafa áhrif á það. Agi sé frelsissvipting. Reglur séu til þess eins að brjóta þær. (Þetta er reyndar partur af frjálshyggjunni sem setti okkur á annan endann svo ekki sér út úr því enn um langa hríð.) Þetta ágæta fólk tengir ekki saman staðreyndir eins og að hafa eytt meiri tíma í tölvuleiki en nám hafi leitt til lakari árangurs í skóla eða í störfum, svo eitthvað sé nefnt. Og mér finnst líka undarlegt hjá manninum sem þorir ekki að koma fram undir nafni en kallar sig Davíð Oddsson að láta í það skína að í tölvuleikjum læri fólk betri ensku en í skólum.

  Ég er bara kennari og spila ekki tölvuleiki, en ég hef þurft að horfa upp á þá hryggilegu staðreynd að góðir námsmenn hafa hrapað í árangri í skóla og í stað þess að vera með vonarglampa í augum orðið sljóir til augnanna og lifað af meirihluta skóladagsins í ótta við að vera að tapa leik sem er í gangi. Ég hef horft að svona ágætis námsmenn renna á rassinn og hrökklast út úr skóla vegna þess að þeir hafa misst sjónar á því sem áður veitti þeim gleði og metnað en sokkið á kafi í leikjaheim. Hvernig sem á það er litið og hversu erfitt sem lífið kann að vera held ég að sé æskilegra að lifa lífinu og taka þátt í því en að lokast inni í gerviveröld leikjaheimsins. Slitna úr sambandi við lífið og sjálfan sig. Þess vegna er hryggilegt að sjá fullorðna menn – karlmenn oftast – hrúga í kringum sig afsökunum og kalla allt kerlingabækur sem bendir þeim á mistökin sem þeir hafa flækst í.

 54. Sverrir Páll, ó þú yfirburðar meistari.

  Ég læt ekki skína í það að tölvuleikir kenni mér ensku betur en skóli, nema að hluta til. Framburður er eitthvað sem ég hef lært 100x betur í tölvuleikjum heldur en í skóla. “orðaforðinn” minn er margfallt meiri eftir tölvuleikjanotkunina heldur en eftir 100 orða lista sem maður hefur heila önn í að gera. Þannig já, að mörgu leiti kenna sumir tölvuleikir (ekki allir) mun betri og meiri ensku en skóli gerir.

  Þú talar um þetta eins og þetta séu fíkniefni. Fólk dettur útúr lífinu og er nánast bara dáið ef það spilar tölvuleiki. Þetta eru nýir tímar Sverrir Páll. Þú segist hafa séð námsmenn hrapa, hefur þú ekki séð námsmenn hrapa af ýmsum orsökum? Hefur þú ekki líka séð námsmenn fara vel úr skóla sem spiluðu tölvuleiki? Eða hefur þú bara kanski ekki tekið eftir þeim ágætu námsmönnum sem tókst að tvinna nám og tölvuleiki saman, líklega ekki því þú sérð þá ekki? Einnig nefniru þetta sérstaklega, afhverju nefniru ekki sund? handbolta? fótbolta? skák? botchia? Þeir sem stunda eitthvað af krafti hafa eflaust líka einhverntíman fallið í skóla útaf því, þetta er sport og því er enska orðið yfir keppnisleiki, það er er notað mest “esports” eða e-íþróttir.

  Þannig þegar þú sérð aðeins þá sem falla og fara illa útúr þessu, þá útskýrir það afstöðu þína mjög vel. Við erum hvorugir dómbærir almennilega á þetta. Ég hef lifað í þessu og mér gengur vel í lífinu því ég tvinna þetta einfaldlega saman, þetta gengur ekki framar því að hitta vini mína og stunda aðra hluti. Ég lít á þetta sem “sport” eins og hvað annað, því ég keppi í þessu eins og hverjir aðrir. Þú afturámóti hefur ekki prufað þetta, hefur öfugt við mig engan raunverulegan innri skilning á þessu. Afturámóti hefur þú það fram yfir mig að vera ekki jafn tengdur efninu, getur horft á það meira að utan sem ég get ekki, ég er alltaf partur af viðfangsefninu og get því ekki horft á það hlutlausum augum

 55. Það var ekki ætlun mín að flækja mig í vangaveltum um þessi mál, mér þóttu fullyrðingar svokallaðs Davíðs Oddssonar hins vegar makalausar. Og ef hann er hér að opinbera heilagan sannleika um það sem hann hefur sett hér fram, hvers vegna í ósköpunum þarf hann þá að gera það undir dulnefni? Eða er kannski jafnlítið að marka skoðanirnar og nafnið? Eru það kannski áhrif af því að hafa lifað í gerviheimi leikjanna að geta ekki verið maður sjálfur?

 56. Þó svo að umræðan hér sé að mörgu leyti áhugaverð þá eru engu að síður alltof margir á rosalega lágu plani – Davíð Oddsson og Sverrir Páll meðtaldir (þó af mismunandi ástæðum).

  Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru aldurstakmörk á tölvuleikjum og það er foreldranna verk að gæta að þau komist ekki í þá, alveg eins og það eru aldurstakmörk fyrir kvikmyndir í bíó og að foreldrar eigi að vera meðvitaðir um slíkt.

  Ef börn ykkar eru að fara til vina sinna til þess að spila tölvuleiki sem ætlaðir eru fullorðnum þá er það ekki tölvuleikjunum að kenna, heldur foreldrum vina þeirra. Ef ykkur líkar illa við þá tilhugsun að börnin komist í ofbeldisfulla tölvuleiki í vinahúsum getið þið alveg eins búist við að þau komist einnig í ofbeldisfullar kvikmyndir á sömu stöðum. Setjist niður með foreldrum vina þeirra, ræðið málin, skiptist á skoðunum, og ef illa fer og fólki líst ekki á blikuna, slítið á sambandið.

  Mér finnst virkilega vanhugsað að segja að tölvuleikir séu skaðlegir öllum og að þeir geri námsmenn að aumingjum – og fullyrða svo að þið hafið ekki spilað leiki. Eflaust eru einu kynni ykar við tölvuleiki það sem þið sjáið í myndbandinu hér að ofan, sem er að sjálfsögðu sjokkerandi, en þið verðið einnig að hugsa um að það er til urmull af mismunandi tölvuleikjum og að ekki ganga allir leikir út á að drepa mann og annan á eins ofbeldisfullan hátt og mögulegt er. Ég ætla jafnvel ekki að neita því að tölvuleikir geti haft jákvæð áhrif á fólk; þeir geta bætt tungumálakunnáttu, rökhugsun, viðbragðsflýti og samhæfingu augna og handa og svo mætti lengi telja. Jafnframt geta “ávanabindandi netleikir” gefið fólki mikilvæga reynslu sem myndu gagnast þeim í eins ólíklegum hlutum og stýringu fjölþjóðlegra fyrirtækja, þar sem þeir krefjast þess að ekki bara umgangast fólk frá mismunandi menningarheimum, heldur einnig til þess að vinna vel saman sem heild. Svo í guðanna bænum, ekki halda að tölvuleikir geri námsmenn að letingjum því það á eingöngu við um lítinn hluta þeirra.

  Tölvuleikir eru afþreying framtíðarinnar, bæði meðal barna sem og fullorðinna, og það er því hlutverk foreldra að skilja náttúru þeirra í staðinn fyrir að taka fordómafullu stöðu gegn þeim.

 57. ég segi bara að fólk uppsker eins og það sáir og minni á að um 84 % af því sem við tökum inn á okkur er í gegnum augun og helst þar í minningarbankanum mun lengur en það sem fer inn í gegnum eyrun. Ofbeldi er stór hluti af afþreyingarefni fólks, barna og unglinga í dag og ofbeldisverk eru alltof algeng í heiminum og fara vaxandi hér á landi. Samt er eins og enginn vilji á nokkurn hátt tengja þetta við sjónvarpsefni, myndir og tölvuleiki…… Svona ofbeldisfullt efni elur á reiði og hún er smitandi og leitar færis á að fá útrás. Myndir sem eru leyfðar öllum aldurhópum eru uppfull af nekt, fordómum og OFBELDI sem alveg skilar sér til barnanna okkar og börnin greina ekki mun á alvöru og leik eða plati fyrr en þau er hætt að trúa á jólasveininn eða eitthvað seinna en þar til þeim aldri eða þroska er náð þá er ótta og reiði og allskyns viðbjóði smiglað í barnaefnið og leyfðu myndirnar……Ég vil bara þakka fyrir þessa grein og hvet alla til að skoða sitt eigið fjölskyldulíf og horfa lengra, setja markmið og vera vakandi því áhrifin af ofbeldisfullum tölvuleikjum og myndum koma sjaldnast í ljós fyrr en löngu seinna en þó eru undantekningar á því.
  Lifið heil 😉

 58. Sælt veri fólkið,

  Ég verð að segja að þessi umræða sem Guðjón er að koma af stað er mjög nauðsynleg og mjög gott framtak.
  Mig langaði bara að koma því á framfæri ef að það hefur ekki verið gert nú þegar (ég nennti ekki að lesa hvert einasta komment) að það er mjög auðvelt að kynna sér hverskonar tölvuleik barnið/unglingurinn er að spila eða biðja um. Einfaldlega fara inn á síðu eins og Youtube slá inn nafn leiksins og bæta síðan aftan við það “gameplay”, þá ætti fólk að fá videó sem sína hvernig leikurinn er í spilun, út frá því geta foreldrar tekið afstöðu hvort þetta sé eitthvað sem þeim finnst í lagi að þeirra barn spili.
  Einnig er annar punktur sem ég held að margir geri sér ekki grein fyrir. Það er það að í dag eru tölvuleikir komnir með það góða grafík sem gerir þá svo raunverulega að erfitt getur verið að greina á milli þess hvað er raunverulegt og hvað ekki.
  Síðan er bara mikilvægt að foreldrar eyði tíma með börnunum sínum og kynnist því hvað þau eru að gera og pæla og ef þau eru að spila tölvuleiki að þá sitja með þeim og kynnast því út á hvað þetta gengur.
  Einnig eru merkingar á öllum tölvuleikjum sem ættu að gefa til kynna fyrir hverja leikurinn er ætlaður, þessar merkingar eru ansi góður mælikvarði. Í Bandaríkjunum er starfsfólki verslana bannað að selja tölvuleiki til fólks sem er undir aldri samkvæmt lögum, ég hef t.d lent í því (ég semsagt bý í USA) maður á fertugsaldri að vera spurður um skilríki til að sanna aldur minn og það að ég megi kaupa viðkomandi leik. Vandamálið við þetta er að það eru foreldrarnir sem kaupa leikina.

  Bkv.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *