Starfsreglur Samtaka

Samtaka

Svæðisráðið er samstarfsvettvangur fulltrúa foreldra í skólaráðum og foreldrafélaga og málsvari foreldra grunnskólanemenda í sveitarfélaginu. Svæðisráðið vinnur að sameiginlegum málefnum nemenda í grunnskólum Akureyrarbæjar og foreldra þeirra, veitir skólanefnd umsagnir um ýmis mál er varða starfsemi grunnskólanna og er bæjaryfirvöldum og ráðuneyti til aðstoðar og um skóla- og fjölskyldumál. Tilgangur svæðisráðsins er að styrkja rödd foreldra sem hagsmunahóps í sveitarfélaginu og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum, meðal annars með því að auka samskipti milli foreldra og grunnskóla bæjarfélagsins og með því að velja fastan fulltrúa foreldra úr svæðisráðinu sem áheyrnarfulltrúa á fundum skólanefndar.

Starfsreglur fyrir svæðisráðið:

  • Samtaka – svæðisráð foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrarbæjar er samstarfsvettvangur fulltrúa foreldra í skólaráðum og foreldrafélaga og málsvari foreldra grunnskólanemenda í sveitarfélaginu. Svæðisráðið er tengiliður við landssamtök foreldra og tilnefnir fulltrúa og varamann í fulltrúaráð Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.
  • Svæðisráðið er skipað tveimur fulltrúum úr hverjum skóla og þá alla jafna einum fulltrúa foreldra í skólaráði og einum fulltrúa foreldrafélags hvers grunnskóla á Akureyri og einum sameiginlegum fulltrúa foreldra nemenda Grunnskólans í Hrísey. Svæðisráðið fundar einu sinni í mánuði yfir skólaárið og oftar ef þurfa þykir. Fundarstaðir og fastir fundartímar skulu ákveðnir á fyrsta fundi skólaársins. Aðalfundur svæðisráðsins skal haldinn að vori.
  • Svæðisráðið velur úr sínum hópi til minnst tveggja ára í senn formann, varaformann, ritara, áheyrnarfulltrúa í skólanefnd og fulltrúa og varamann í fulltrúaráð Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra. Við kjör í trúnaðarstöður í svæðisráðinu skal þess gætt eins og kostur er hverju sinni að velja fulltrúa foreldra úr sem flestum af skólum Akureyrarbæjar og að hvert trúnaðarembætti fyrir sig færist með einhverjum hætti á milli skólanna.Til að tryggja eðlilega og jafna endurnýjun fulltrúa í svæðisráðinu skal leitast við að fulltrúar hvers skóla fyrir sig séu kosnir hvor á sínu árinu þannig að því sem næst helmingur fulltrúa í svæðisráðinu endurnýist á hverju ári.
  • Formaður svæðisráðsins sér um að boða til funda með dagskrá, heldur til haga gögnum ráðsins og kemur þeim til næsta formanns þegar hann lætur af embætti. Formaður er varamaður fyrir áheyrnarfulltrúa foreldra í skólanefnd. Áheyrnarfulltrúi situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt og talar þar máli foreldra. Hann fylgir einnig eftir erindum frá svæðisráðinu, skólaráði og stjórnum foreldrafélaga grunnskólanna og miðlar upplýsingum til fulltrúa í svæðisráði um þau mál sem tekin eru fyrir í skólanefnd. Ritari sér um að rita fundargerðir á fundum ráðsins og sér til þess að þær séu aðgengilegar á heimasíðu svæðisráðsins.  Fulltrúi og varafulltrúi í fulltrúaráði Heimilis og skóla starfa samkvæmt reglum samtakanna þar um.
  • Svæðisráð, í samvinnu við foreldrafélög grunnskólanna, stendur fyrir fræðslufundum um skóla- og uppeldismál að minnsta kosti einu sinni á skólaárinu. Fundirnir skulu vera opnir öllum.

Endurskoðun á starfsreglum Samtaka áttu sér stað að vori 2013 og voru tillögur að breytingum samþykktar á aðalfundi 7. maí 2013/VÞ

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *