Málþing um íþróttaskóla 2011

Málþing foreldra á vegum Samtaka, haldið í Brekkuskóla, 23. mars 2011

Yfirskrift málþings – Íþróttaskóli fyrir börn 6 til 10 ára, samfella í skóla- og íþróttastarfi barna.
Fundargerð ritaði, Vilborg Þórarinsdóttir, ritari Samtaka.

Samtaka, svæðisráð foreldra grunnskólabarna á Akureyri efndi til þessa málþings með það að markmiði að kynna fyrir foreldrum; hugmyndir um íþróttaskóla fyrir börn á yngri stigum grunnskóla og samfellu í skóla- og íþróttastarfi barnanna samkvæmt stefnu ÍSÍ; íþróttastefnu Akureyrarbæjar eins og hún birtist og er hugsuð út frá hagsmunum og þörfum barna á yngra skólastigi og ekki síst mikilvægi reglulegrar fjölþátta hreyfingar fyrir börn og heilbrigðs lífstíls. Markmið þessa málþings var ekki síður að kveikja samstöðu meðal foreldra um íþróttaskóla og skapa þannig tækifæri fyrir öll börn að fá fjölþætta íþróttaþjálfun og ennfremur möguleika á samfelldu skóla- og íþróttastarfi.
Fundarstjóri á málþinginu var Kristín Linda Jónsdóttir.

Framsögumenn voru; Viðar Sigurjónsson sviðsstjóri hjá ÍSÍ, Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, Kristinn Svanbergsson íþróttafulltrúi hjá íþróttadeild Akureyrar og Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfari.
Eftir erindi framsögumanna og að loknu kaffihléi sátu á pallborði ásamt framsögumönnum, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Nói Björnsson formaður íþróttaráðs, Gunnar Gíslason fræðslustjóri og Ólafur B. Thoroddsen skólastjóri Síðuskóla.

Viðar hóf erindi sitt á því að fara yfir stefnuyfirlýsingu ÍSÍ þar sem hann lagði áherslu á jöfn tækifæri barna til íþróttaiðkunar og að börn fái alhliða hreyfingu þ.e. fjölþætta íþróttaþjálfun. Hann talaði um mikilvægi þess að bjóða yngri börnum sér í lagi börnum á aldrinum 6 til 10 ára uppá íþróttaskóla í stað sérgreinaþjálfun og að einblína ekki á afrekshópa í íþróttum. Það er mikilvægara að börnin fái að kynnast mörgum íþróttagreinum, fái fjölbreytta íþróttaþjálfun og þegar þau hafa aldur og þroska til geta þau valið sína íþróttagrein út frá eigin forsendum. Barnið er líklegra til að velja sér grein við hæfi, sem það hefur mestan áhuga á og sýnir mestan hæfileika í. Viðar efast um að börn 6 eða 8 ára geti valið sér íþróttagrein sjálf út frá eigin forsendum og út frá því hvað hentar þeim best. Þau verða að fá að kynnast fjölbreyttum íþróttagreinum og prófa sig áfram. Það eru ekki börnin sjálf sem eru að velja þegar þau eru 6 ára heldur umhverfislegir þættir. Viðar bendir á rannsóknir sem sýna það að börn sem fá fjölþætta þjálfun og hafa grunnþekkingu og hreyfigetu í mörgum íþróttagreinum verði betra íþróttafólk á síðari stigum og endist lengur í íþróttum. Fjölþætt hreyfing er hollari fyrir börn en einhæf hreyfing, þ.e. sérgrein. Viðar kemur inná það að Akureyrarbær standi vel að vígi til að skapa börnum tækifæri að fá fjölþætta íþróttaþjálfun í formi íþróttaskóla og vísar þá til íþróttamannvirkja bæjarins. Viðar telur upp kosti íþróttaskóla í fimm liðum: 1. Fjölbreytt hreyfing eykur líkur á meiri árangri í íþróttum þegar til kastanna kemur. 2. Iðkandi greiðir aðeins eitt gjald hverju sinni en fær grunnþjálfun í mörgum íþróttagreinum í nokkur ár. 3. Með samvinnu skóla og íþróttafélaga eru iðkendur þessa aldurshóps búnir með sína íþróttaiðkun kl. 16.00 á daginn. Fjölskylduvænna, samfella í skóla- og íþróttastarfi barna. 4. Iðkun fyrir lífstíð. Börn sem fara í gegnum íþróttaskóla eru mun líklegri til að verða iðkendur fyrir lífstíð, endast lengur. 5. Minna brottfall á unglingsaldri ef börn fara í gegnum íþróttaskóla. Viðar endaði erindi sitt með því að hrósa nýrri íþróttastefnu Akureyrar sem og verkefni í Síðuskóla sem væri einskonar vísir að íþróttaskóla. Þá vísaði hann í íþróttanámsskrá ÍBA.
Kristinn var næstur framsögumanna og fór yfir tildrög íþróttastefnu Akureyrar sem nýlega hefur verið samþykkt. Hann fór yfir uppbyggingu sveitarfélagsins síðustu ára í tengslum við íþróttir barna og möguleika sveitarfélagsins til að koma að stofnun íþróttaskóla. Hann talaði um mikilvægi þess að reyna að skapa samfelldan vinnudag barna og að börn fái fjölbreytta kynningu á íþróttagreinum og hæfilegt æfingamagn fyrir börn á yngri stigum. Kristinn kom inná það að skipulag og þróun íþróttaskóla verði að vera samvinnuverkefni margra aðila, s.s. íþróttadeildar og íþróttafélaga bæjarins en forystuhlutverkið verði að vera í höndum skólaumhverfisins, þar sem slíkur skóli þurfi að vera í höndum faglærðra og reyndra íþróttaþjálfara sem sinna þessu verkefni. Í þessum efnum horfir hann líka til leikskólanna í tengslum við hreyfiþroska barna. Kristinn talaði um hátt þjónustustig íþrótta almennt á Akureyri og þá miklu flóru íþróttagreina sem stundaðar eru, en það eru hátt í 30 íþróttagreinar stundaðar hér reglulega. Hér eru stór og mikil íþróttamannvirki sem bærinn rekur og mikið fjarmagn hefur farið í uppbyggingu og rekstur mannvirkja og hefur sá kostnaður hækkað gífurlega á fáum árum. Í erindi sínu veltir hann því upp hvort íþróttaskóli sé raunhæft markmið þegar kemur að því að fjármagna slíkt starf svo vel ætti að vera. Hann telur svo vera og kemur inná tilfærslu fjármagns og hvar gæti sparest ef íþróttaskóli kemur til í beinu framhaldi af skólatíma. Nefnir hann í því dæmi, kostnað vegna frístundar og fyrirliggjandi þjálfunarkostnað sem þegar er til staðar.
Síðastur framsögumanna var Gunnar sem byrjaði á því að tala um mikilvægi þess að fylgja þróuninni eftir, minnka skutl og stuðla að meiri almennri hreyfingu fyrir börnin. Hann vill beina sjónum að börnunum sjálfum í ræðu sinni. Offita er einn af stærstu heilsufarsvanda í dag – ekki síður barna en fullorðinna. Fylgisjúkdómar offitu er sykursýki og háþrýstingum, mikill vaxandi vandi hjá okkar börnum í dag. 18,5% barna eru of þung og 5,5% eru of feit og almennt þrek barna fer sífellt þverrandi. Hann spyr – afhverju er vandinn orðinn svona stór á meðan við reisum mannvirki? Hann bendir á mikilvægi þess að við þurfum að sameinast um að breyta þessu og þá að breyta hugsunarhættinum – það er of mikil keppni og of miklum peningum ausið í of fáa. Stefnan sem hefur verið viðhöfð er ekki að skila árangri að mati Gunnars eða að bæta heilsu þjóðarinnar. Aðgengi heildarinnar er ekki nógu mikið – aðgengið er fyrir of fáa. Við þurfum líka að hlusta á börnin, hvað þau eru að hugsa og hvað þau eru að biðja um. Eiga skólarnir að sinna þessu eða íþróttafélögin eða íþróttadeild bæjarins? Að mati Gunnars eru það allir sem þurfa að taka höndum saman og ná fram hugarfarsbreytingu. Gunnar leggur áherslu á meiri hreyfingu fyrir alla og að gripið verði til úrræða sem geri það að verkum að færri börn heltist úr lestinni. Hann bendir jafnframt á að nóg sé til af rannsóknum sem styðja þessar umræður í kvöld, m.a. rannsóknir sem sýna hversu sterk áhrif hreyfing hefur á heilastarfsemi og andlega vellíðan. Hann vill auka aðgengi barna að íþróttamannvirkjunum, íþróttasvæðunum og lýkur erindi sínu með þeim orðum að –hreyfing sé vopn gegn streitu og leiði til aukinnar vellíðunar.

Pallborðsumræður (spurningar og skoðanir foreldra eru feitletraðar):
Margar fyrirspurnir, athugasemdir og skoðanir komu frá foreldrum úr sal og stjórnaði fundarstjóri pallborðsumræðum.
1.Foreldri spurði Viðar nánar um tímasetningu íþróttaskóla og hve oft í viku og hve lengi í senn börn væru í íþróttaskóla.
2.Annað foreldri spurði hvort hugmyndin um íþróttaskóla væri séríslenskt fyrirbæri eða að skandínavískri fyrirmynd og hvernig íþróttaskóli hafi gengið annarsstaðar. Sama foreldri spurði jafnframt hvernig færi með aðrar íþróttaæfingar eins og þær eru í dag, hvort þær dyttu alveg út.
3.Foreldri sem jafnframt kynnti sig sem fulltrúa úr keppnisíþrótt kom með athugasemd varðandi íþróttaskóla og æfingar á vinnutíma hvort ekki væri hætta á að foreldrar misstu af tækifæri til að fylgjast með börnum á æfingum.
4.Foreldri og fulltrúi úr Samtaka spurði um íþróttagreinar eins og skíði og skauta og féllu ekki innan hefðbundinna íþróttagreina og hvernig þær væru hugsaðar innan íþróttaskóla.
5.Sálfræðingur og foreldri var með ýmsar vangaveltur sem hann deildi með fundargestum og aðilum í pallborði. Hvernig við ætlum að reyna að tryggja það að öll börn geti stundað eða fái tækifæri til að stunda íþróttir og annað tómstundastarf og um mikilvægi hins félagslega þáttar. Tók hann þar dæmi um brottfall nemenda úr framhaldsskóla og félagslegri stöðu.
6.Foreldri spurði hvert næsta skref væri nú að þessu málþingi loknu og m.v. stefnu Akureyrarbæjar um samfelldan skóladag.

1.sv.Viðar fékk fyrstur að svara þeim fyrirspurnum sem höfðu komið fram. Hann taldi fjöldi æfinga og tímalengd í íþróttaskóla í raun útfærsluatriði, en markmiðið að íþróttaskóli taki við í beinu framhaldi af skólalokum, væri markviss, alhliða íþróttaþjálfun og kennsla. Viðar taldi lágmarkið þó vera 2 til 3 sinnum í viku.
2.sv.Hann sagði fyrirmyndina af íþróttaskóla koma frá Norðurlöndunum og mið-Evrópu. Stefna ÍSÍ var unnin fyrst 1994/5 vegna þess að íþróttaskólar höfðu haft gott orð á sér erlendis og skilað miklum árangri. Þetta hefur verið prófað á Íslandi en gengið misvel og aðalástæðan er sú að ekki hefur verið nægilega góður undirbúningur. Skipulag utan um íþróttaskóla þarf að vinna vel og að hafa alla með, t.a.m. að upplýsa foreldra vel og að hafa þá með í þessari vinnu. Nefnir hann að tilraun hér á Akureyri með Fjölgreinafjör hafi verið dæmt til að mislukkast enda voru foreldrar ekki með í ferlinu og var ekki gengið nógu langt í áttina að íþróttaskóla. Hann nefndi góðan árangur af íþróttaskóla t.a.m. í Borgarnesi. Viðar sagði sérgreinaþjálfun ætti ekki að koma inn fyrr en um 10 ára aldurs barns en þetta væri allt útfærsluatriði um þjálfun, æfingar utan íþróttaskóla. En barn er betur undir það búið að velja sérgreinar eftir 10 ára aldur og hefur fengið alhliða íþróttaþjálfun í gegnum íþróttaskóla.
3.sv.Hvort foreldrar geti ekki mætt á æfingar til að fylgjast með börnum sínum. Það eru kostir og gallar í þessu segir Viðar en alltaf spurning um val.
4.sv.Viðar leggur áherslu á að draga sem flestar íþróttagreinar inní íþróttaskóla en mestu skiptir að ekki sé verið að keppa um barnið á þessum aldri. Samvinna er afar mikilvæg.
5.sv.Viðar svarar fimmtu spurningu með þeim hætti að við verðum að reyna að tryggja það að allir fái tækifæri til að stunda íþróttir. Hann bendir á Borgarnes sem dæmi en þar eru ekki sérgreinar í boði fyrir yngri börn en samt er 96% þátttaka barna þar í íþróttum sem í boði eru í bænum.
6.sv.Nói svarar þeirri fyrirspurn. Hann segir umræðu nú vera innan skólanefndar og þurfi íþróttanefnd og skóalnefnd að vera í samvinnu. Næsta skref að mati Nóa er að draga ÍBA, ÍSÍ, skóladeild sem og íþróttafélögin inn í þessa umræðu og skapa samvinnu. Hann segir L-listann afar jákvæðan fyrir því að koma þessu á laggirnar.
Í framhaldi tekur Ólafur skólastjóri í Síðuskóla orðið og fjallar um tilraun og tilboð sem krakkar fá um alhliða íþróttaæfingar eftir skólatíma innan skólans. Þátttakan er góð að mati Ólafs og almenn ánægja með fyrirkomulagið. Hann segir 50 krakka á æfingum að meðaltali. Þetta sýnir að áhuginn er til staðar bæði hjá börnum og foreldrum.
Eiríkur kemur með innlegg á eftir Ólafi. Þakkar fyrir að fá að vera með á þessu málþingi og telur að ekkert gerist í þessum efnum nema í samstarfi við foreldra og að það þurfi að takast á við marga þætti í umhverfinu. Það þurfi líka að gæta að magni áður en lagt er af stað og mælir með því að byrjað verði smámsaman. Við erum að skapa nýja hugsun, nýjan lífstíl. Með þessari stefnubreytingu erum við að skapa fleirum tækifæri til að vera með. Hann kemur líka með spurningu um hvort við séum ekki þarna að glíma við sérsamböndin innan ÍSÍ, hvað eru þau að gera og hugsa? Eiríkur sendir áskorun til okkar allra, að standa saman í þessu verkefni.
Gunnar Gíslason telur þetta mjög tímabæran fund um þetta málefni og mælir með heildstæðum skóla- íþrótta- og tómstundadegi barna. Hann hefur áhyggjur af minni hreyfingu hjá börnum og hefur miklar áhyggjur af stöðu mála og hvetur alla til að spyrna við fótum.
Gunnar Svanbergsson leggur áherslu á að líkamlegi þátturinn skiptir máli eins og félagslegi þátturinn, spilar saman. Hann segir að áður fyrr kostaði lítið að stunda íþrótt en það er ekki þannig í dag og íþróttamannvirki og aðstaða þurfi að vera opnari og aðgengilegri fyrir börn.
7.Foreldri ræðir um fjármagnið, hvaðan það kemur. Hverjir eru það sem borga fyrir íþróttafélögin, hverjir greiða brúsann? Eru það ekki við skattborgararnir. Ef íþróttaskóli veitir fleiri börnum tækifæri til að stunda íþrótt og skilar fleiri börnum inní reglulega þjálfun, til lengri tíma og minnkar brottfall. Eftir hverju er þá verið að bíða?
8.Foreldri og aðili úr keppnisíþróttum spyr hvort það sé sanngjarnt að barn sem er ungt – t.d. 8 ára og hefur fundið sína sérgrein klárlega fái ekki tækifæri til þess?
9.Foreldri en jafnframt þjálfari í sérgrein bendir á allt það sjálfboðaliðastarf sem á sér stað innan sérgreinaíþróttanna.
10.Starfsmaður úr Fjölgreinafjöri bendir á út frá sinni reynslu að það hafi verið erfitt að fá fólk, aðila úr íþróttagreinum til samstarfs. Íþróttafélögin höfðu hreinlega ekki áhuga á þessu, þ.e. að kynna sína íþróttagrein.
11.Foreldri og jafnframt íþróttafræðingur spyr hvort 10 ára aldur sé heilagur aldur, hvað með sumaríþróttir, golf t.d. hvernig er hægt að samþætta þá íþrótt t.d. inní skólakerfið?
7.sv og 10.sv. Gunnar Gíslason segir mikla fjármuni í gangi, t.a.m. fara 60 millj. í frístund. Hann telur að hægt sé að nýta fjármagn sem þegar er til staðar öðruvísi. Hann telur stærsta gallann við Fjölgreinafjörið hafa verið lélegur undirbúningur.
7.sv., 8.sv. og 9.sv. Nói telur gífurlegt fjármagn vera til staðar en ekki megi gleyma öllu því sjálfboðaliðastarfi innan íþróttastarfsins sem er ómetanlegt. Hann ræðir um hvert það fjármagn fer sm þegar er til staðar og hvernig þurfi að finna því annan farveg með skipulögðum hætti. Varðandi sérgreinar sem börn eru að stunda nú þegar vill hann segja að mikilvægt sé að fara hægt á stað, það sem er nú til staðar verði ekki rifið allt niður á einu bretti.
11.sv.Viðar segir sína trú vera að börn hafi ekki þroska til að stunda markvissar æfingar í sérgreinum fyrr en um tólf ára aldur, en viðmið hefur verið sett á 10 ára aldur. Allir sem fara í sérgreinar þurfa að þjálfa upp góðan alhliða grunn. Hann telur afar líklegt að börn sem fá fjölþætta þjálfun í íþróttaskóla skili sér í sérgrein þegar þau hafa forsendur til og spyr aftur, eru börn með nægan þroska til að velja sérgrein 8 eða 9 ára?
7.sv. og 8.sv.Kristinn talar um næstu skref. Hann telur að sérgreinaþjálfun verði ekki hent út frá fyrstu hendi en hugsunin er samfelldur vinnudagur barna. Akureyrarbær hefur ágætis tæki til að geta leitt þetta starf áfram í áttina að stefnunni um íþróttaskóla. Það er mögulegt að finna einhvern meðalveg á milli íþróttaskóla og sérgreinaíþrótta. Við þurfum líka að horfa á sem besta nýtingu á íþróttamannvirkjum sem Akureyrarbær er að reka.
Eiríkur tekur til máls og svarar Gunnari Svanbergssyni varðandi opin íþróttamannvirki. Þeim er takmörk sett með frjálsa notkun á völlum t.a.m. vegna keppnisreglna og þvílíku. Hann telur mannvirki bæjarins vera vel nýtt og fólk innan íþróttahreyfinganna er oft á tíðum vel menntað, vel þenkjandi og sinna þessum félagslega þætti vel. Hann hvetur foreldra að standa saman og hafa áhrif, láta heyra í sér.
12.Íþróttakennari við grunnskóla kemur með tillögu. Að undirbúa og skipuleggja vel íþróttaskóla fyrir öll 6 ára börn í grunnskóla. Færa síðan kvíarnar fram smám saman. Hann styður þá hugsun að börn fái fjölþætta íþróttaþjálfun. Hann telur það geta verið strembið að koma öllum íþróttagreinum inní þetta kerfi en það hljóti að finna lausn ef allir standa saman.
13.Foreldri kom með þá hugmynd að þróttaskóli byrjaði klukkan 8.00 á morgnanna.
14.Foreldri og fulltrúi í Samtaka kom með athugasemd um að skoða möguleika á að hafa val um íþróttaskóla eða sérgrein.
15.Foreldri spyr hvort hugsunin sé sú að það sé einn íþróttaskóli fyrir alla 7 skólanna á Akureyri eða sér íþróttaskóli í hverjum skóla?
16.Foreldri og sálfræðingur segir það ábyrgðarhluta að gera ekki neitt. Skóli er fyrirbæri sem stöðugt er í mótun. Hann styður íþróttaskóla, samfellu í starfi barna og telur það til hins góða fyrir börn og getur bætt aðstæður barna og tekur þar dæmi um börn sem greinast með hegðunarröskun.
17.Foreldri og sjúkraþjálfari vill sjá þetta strax, íþróttaskóla fyrir 6 til 10 ára börn, samfelldan skóla frá 8 til 16 og allt komi þar inn, skóli, íþróttir og tómstundir. Þetta þarf mikla og góða skipulagningu, samnýta tæki, húsnæði, mannafla og tíma.
18.Foreldri spyr um sumartímann og íþróttaskóla, hvernig eru sumrin hugsuð?
19.Annað foreldri spyr um íþróttaskóla á sumrin, foreldrar þurfa úrræði fyrir börnin þá líka.
Eiríkur hvetur þetta verkefni áfram – skoðum hvernig við nýtum kennslu inní skólum, eflum grunnskólakennslu og þjálfun í íþróttum. Ólafur biðlar til foreldra um að láta börnin ganga meira í skólann en gert er.
Viðar bætir við að íþróttaskóli verði að vera við hvern skóla og hvað sumrin varðar og sumaríþróttir er það spurning um útfærsluatriði.

Fundarstjóri slítur fundi um kl. 23.00 með þeim orðum að það þurfi jákvæðni og kjark til að breyta og ábyrgðin sé okkar allra.

Vilborg Þórarinsdóttir
fundarritari

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *