Samfella í skóla- og íþróttastarfi barna

Samfella í skóla- og íþróttastarfi barna

Til langs tíma hafa umræður um samfellu í skóla- og íþróttastarfi barna verið í gangi. Með samfellu er átt við að íþróttaiðkun barnanna taki við strax að loknum skóladegi sem oft er á milli kl. 13.00 og 15.00 hjá 6-10 ára börnum. Líklega hefur þó þrýstingur á þá breytingu aldrei verið meiri en nú, einfaldlega vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Rökin fyrir slíkri breytingu eru þó svo langtum meiri, ekki síst með hagsmuni barnanna sjálfra að leiðarljósi, möguleikann á því að skapa heilbrigðan einstakling og íþróttaiðkanda til frambúðar.

Fjölþættur íþróttaskóli

Sá fjölþætti íþróttaskóli sem fjallað er um í stefnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) frá 1996 er íþróttaskóli þar sem kenndar og þjálfaðar eru margar íþróttagreinar, eins margar og kostur er miðað við aðstæður hverju sinni. Fjölþætt hreyfing og þjálfun ásamt gleði á æfingum er þar lykilatriði sem undirbúningur fyrir heilbrigðan og þroskaðan einstakling til frambúðar. ÍSÍ mælir með slíkum skóla fyrir börn 6-10 ára. Með þeim hætti fær barnið fjölþætta þjálfun og hefur grunnþekkingu og hreyfigetu í mörgum íþróttagreinum sem er barninu afar mikilvægt á síðari stigum.

Það eru margar ástæður fyrir því að fjölþættur íþróttaskóli er líklega það besta sem við getum boðið börnum upp á í dag. Meðal þeirra atriða sem vert er að skoða er gildi fjölþættra íþróttaskóla í samanburði við sérgreinaþjálfun frá 6 ára aldri, þ.e. ef iðkandinn er aðeins í einni íþróttagrein frá 6 ára.

Íþróttaskólar eða sérgreinaþjálfun?

Í íþróttaþjálfun barna, 6-10 ára er árangur ekki mældur í sigrum og töpum, mörkum eða stigum. Hann er mældur út frá almennri gleði og ánægju, félagslegum og sálfræðilegum þroska og þeim uppeldislegu þáttum sem hæfa aldrinum. Þarna er verið að byggja börnin upp til frambúðar, gera þau að heilsteyptum einstaklingum, temja þeim heilbrigðan lífsstíl. Afrek og keppni m.t.t. íþróttalegs árangurs eru þættir sem koma síðar. Því má ekki gleyma að börn vilja vissulega keppa, jafnvel strax á þessum árum en sú keppni má aldrei vera smækkuð útgáfa af keppni fullorðinna, til þess hafa börn á þessum aldri hvorki þroska né hæfni. Keppnin þarf að vera í því formi sem hæfir aldri og þroska s.s. hinum ýmsu þrautum og leikjum.

Þegar 6 ára barn „velur” íþróttagrein þá er það umhverfi barnsins sem velur hana fyrir barnið en ekki barnið sjálft. Fjölmiðlar, systkyni, vinir og félagar, foreldrar o.s.frv. er það sem í raun velur greinina fyrir barnið. Barnið hefur eðlilega engar forsendur til að geta valið sjálft, það hvorki þekkir íþróttagreinina né hefur hugmynd um hvort það hefur meiri áhuga á henni en öðrum íþróttagreinum. Fjölþættur íþróttaskóli er því miklum mun betri kostur hér, þá getur barnið valið íþróttagrein sjálft síðar meir þegar það hefur hlotið kennslu og þjálfun í mörgum íþróttagreinum.

Einni spurningu hefur oft verið velt upp í tengslum við þessa umræðu. Á ekki iðkandi sem stundar eina íþróttagrein frá sex ára aldri meiri möguleika á að verða afreksmaður í þeirri grein á fullorðinsaldri heldur en iðkandi sem er í mörgum íþróttagreinum í íþróttaskóla frá 6 – 10 ára aldurs?

Niðurstöður sýna að barn sem fer í gegnum fjölþættan íþróttaskóla er líklegra til að verða afreksmaður í þeirri íþróttagrein sem barnið velur sér eftir íþróttaskólann! Barnið er líklegra til að velja sér grein við hæfi, grein sem það hefur mestan áhuga á og sýnir mesta hæfileika í. Fjölbreytt hreyfiþjálfun eykur líkur á árangri síðar meir!

Afrek eða lífsstíll?

Þess ber að geta hér að ekki verða allir afreksmenn og því eru þau rök alls ekki þau einu fyrir fjölþættum íþróttaskóla. Börn sem fara í gegnum slíkan skóla eru einnig líklegri til að verða iðkendur fyrir lífsstíð, velja sér íþróttagrein við hæfi og lenda þ.a.l. síður í brottfalli og hætta iðkun sinni. En af hverju skyldi það vera? Ástæðan er einföld, börnin hafa grunnþekkingu og getu í mörgum íþróttagreinum sem auðveldar þeim að fara á milli greina, gerist þess þörf og ef þau kjósa svo. Barn/unglingur sem verið hefur í einni íþróttagrein frá 6 ára aldri og hættir iðkun sinni 15-16 ára á afar erfitt með að fara í aðra íþróttagrein á þeim aldri af því að viðkomandi stendur öðrum iðkendum langt að baki, hefur litla þekkingu og hæfni í annarri íþróttagrein. Tekið skal fram að hér er ekki verið að gera lítið úr íþróttakennslu grunnskóla en hún er eðlilega hvergi nærri nóg til þess að börn öðlist nægilega færni í íþróttagreinum til að auðvelda þeim að einhverju ráði að fara á milli íþróttagreina ef sú staða kemur upp á fyrrgeindum aldri. Þar er fjölþættur íþróttaskóli strax að loknum skóladegi, jafnvel þrisvar í viku (eftir aðstæðum hverju sinni) afar vænlegur kostur!

Kostir fjölþætts íþróttaskóla fyrir 6-10 ára börn:

1.

Iðkandi sem er í slíkum skóla í 5 ár (6-10ára) fær ekki bara kynningu heldur markvissa þjálfun í eins mörgum íþróttagreinum eins og aðstæður í hverju héraði leyfa og getur því sjálfur á eigin forsendum, þekkingu og áhuga valið sér íþróttagrein eða greinar þegar þessum aldri sleppir.

2.

Iðkandi greiðir einungis eitt gjald hverju sinni en fær grunnþjálfun í fjölmörgum íþróttagr. í 5 ár.

3.

Með samvinnu skóla og íþróttafélaga eru iðkendur þessa aldurshóps búnir með sína íþróttaiðkun kl. 16.00 á daginn, í mörgum tilfellum á sama tíma og annað foreldri eða jafnvel báðir hafa lokið vinnudegi. Það eykur möguleika á samveru barns og foreldra sem er afar mikilvægur þáttur í uppeldi barna.

4.

Iðkendur sem fara í gegnum svona íþróttaskóla eru miklum mun líklegri til að verða iðkendur fyrir lífstíð eða í.þ.m. að iðkunin endist lengur en ella, ekki síst vegna þess að iðkandinn er líklegri til að velja sér íþróttagrein við hæfi og í samræmi við getu og áhuga eftir íþróttaskólann.

5.

Iðkendur sem fara í gegnum svona íþróttaskóla eru því miklum mun ólíklegri til að lenda í brottfalli sem oft kemur til á unglingsaldri þegar iðkendur uppgötva í sumum tilfellum að íþróttagreinin sem þeir eru að iðka er í raun ekki sú grein sem þeir hafa mestan áhuga á (og jafnvel hæfileika í) þó þeir hafi iðkað hana frá 6-7 ára aldri!

6.

Rétt er að benda á það að ekki komast allar hugsanlegar íþróttagreinar fyrir í íþróttahúsunum sem í mörgum tilvikum eru til staðar við grunnskólana eða stutt frá þeim. Sumar greinar eins og skautaíþróttir, skíðaíþróttir, sund o.fl. þurfa annað húsnæði og þarf að taka tillit til þess. Það þarf samt ekki að þýða það að greinarnar rúmist ekki innan íþróttaskólans. Hér er um ákveðið skipulagsatriði að ræða sem vissulega þarf að finna lausn á. Þetta er ekki vandamál, þetta er verkefni. Langflestar íþróttagreinar má samt kenna innan íþróttahúsanna.

Þar sem fjölþættir íþróttaskólar hafa skotið rótum hefur þátttaka oftast verið mjög góð. Dæmi eru um 95-98% þátttöku barna á þessum aldri. Íþróttaskólinn er því að ná til barna sem hugsanlega fara annars ekki að æfa íþróttir hjá íþróttafélögunum.

Hverjir kenna/þjálfa?

Rætt hefur verið um ákveðið vandamál þessu tengdu, sem felst í möguleika íþróttaþjálfara íþróttafélaganna til að kenna/þjálfa á þeim tíma sem hér um ræðir, milli kl 13 og 16 á virkum dögum. Þetta er eflaust áhyggjuefni í mörgum tilvikum og því hefur einnig verið litið til íþróttakennara/-fræðinga grunnskólanna í þessu sambandi. Í flestum tilvikum eru þeir aðilar sem kenna íþróttir við grunnskólana útskrifaðir íþróttafræðingar sem hafa haldgóða þekkingu á mörgum íþróttagreinum, auk þess að hafa menntun í kennslu- og uppeldisfræðum. Þessir aðilar eru því oft góður kostur og vel hæfir til að sjá um kennslu/þjálfun í mörgum íþróttagreinum innan íþróttaskólanna. Eftir að grunnskólarnir komu yfir á sveitarfélögin þá varð þetta jafnvel enn auðveldara í framkvæmd en áður. Þetta er líka skipulagsatriði, verkefni en ekki vandamál.

Þessu tengdu er rétt að benda á að ÍSÍ hefur lengi fylgt þeirri stefnu að hvetja íþróttafélög til að hafa á að skipa vel menntuðum og hæfum þjálfurum, jafnt fyrir yngri sem eldri iðkendur. Með þekkingu og hæfni eru líkurnar auknar á faglegu starfi, fleiri iðkendum og öflugri „íþróttaþjóð” til frambúðar.

Stefna Akureyrarbæjar

Það er ánægjuleg staðreynd að í drögum af Íþróttastefnu Akureyrarbæjar sem þegar hafa verið kynnt íþróttahreyfingunni er skýrt kveðið á um gildi íþróttaskóla fyrir fyrrgreindan aldur og stefnt að þeirri leið í samvinnu við íþróttahreyfinguna.

Það er von þess er þetta skrifar að þessi umfjöllun varpi enn frekara ljósi á gildi fjölþættra íþróttaskóla. Það er enginn efi í mínum huga að fjölþættir íþróttaskólar eins og þeir sem hér hefur verið fjallað um eru það besta sem hægt er að bjóða 6-10 börnum í dag, ef faglega er á málum haldið. Það er því von mín að litið verði til þessa mikilvæga þáttar sem allra fyrst, börnum á fyrrgreindum aldri til heilla og framfara.

Með íþróttakveðju,

Viðar Sigurjónsson

Sviðsstjóri fræðslusviðs ÍSÍ.

4 thoughts on “Samfella í skóla- og íþróttastarfi barna”

  1. Flott grein hjá þér Viðar! Mér finnst þetta einkar áhugavert og finnst kominn tími til að þetta málefni komi alveg upp á yfirborðið. Samfella í skóla- og íþróttastarfi er að mínu mati svo augljóslega rétta leiðin. Það er alltaf verið að tala um hve mikilvægt sé að fjölskyldur eyði meiri tíma saman, sem er auðvitað alveg rétt og á sama tíma er verið að ítreka nauðsyn og forvarnargildi íþróttaiðkunar, sem er líka alveg rétt. Það er því svo mikil synd að þetta tvennt geti (oft á tíðum) ekki átt saman. Stöndum saman í þessu foreldrar, þetta er alveg framkvæmanlegt! kv,Sunneva

  2. Fín grein Viðar og orð eru til alls fyrst en hverjir eiga að höggva á hnútinn. T.d. á Akureyri er fimleikafélag sem innheimtir félagsgjöld af þessum aldri til að standa undir þjálfun þeirra sem eldri og færri eru og hafa dýrari þjálfara. Í fótbolta eru flestir iðkendur í yngstu árgöngunum. Hverjir fengju æfingagjöldin. Skólarnir ef kennarar þaðan sæju um þetta? Knattspyrnufélögin eða fimleikafélögin eða skipta á milli þriggja / tveggja félaga.

    Að minnsta kosti þarf að prófa og það sem fyrst.

  3. Fínar vangaveltur Sigurður. Eftir því sem fleiri gera sér grein fyrir gildi þessa því meiri þrýsingur kemur á alla þá aðila sem að málinu þurfa að koma. Það eru til nokkrar leiðir og eflaust misjafnt t.d. milli héraða/byggðarlaga hver þeirra hentar best. Í afar mörgum tilfellum eru það æfingagjöld í yngri aldurshópum sem standa undir kostanði vegna þjálfara og annars reksturs þeirra aldurshópa. Ég vona að það heyri til undantekninga að æfingagjöld yngri aðila séu notuð til að standa straum af kostnaði eldri iðkenda.
    Í mínum huga ættu æfingagjöld, þ.e. ef um æfingagjöld er að ræða í íþróttaskólanum að ganga upp í þann kostnað sem af skólanum hlýst, s.s. til kennara/þjálfara, hvort sem þeir koma frá grunnskólunum eða íþróttafélögunum. Það er nefnilega svo að ein leiðin í þessum efnum er að sveitarfélagið kosti og sjái um fjárhagslegan rekstur íþróttaskólans eða skilyrði að huta til styrki til íþróttafélaganna til þessa verkefnis. Ég álít að æfingagjöld yngri iðkenda hjá íþróttafélögum séu í langflestum tilfellum höfð í takt við útgjöld af íþróttastarfi viðkomandi aldurshóps hverju sinni. Reikningsdæmið er samt margflókið og ég mun ekki fara frekar út í þau mál hér. Stóra málið er að hugsa fyrst og fremst um skjólstæðinga okkar, þ.e. börnin og það sem þeim er fyrir bestu. Íþróttaskólinn er þar að mínu mati besti kosturinn (sjá fyrri rök í grein minni) og því er þetta bara verkefni sem þarf að leysa og útfæra.

  4. Ég tek heilshugar undir þetta málefni. Vonandi ná Akureyrarbær, Grunnskólarnir, foreldrarnir og íþróttafélögin hér í bæ góðri sátt um þessa samfellu skóladagsins og íþróttastarfs. Eins og þú segir Viðar, þá er mjög góður hljómgrunnur um þetta mál til staðar nú og um að gera að nýta hann. Á opnum foreldrafundi í Brekkuskóla voru þessar hugmyndir ræddar töluvert og var tekið mjög jákvætt í þær. Höldum þessu til streitu og klárum þetta mál.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *