Um Samtaka

Samtaka er nafn á svæðisráði foreldra í grunnskólum og framhaldsskólum Akureyrarbæjar. Samtaka er nú skipað fimmtán fulltrúum foreldra í sveitarfélaginu, það er einum fulltrúa foreldraráðs og einum fulltrúa foreldrafélags hvers grunnskóla á Akureyri og einum sameiginlegum fulltrúa foreldra nemenda Grunnskólans í Hrísey. Frá og með hausti 2013 eru fulltrúar foreldrafélaga framhaldsskólanna tveggja, MA og VMA, einnig meðlimir Samtaka.

Samtaka á tvo meðlimi í fulltrúaráði Heimilis og skóla. Nöfn þessara fulltrúa koma fram á listanum yfir stjórn svæðisráðsins.

Tilgangur Samtaka er að styrkja rödd foreldra sem hagsmunahóps í sveitarfélaginu og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum, meðal annars með því að auka samskipti milli foreldra og grunnskóla bæjarfélagsins og með því að velja fastan fulltrúa foreldra úr svæðisráðinu sem áheyrnarfulltrúa á fundum skólanefndar. Þannig má auka upplýsingaflæði frá foreldrum til skólayfirvalda og öfugt. Svæðisráðið er jafnframt tengiliður foreldra á Akureyri við Heimili og skóla, landssamtök foreldra, og tilnefnir fulltrúa í fulltrúaráð samtakanna.

Formlegur stofnfundur svæðisráðsins var haldinn 5. febrúar 2007. Starfsreglur svæðisráðsins má sjá annarstaðar á vefnum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *