Málþing í Hofi 29.jan ’15

Fundarstjóri: Guðjón Hauksson.
Björn Rúnar Egilsson og Sólveig Karlsdóttir verkefnastjórar hjá Heimili og skóla hófu málþingið.
Þau kynntu Heimili og skóla og hægt er að skoða síðuna þeirra áwww.heimiliogskoli.is.
Svo var sagt frá kynningarferðinni þeirra sem þau voru búin að fara í alla skóla á Akureyri og ræða við krakka í 6.bekk. Það var rætt:
-félagslífið á netinu (keppni um vinafjölda á facebook, „like“ við myndir…)
-tískustraumar (misjafnt hvaða „app“ er vinsælast)
-óheilbrigð samskipti á netinu/óæskileg forrit (til dæmis ask.fm)
-erfiðara að fylgjast með notkun eftir tilkomu snjallsíma
-margir aðgangar (instagram/instagram private, mamma og pabbi sjá bara annan aðgannginn..)
-kennarar óöruggir, myndatökum á skólatíma lekið á netið fyrir skólalok
-mikilvægt að foreldrar setji reglur um notkun og ræði við börnin
Til að fylgja betur eftir var minnt á hversu mikilvæg samstaðan er, þá kemur foreldrasáttmálinn að góðum notum.
Næst kom fram Inga Vala Jónsdóttir foreldri.
Alger þögn ríkti í salnum á meðan hún hélt sitt erindi, en þau hjónin misstu dóttur sína fyrir rétt um ári síðan. Dóttir hennar hafði deilt nektarmyndum af sér til aðila sem hún taldi að hún gæti treyst, en fór svo að myndirnar fóru í almenna dreifingu á netinu. Þar sannaðist að það sem eitt sinn fer á netið er ekki hægt að taka til baka. Þessi góða kona rifjaði hreinskilningslega upp sögu dóttur sinnar, Tinnu Ingólfsdóttur, og gerði hverju foreldri ljóst að þetta getur komið fyrir hvern sem er.
Hafþór Líndal frá ungmennaráði SAFT kom næst upp.
Hann ræddi um að öll landamæri væru vissulega farin sem sneru að internetinu.
Einnig sagði hann lítillega frá nýju rafrænu námsefni frá SAFT en það mun vera kynnt á næstunni. Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með saft.is og kynna sér hvað er í boði.
Hafþór minntist einnig á að börnin læra af nethegðun foreldra og að hægt er að kynna sér hvaða forritum er hægt að læsa (netvarar). Minna má líka á ábendingarhnappinn á saft.is
Að lokum komu fram Sigurður Már Steinþórsson og Una Margrét Stefánsdóttir framhaldsskólanemar.
Þau ræddu um hvernig facebook er notaður sem „montmiðill“ og ekkert síður á meðal fullorða en unglinga. Stöðuuppfærslur á facebook er orðin blekking/uppstilling á milli vina og fjölskylda. Annars fannst þeim flest koma fram sem þau hefðu hugsað um að nefna og ítrekuðu bara að foreldrar ættu samskipti við börnin sín og ræddu við þau um heilbrigða notkun á veraldarvefnum. Mikið magn af myndum á netinu í dag er búið að eiga við og breyta eftir hentugleika og það veldur unglingum vanlíðan. Þarna er skortur á raunveruleika og að krakkar halda kannski innst inni að allir þurfi að vera eins og Barbie og Ken.
Eftir umræðurnar hjá þeim var orðið laust og þá tóku við spurningar. Taka má fram að salurinn var þétt setinn og þótti þetta kvöld hafa heppnast einstaklega vel.
Ritari Samtaka, Berglind Ása.