Aðalfundur Samtaka 7. maí 2013

Dagskrá:

 Orð formanns

 Breytingartillögur

 Tilkynning um fulltrúa sem ganga úr stjórn

 Önnur mál


Mætt voru: Sigmundur Sigurðsson og Heimir Eggerz frá Síðuskóla, Sigmundur Magnússon og Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir frá Brekkuskóla, Vilborg Hreinsdóttir frá Glerárskóla, Vilborg Þórarinsdóttir frá Lundarskóla, Sigríður Ingólfsdóttir frá Naustaskóla og Ragnhildur Arna Hjartardóttir frá Giljaskóla sem jafnframt ritar fundargerð.

Að auki var mættur Gunnlaugur V. Guðmundsson forvarnarfulltrúi Akureyrarbæjar.

 

 1. Orð formanns – farið yfir störf Samtaka veturinn 2012-2013:

  1. með aðalfundi hefur Samtaka haldið átta fundi í vetur

  2. mest hefur umræða ráðsins snúist um tölvu-/netvandamál barna og unglinga en einnig hafa komið upp umræður um vímuefnamál. Engin umfjöllunarefni bárust Samtaka frá skólanefnd í vetur

  3. gestir á fundum hafa verið Karl Frímannsson fræðslustjóri, Guðjón H. Hauksson og Gunnlaugur V. Guðmundsson fornvarnarfulltrúi

  4. í haust var Heimir Eggerz kosinn til að sitja sem áheyrnarfulltrúi ráðsins í skólanefnd í stað Guðbjargar Björnsdóttur sem þurfti því miður að hætta og Vilborg Hreinsdóttir var valin tengiliður Samtaka við Heimili og skóla – bæði hafa sinnt þeim störfum með sóma

  5. Friðbjörg J. Sigurjónsdóttir var valin til að sitja í stýrihóp um aðlögun aðalnámskrár en dró sig út úr því starfi vegna ósamkomulags um laun. Enginn var valinn í hennar stað

  6. í desember voru starfsreglur ráðsins ræddar og ákveðið að taka þær upp á aðalfundi (sjá lið 2)

  7. til að gera Samtaka meira áberandi var ákveðið að útbúa “grúppu” á Facebook sem var gert og eru meðlimir hennar orðnir rúmlega 300 talsins. Þar er til dæmis hægt að koma af stað umræðum um öll málefni er varða börn og unglinga á grunskólaaldri. Það er svo á ábyrgð fulltrúa Samtaka að kynna bæði heimasíðu ráðsins og Facebook-síðuna á aðalfundum sinna foreldrafélaga

  8. Samtaka stóð fyrir málþinginu “Uppeldi í tölvuvæddum heimi – ábyrgð allra”. Þetta er í fyrsta sinn sem Samtaka hefur haldið jafn kostnaðarsamt málþing og í kjölfarið var rætt um að setja þyrfti einhverjar reglur og skipuleggja betur hvernig haldið er utan um fjármálahlið slíkra málþinga þar sem einhverjir hnökrar hafa verið á þeim þætti þó allt hafi gengið upp að lokum

  9. Samtaka í samvinnu við forvarnarfulltrúa fékk Siggu Dögg kynfræðing, til að vera með fyrirlestra fyrir 8. bekkinga í grunnskólum Akureyrar

 

 1. Tillögur að breytingum að starfsreglum Samtaka, sem unnar voru af Vilborgu Þórarinsdóttur og Ragnhildi Hjartardóttur, voru sendar öllum fulltrúum ráðsins til yfirlestrar fyrir aðalfund. Tillögurnar voru allar samþykktar á aðalfundi og nýjar starfsreglur verða settar á heimasíðu Samtaka. Breytingarnar felast aðallega í umorðun og einföldun á eldri starfsreglum

 

 1. Tilkynningar um fulltrúa sem ganga úr stjórn – stjórnarkjör

  1. Vilborg Þórarinsdóttir formaður, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir varaformaður og Ragnhildur Arna Hjartardóttir ritari ganga allar úr Samtaka og munu nýjir fulltrúar koma inn í þeirra stað á nýju starfsári

  2. Nýr formaður, varaformaður og ritari voru kjörnir en þeir eru: Heimir Eggerz formaður, Áshildur Hlín Valtýsdóttir varaformaður og Vilborg Hreinsdóttir ritari.  Nýr áheyrnarfulltrúi skólanefndar verður kosinn í haust

 

 1. Önnur mál:

  1. Gulla finnst samstarfið við Samtaka mjög áhugavert og vill að forvarnarfulltrúi sinni slíku samstarfi í meira mæli

  2. umræða um vímuefnavanda, forvarnir og úrræði fyrir foreldra og börn kom upp, allir fulltrúar sammála um að þessi málaflokkur megi ekki gleymast þó að rannsóknir sýni að fjöldi barna í neyslu minnki

  3. Svar barst frá Samfélags- og mannréttindaráði við erindi Samtaka sem var sent eftir málþingið og varðaði úrræði við tölvu-og netvanda barna og unglinga. Erindið var tekið fyrir á fundi og vísað til umræðu í tengslum við gerð langtímaáætlunar fyrir þá málaflokka sem heyra undir ráðið

  4. Sigmundur Magnússon keypti gjafabréf í Hof fyrir hönd Samtaka sem þakklætisvott handa Guðjóni H. Haukssyni fyrir störf í þágu ráðsins vegna nýliðins málþings og fleira. Þar sem Guðjón komst ekki á fundinn ætlar Sigmundur að færa honum gjafabréfið við fyrsta tækifæri

 

 1. Fundi slitið kl. 18

Published by

Stjóri

Vefstjóri er Guðjón H. Hauksson