Fundur Samtaka 6. mars 2007

Annar fundur Samtaka, haldinn í Glerárgötu 26, þriðjudaginn 6. mars 2007.
Mættir voru: Hólmfríður, Helga, Hafdís, Kristín, Sigurður (gilja), Gísli f. Álfheiði, jóhanna, brynjar, Sólveig, Guðjón, Haraldur, Linda María, Ingibjörg Auðunsdóttir var fundarstjóri.

1. Örstutt kynning þátttakenda.

2. Gunnar Gíslason – Kynning á stjórnkerfi Akureyrarbæjar.
(Fylgiefni: Skólinn skiptir máli, bæklingur um Skóladeild; Samþykkt um skólanefnd frá 2006; Glærupakki)

Verklag stjórnkerfisins útskýrt bæði fyrir og eftir nýlegar breytingar á stjórnskipuninni. Nú hafa nefndir mun meiri ákvörðunarrétt sem þýðir að mál þurfa ekki að velkjast í kerfinu um langa hríð. Þetta byggist á því að það séu til virkar leikreglur fyrir hverja nefnd sem gerir henni þá kleift að klára mál strax. Hið sama gildir fyrir embættismenn.

Um endurupptöku á málum. Bæjarráð þarf að úrskurða um endurupptöku. Ef beiðni er hafnað þá er hægt að snúa sér til umboðsmanns Alþingis eða félagsmálaráðuneytis.

Skólamál Akureyrar kosta um 3,4 milljarða – veltan 3,7. Yfirlit yfir skóla bæjarins, stöðugildi o.fl. 774 starfsmenn heyra undir Skóladeild. Skóladeild er framkvæmdaaðili fyrir skólanefnd.

Helstu verkefni skóladeildar útskýrð.

Sérfræðiþjónusta. Sérstakt kerfi hér miðað við annarsstaðar. Stofnanaþjónusta gegnum skólaþróunarsvið HA. PMT er eitt af þessum verkefnum. “Að fyrirbyggja alvarlega hegðunarerfiðleika og taka markvisst á hegðun barna með aðferðum PMT”. Parent Management Training. SMT – School Management Training.
Giljaskóli hefur valið sér aðra hugmyndafræði (Uppeldisstefna).

Meginhugsunin er sú að skólarnir séu sem sjálfstæðastir, nefndirnar líka en bæjarstjórnin móti stefnu sem hægt er að fara eftir. Út frá stefnunni er útbúin starfsáætlun sem á að uppfylla markmið stefnunnar.

Ákveðið að fá Gunnar hér inn til skrafs og ráðagerða aftur síðar.

3. Haraldur gerir grein fyrir setu sinni sem áheyrnarfulltrúi í Skólanefnd.

Bendir á að það borgi sig mjög að fara reglulega inn á vef bæjarins og kynna sér fundargerðir skólanefndar. Ekki nauðsynlegt endilega að Haraldur fari í þaula yfir hvað sagt var á hverjum fundi heldur skrifi okkur póst eftir hvern fund og fari yfir það helsta.

Á fundi skólanefndar þann 19. feb. kynnti Haraldur Samtaka og var vel tekið. Á fundinum var einnig rætt um lok samræmdra prófa og að forða þyrfti því að uppákoma eins og í Kjarnaskógi árinu áður mætti ekki endurtaka sig. Lögð áhersla á samvinnu við foreldra í þeim efnum.

Á fundi Skólanefndar þann 5. mars kom fram að 31% alls sem Akureyrarbær eyðir í viðhald almennt fer í viðhald á skólahúsnæði. Einnig var rætt um svifryksmengun við leikskólana sem er mun meiri en menn gerðu sér nokkurn tíma fyrir. Aðgerðir nauðsynlegar.
Neytendasamtökin sendu bréf til skólastjóra um gjald í mötuneytum. Skólanefnd frestaði afgreiðslu málsins. Haraldur lét í sér heyra á fundinum og lagði áherslu á það að þessi lækkun á vsk. ætti að vera algerlega óháð öðrum breytingum. Með því að gera ekkert í málinu núna, þ.e. lækka ekki, væri skólanefnd að ákveða hækkun á mötuneytisgjaldi skólanna.
Haraldur bar einnig fram eftirfaradi fyrirspurn til skólanefndar:

Samtaka, svæðisráð foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrarbæjar, lýsir áhyggjum yfir stöðu mála varðandi sálfræðiþjónustu við nemendur í grunnskólum Akureyrarbæjar. Svæðisráðið minnir á ákvæði 42. greinar laga um grunnskóla þar sem kveðið er á um að öllum sveitarfélögum er standi að rekstri grunnskóla sé skylt að sjá skólanum fyrir sérfræðiþjónustu, þar á meðal sálfræðiþjónustu.

Svæðisráðið óskar hér með eftir því að skólanefnd upplýsi um það hvort og hvernig sveitarfélagið telur sig uppfylla þessa lagaskyldu eins og málum er háttað í dag.

Haraldur lagði fram bókun sem í aðalatriðum er eins og hann las upp á fundi skólanefndar í gær – samþykkt að leggja hana óbreytta fram á næsta skólanefndarfundi.

4. Nefnd um fræðslufund
Tillaga að efni: Tölvu- og netnotkun barna. Upplagt að fá SAFT til að kynna. Þessir buðu sig fram í fræðslunefnd:
Helga Jóhanns
Jóhanna
Sólveig

5. Aðalfundir foreldrafélaganna
Eftirfarandi tillaga borin fram:

Samtaka, svæðisráð foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrar, beinir því til stjórna foreldrafélaga skólanna að kanna möguleika á því að breyta lögum félaganna með þeim hætti að aðalfundir þeirra skuli haldnir að vori. Ef aðalfundir eru haldnir að hausti og oft ekki fyrr en síðla hausts fer foreldrastarf seint af stað og upplýsingar um hverjir eru í ábyrgðarstöðum foreldrasamfélags hvers skóla skila sér seint til foreldra. Með því að halda aðalfundi foreldrafélaganna að vori má stuðla að því að starf félaganna og þar með einnig svæðisráðsins hefjist fyrr að haustinu og verði öflugra allt skólaárið.

Tillaga samþykkt. Ef þetta verður samþykkt í foreldrafélögum og ráðum skólanna tekur þetta gildi eftir lagabreytingu á Aðalfundi hvers foreldrafélags.

6. Kjaramál kennara

Eftirfarandi tillaga að ályktun var lögð fyrir fundinn:

Samtaka, svæðisráð foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrarbæjar,
lýsir áhyggjum yfir þróun kjaramála kennara og þeim átakatóni sem
virðist kominn í samskipti samninganefnda kennara og
sveitarfélaganna. Svæðisráðið skorar á alla aðila málsins að taka á
kjaramálum kennara af skynsemi og sanngirni, gera allt sem í þeirra
valdi stendur til að koma í veg fyrir verkfall og hafa ávallt
hagsmuni grunnskólanemenda að leiðarljósi. Reynslan sýnir að
verkfallsátök eru engum til góðs og bitna verst á þeim er síst
skyldi, börnunum okkar.

Samtaka hvetur jafnframt ríkisstjórn Íslands til að endurskoða
tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að gera
sveitarfélögunum betur kleift en nú að reka grunnskólana í landinu.
Flótti vel menntaðs fólks úr kennarastétt vegna óánægju með kjör
sín er engum til góðs og því afar mikilvægt að sveitarfélögin geti
staðið vel að rekstri grunnskólanna sem felur meðal annars í sér að
búa grunnskólakennurum gott starfsumhverfi og kjör við hæfi.

Tillaga samþykkt.

7. Fundartíminn

Rætt um að lengja fundartímann. Hólmfríður ætlar að senda fyrirspurn á fulltrúa í ráðinu.

8. Um fulltrúa í Samtaka

Árétting um að allir fulltrúar séu fastir fulltrúar. Það skiptir máli upp á öll samskipti t.d. og það að allir séu vel inni í málunum.

9. Vefur Samtaka

Akureyrarbær hefur úthlutað Samtaka þessu vefsvæði: http://samtaka.akureyri.is. Guðjón ritari mun vinna í því að koma upp vef þarna. Það sem nú er í skoðun er vefumsjónarkerfið PMWiki, sem er sama kerfi og SAMKOP er að nota.

10. Almenn umræða

félagsmiðstöðvarnar
mötuneytin

áfram að halda uppi reglulegum tölvupósti

Fundi lauk rétt fyrir hálf átta.