Aðalfundur Samtaka maí 2015

Skýrsla stjórnar.

Undanfarið ár hefur samtaka komið að nokkrum stórum verkefnum og nokkrum litlum. Veturinn byrjaði á undirbúningi á seglum sem voru hannaðir og að lokum afhentir öllum börnum i 1-6 bekk.

Loks var farið i að hanna logo fyrir samtaka og hugmyndin hans Ellerts frábær . Egill fór svo og lagði loka höndina á það og kom i tölvutækt form.

Fyrirlestur fyrir alla í 6. bekk á Akureyri sem og flottur 200 manna fyrirlestur í Hofi um snjalltækjanotkun.

Fyrirlestur um Fíkniefnaheiminn á Akureyri í Hofi og mættu um 110 manns þar.

Áskorun á Akureyrarbæ vegna skólamáltíða og gjaldskrá i leik- og grunnskólum.

Sædís hefur undanfarið ár setið i skólanefnd á vegum samtaka, en einnig er þar inni hún Vilborg sem situr fyrir hönd leikskólanna en gott er að hafa bakland þar inni.

Samráðshópur um læsi á vegum Menntamálaráðuneytis. Heimir sat í þeim hóp sem fundaði mánaðarlega í vetur. Að lokum var skilað skýrslu frá þeim í febrúar.

Samráðshópur um snjalltækjanotkun á Akureyri í samvinnu við samfélags- og mannréttindaráð. Sigmundur er komin í þá nefnd og til að byrja með mun Heimir einnig sitja fundi,  en ráðgert er að finna annan aðila með Sigmundi í haust.

Stýrihópur um fyrimyndarbúnað i leik- og grunnskólum.

Heimir situr í þeim hóp sem hefur fundað einu sinni. Áætlað er að vinna  þeim hópi áfram og mun það verkefni taka um 2-3 ár.

Fulltrúaráðsfundur Heimilis og skóla í apríl.

Vegna veðurs var ekki hægt að fara á fundinn í nóvember (en tveir fundir eru haldnir á hverju skólaári). Á fundinum í apríl var Heimir formaður kosinn í stjórn heimilis og skóla í gegnum fulltrúaráðið.

Skýrsla stjórnar var samþykkt með meirahluta atkvæða.

Svæðisráð foreldra

Samtaka er nafn á svæðisráði foreldra í grunnskólum og framhaldsskólum Akureyrarbæjar. Tilgangur svæðisráðsins er að styrkja rödd foreldra sem hagsmunahóps í sveitarfélaginu og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum…

Fundur 7.apríl 2015

#Um miðjan mars sendi Samtaka frá sér áskorun til Akureyrarbæjar um að endurskoða gjaldskrárhækkanir í leik- og grunnskólum sem tóku gildi um síðustu áramót. Einnig var bent á misræmi sem snéri að næringargildi matseðla samkvæmt heimasíðum skólanna og orkuþörf krakka á unglingastigi samkvæmt lýðheilsustöð.

Svar frá fræðslustjóra barst í lok mars þar sem hún var vægast sagt ekki sammála okkur. Hún mun boða stjórn Samtaka á fund núna í apríl þar sem þetta verður betur rætt.

 

#Fulltrúaráðsfundur og aðalfundur hjá Heimili og skóla verður 22.apríl í Reykjavík.
Stefnan er að tveir frá Samtaka fari á þennan fund.

 

# Á síðasta fundi hjá Samfélags- og mannréttindaráði kom fram tillaga um aðkomu Samtaka í stýrihóp sem mun taka þátt í þróunnarvinnu um sameiginlegar reglur og viðmið sem snýr að  snjalltækjanotkun í grunnskólum bæjarins. Okkur finnst þetta spennandi verkefni og munu amk tveir fulltrúar frá Samtaka taka þátt í þessum stýrihóp.

 

# Endurskinsmerki.
Búið er skoða grundvöll og leita eftir tilboðum vegna kaupa á endurskinsmerkjum handa grunnskólabörnum á Akureyri. Kvennadeild Slysavarnarfélagsins og forvarnardeild hjá Rósenborg vilja taka þátt í kostnaði. Þetta er því allt á réttri leið og verður vonandi klárað með vorinu og afhent strax á nýju skólaári.

 

# Lokafundur – aðalfundur Samtaka  verður
5.maí kl 17:00 í fundarsal á 2.hæð, Glerárgötu 26.

 

Ritari, Berglind

Fundur 3.mars 2015

# Rætt var um ný yfirstaðið málþing fíkniefnalögreglunnar á Akureyri sem fór fram í Hofi. Þar var farið ofan í hvert fíkniefni fyrir sig og einkenni. Að lokum gafst viðstöddum kostur á að skoða allskonar muni sem gerðir höfðu verið upptækir hér norðanlands. Almennt vorum við sátt með fyrirlesturinn þótt auðvitað hefði ýmsu verið hægt að bæta við. Enda er þetta málefni sem hægt er að teygja á marga kanta.

# Hugmynd kom upp um að senda á Dagskrána fleiri ábendingum/heilræðum eins og við létum frá okkur í fyrra sem þau gætu þá gripið í ef vantar uppfyllingarefni.

# Dreyfing á seglum um útivistarreglur fer fram í öllum skólum 23.-25.mars n.k og ætlar Sigmundur að græja texta sem hægt verður að senda foreldrum eða setja á heimasíður. Þar eru seglarnir kynntir og foreldrar hvattir til að fylgja þessum lögum.

# Að lokum var rætt um gjaldskrárhækkanir hjá Akureyrarbæ sem tóku gildi 1.janúar og næringargildi á uppsettum matseðlum. Komið er uppkast af ákorun til bæjaryfirvalda með að endurskoða þessa hluti.

Ritari, Berglind

Ber það sem eftir er – Þórdís Elva í VMA og Brekkuskóla

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, mynd DV.is
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, mynd DV.is

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir heldur tvo fyrirlestra fimmtudaginn 26. mars, um sexting og hefndarklám. Sá fyrri er í VMA, stofu M01 kl. 17:30 og er haldinn í samvinnu við foreldrafélög MA og VMA. Sá síðari verður í sal Brekkuskóla og hefst hann kl. 20:00. Athugið að fyrirlesturinn er öllum opinn og ókeypis, enda í boði Vodafone.

Ber það sem eftir er: Um sexting, hefndarklám og netið“ er fræðsla fyrir foreldra um öryggi barna í stafrænum samskiptum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ganga nektarmyndir af íslenskum börnum manna á milli á netinu, en lögreglunni hefur reynst erfitt að bregðast við vandamálinu. Dreifingin er stjórnlaus og netið gleymir engu. Sexting (að skiptast á nektarmyndum) meðal barna og unglinga eykur á vandann. Rík þörf er fyrir vitundarvakningu – og upplýstir foreldrar eru besta forvörnin. Ef ekkert er aðhafst gætu fleiri börn lent í því að vera ber það sem eftir er á netinu.

Aðgangur er ókeypis og allir foreldrar eru hvattir til að mæta á fyrirlesturinn enda mikilvægt að kynna sér áskoranirnar sem fylgja tækninýjungum, jafnvel þótt börnin séu enn ung að árum. Fræðslan er í höndum Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, höfundar verðlaunamyndanna „Fáðu já!“ og „Stattu með þér!“ sem notaðar eru í kennslu í grunnskólum landsins. Styrktaraðili átaksins er Vodafone.

Nánari upplýsingar um þetta framtak Þórdísar Elvu og Vodafone má sjá á vef Vodafone.

Tilnefningar til Foreldraverðlaunanna 2015

Óskað eftir tilnefningum til foreldraverðlauna

Nú hefur verið opnað fyrir tilnefningar til Foreldraverðlaunanna 2015.

Hægt er að senda inn tilnefningar  hér: http://www.heimiliogskoli.is/fyrir-foreldra/foreldraverdlaun/tilnefning-til-foreldraverdlauna-heimilis-og-skola/

Einnig er hægt að tilnefna sérstaklega til dugnaðarforkaverðlauna:

http://www.heimiliogskoli.is/fyrir-foreldra/foreldraverdlaun/tilnefning-dugnadarforkur/

Markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fer fram innan leik-, grunn og framhaldsskóla, og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins. Foreldraverðlaun eru veitt til eins verkefnis/viðfangsefnis. Heimili og skóli – landssamtök foreldra standa fyrir Foreldraverðlaunum en samtökin sjálf, stjórn eða  starfsfólk  tilnefna ekki verkefni, heldur vinnur dómnefnd úr innsendum tilnefningum. Niðurstöður dómnefndar byggjast á greinargerðum og rökstuðningi þeirra aðila sem tilnefndu.

Málþing í Hofi 29.jan ’15

Fundarstjóri: Guðjón Hauksson.
Björn Rúnar Egilsson og Sólveig Karlsdóttir verkefnastjórar hjá Heimili og skóla hófu málþingið.
Þau kynntu Heimili og skóla og hægt er að skoða síðuna þeirra áwww.heimiliogskoli.is.
Svo var sagt frá kynningarferðinni þeirra sem þau voru búin að fara í alla skóla á Akureyri og ræða við krakka í 6.bekk. Það var rætt:
-félagslífið á netinu (keppni um vinafjölda á facebook, „like“ við myndir…)
-tískustraumar (misjafnt hvaða „app“ er vinsælast)
-óheilbrigð samskipti á netinu/óæskileg forrit (til dæmis ask.fm)
-erfiðara að fylgjast með notkun eftir tilkomu snjallsíma
-margir aðgangar (instagram/instagram private, mamma og pabbi sjá bara annan aðgannginn..)
-kennarar óöruggir, myndatökum á skólatíma lekið á netið fyrir skólalok
-mikilvægt að foreldrar setji reglur um notkun og ræði við börnin
Til að fylgja betur eftir var minnt á hversu mikilvæg samstaðan er, þá kemur foreldrasáttmálinn að góðum notum.
Næst kom fram Inga Vala Jónsdóttir foreldri.
Alger þögn ríkti í salnum á meðan hún hélt sitt erindi, en þau hjónin misstu dóttur sína fyrir rétt um ári síðan. Dóttir hennar hafði deilt nektarmyndum af sér til aðila sem hún taldi að hún gæti treyst, en fór svo að myndirnar fóru í almenna dreifingu á netinu. Þar sannaðist að það sem eitt sinn fer á netið er ekki hægt að taka til baka. Þessi góða kona rifjaði hreinskilningslega upp sögu dóttur sinnar, Tinnu Ingólfsdóttur, og gerði hverju foreldri ljóst að þetta getur komið fyrir hvern sem er.
Hafþór Líndal frá ungmennaráði SAFT kom næst upp.
Hann ræddi um að öll landamæri væru vissulega farin sem sneru að internetinu.
Einnig sagði hann lítillega frá nýju rafrænu námsefni frá SAFT en það mun vera kynnt á næstunni. Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með saft.is og kynna sér hvað er í boði.
Hafþór minntist einnig á að börnin læra af nethegðun foreldra og að hægt er að kynna sér hvaða forritum er hægt að læsa (netvarar). Minna má líka á ábendingarhnappinn á saft.is
Að lokum komu fram Sigurður Már Steinþórsson og Una Margrét Stefánsdóttir framhaldsskólanemar.
Þau ræddu um hvernig facebook er notaður sem „montmiðill“ og ekkert síður á meðal fullorða en unglinga. Stöðuuppfærslur á facebook er orðin blekking/uppstilling á milli vina og fjölskylda. Annars fannst þeim flest koma fram sem þau hefðu hugsað um að nefna og ítrekuðu bara að foreldrar ættu samskipti við börnin sín og ræddu við þau um heilbrigða notkun á veraldarvefnum. Mikið magn af myndum á netinu í dag er búið að eiga við og breyta eftir hentugleika og það veldur unglingum vanlíðan. Þarna er skortur á raunveruleika og að krakkar halda kannski innst inni að allir þurfi að vera eins og Barbie og Ken.
Eftir umræðurnar hjá þeim var orðið laust og þá tóku við spurningar. Taka má fram að salurinn var þétt setinn og þótti þetta kvöld hafa heppnast einstaklega vel.
Ritari Samtaka, Berglind Ása.